Guðspjall: Matt: 15: 21-28 Lexia: 1. Mós. 32:24-30 Pistill: Jak . 5. 13-20
Í dag er annar sunnudagur í föstu og við íhugum guðspjallstexta dagsins sem er athyglisverður fyrir þær sakir að þar gefur Jesús fyrst sterklega til kynna eftir að hann hefur störf að fagnaðarerindið sé ekki ætlað gyðingum einum heldur öllum heiminum.
Fram að þessum tímapunkti virðist Jesús hafa haldið sig innan gyðinglegs umráðasvæðis en nú heldur hann til byggða Týrusar og Sídonar að því virðist til þess að hvíla sig frá mannfjöldanum sem hafði fylgt honum fram að þessu og þreytt hann. Einnig hafði fjandskapur sá sem hann hafði mætt af hendi Fariseanna og Fræðimannanna sett sitt mark á hann. Það var að sönnu enginn staður til í Palestínu þar sem hann gat fundið næði. Hann hélt því norður í gegnum Galileu þar til hann kom inn á landsvæði Fönikeumanna sem voru heiðingjar í augum gyðinga. Þar vonaðist hann til þess að fá næði til hvíldar og uppbyggingar því að hann skynjaði að krossferill sinn væri skammt undan. Einnig vildi hann þar undirbúa lærisveina sína fyrir þá erfiðu baráttu sem var svo nærri.
En jafnvel þarna í landi heiðingjanna fékk Jesús ekki frið gagnvart mannlegri neyð fólks. Til hans kemur kona sem á dóttur sem er kvalin af illum anda. Hún hlýtur að hafa heyrt eitthvað dásamlegt um það sem Jesús væri búinn að gera fyrir gyðinga í Palestínu. Því fylgdi hún honum nú eftir og reyndi allt hvað hún gat til þess að ná athygli hans og lærisveinanna. Í fyrstu veitti Jesús henni enga athygli. Lærisveinarnir urðu brátt óþolinmóðir og sögðu við Jesú: Láttu hana fá það sem hún biður um. Þá getum við losnað við hana. Viðbrögð lærisveinanna bentu ekki til samúðar í hennar garð heldur þvert á móti. Konan var að trufla þá og þeir vildu því losna við hana eins fljótt og unnt var. Eru þetta ekki kunnugleg viðbrögð í þeim heimi sem við lifum og hrærumst í, að vilja losna við óþægilegar persónur sem hafa truflandi áhrif á okkur? Við samsinnum því en þetta eru hins vegar ekki kristileg viðbrögð frá hendi lærisveinanna né okkur sem viljum kristin vera þar sem elska, samúð og umhyggja er meðal þess sem er mikilvægt í kristinni trú. Jesús stendur hér frammi fyrir vandamáli. Vissulega vildi hann sýna konunni umhyggju. En hún var heiðingi. Ekki aðeins var hún heiðingi heldur tilheyrði hún ættflokki Kanaaníta sem voru frá fornu fari andstæðingar gyðinga. Ísraelsmenn höfðu löngu fyrr á dögum ættfeðranna ráðist inn á landsvæði þeirra og rekið þá flesta í burtu. Þeir Kanaanítar sem eftir urðu leituðust þó við að halda í það sem einkenndi þá. Fram að þessu hafði Jesús einbeitt sér að því að boða fagnaðarerindið týndum sauðum af Ísraelsætt sem Guð hafði forðum gert sáttmála við sem gekk út á það að hann myndi verða þeirra guð ef þeir vildu vera hans lýður.
“Herra, hjálpa þú mér!”, segir konan við Jesú. Hann svaraði með orðum sem virðast móðgandi við fyrstu sýn: “Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana” Með þessum orðum sínum var Jesús að vísa til þess hvernig gyðingar höfðu fram að þessu líkt heiðingjum á hrokafullan hátt við hunda sem ráfuðu um götur þorpa, sjúkir, alsettir kaunum, sem villidýr. . Konan lét ekki þessi orð Jesú á sig fá vegna þess að hún skynjaði að Jesús var ekki þessi hrokafulli gyðingur heldur kærleiksríkur og umhyggjusamur. Hún sagði því : Satt er það, Herra, þó eta hundarnir mola þá,sem falla af borðum húsbænda þeirra”
Jesús gladdist við þessi orð hennar. Í brjósti sínu átti þessi kanversk kona trúarneista sem óx eftir því sem hún átti meira samfélag við Jesú. Hún byrjaði á því að ávarpa Jesú sem son Davíðs sem var kunnuglegt ávarp í garð þeirra sem máttu sín nokkuð mikils í samfélagi gyðinga og höfðu komið mörgu til leiðar í jarðnesku tilliti. Hún endaði samtal sitt við Jesú með því að kalla hann Drottin Jesú.
Jesús skynjaði að þessi kona bar mikinn kærleika í brjósti til barns. Ekki er hægt að líta fram hjá því að slíkur kærleikur speglar ætíð kærleika Guðs í garð barna sinna. Drifkrafturinn í brjósti þessarar konu var elskan en ekkert er til sem dregur fólk nær Guði en elskan.
Jesús virðist hafa knúið þessa konu til þess að líta á sig. Í honum sá hún síðan það sem ekki er hægt að tjá út frá jarðneskum veruleika. Það var eitthvað guðdómlegt sem hún sá við þennan mann. Það var nákvæmlega það sem frelsarinn vildi að hún sæi áður en hann svaraði beiðni hennar. Hann vildi að hún skynjaði að hún væri að tala við lifandi Guð. Og það var einmitt það sem gerðist. Hún byrjaði að veita honum eftirför og samtal þeirra endaði síðan með því að hún laut honum í bæn og beiðni og þakkargjörð. Hún vissi hvað hann gat gert fyrir sig og treysti honum algjörlega fyrir þörfum sínum. Hún átti þessa trú í brjósti sem tilbað Krist. Fyrir vikið hlustaði hann á beiðni hennar og læknaði síðan dóttur hennar. Við sjáum einnig svo mikla trú hjá rómverska hundraðshöfðingjanum sem kom til Jesú og bað hann að lækna svein sinn. Hann sagði að Jesús þyrfti einungis að segja eitt orð og sveinninn yrði heilbrigður.
Í hvert skipti sem við komum til frelsarans í bæn þá er gott að byrja á því að tilbiðja hann sem lifandi Guð og frelsara og bera síðan upp við hann hverjar þarfir okkar eru.
Í lexíu dagsins er greint frá því þegar ættfaðirinn Jakob glímdi lengi við mann nokkurn og vildi ekki sleppa honum fyrr en hann hefði blessað sig. Þarna glímdi Jakob við Guð sjálfan. Sjálfsagt stóðu þeir í fangbrögðum um stund en ég hygg að þeir hafi einnig háð glímu með heimspekilegum vangaveltum um lífið og tilveruna þar sem samband manns og Guðs bar á góma. Í bæninni eigum við samfélag við Guð og við tölum við hann. Stundum sitjum við þögul og hlustum eftir röddu Guðs sem berst til okkar með orði hans úr heilagri ritningu. Stundum talar hann til samvisku okkar og minnir okkur á það sem betur má fara. Það að eiga samfélag við Guð getur verið mikil glíma því að stundum skiljum við ekki vegi hans. En hinu getum við treyst að þó að við sleppum hendinni af honum þá sleppir hann ekki af okkur takinu. Hann vakir yfir okkur því að hann vill að líf okkar verði farsælt í alla staði.
Svo margir biðja án þess að trúa því raunverulega að þeir séu að tala við lifandi Guð sem bænheyri þá og gefast því fyrr upp en ella. En Jesús sagði: Biðjið og yður mun gefast. Leitið og þér munuð finna. Knýið á og fyrir yður mun upplokið verða”. Kanverska konan hafði til að bera óbugandi þrautseigju því að hún vissi innst inni að Jesús var hennar eina von. Þessi kona bað ekki vegna þess að Jesús kynni mögulega að hjálpa sér. Hann var hennar eina von. Þessi von var að sönnu ástríðufull og þörf hennar augljós. Allt hennar dagfar bar með sér að hún myndi ekki taka neitun sem svari við bón hennar. Þannig háði hún slíka glímu við hinn lifandi Guð sem hún skynjaði að stóð fyrir framan sig í manninum, Jesú frá Nasaret . Jesús svaraði bón hennar vegna þess að hún talaði líkt og hún væri fullgildur meðlimur í fjölskyldu Guðs en ekki heiðingi. Og hann gladdist yfir einlægri og vonarríkri trú hennar.
Fagnaðarerindið um Jesú Krist er öllum ætlað, ekki einungis afkomendum Abrahams. Við kristnir menn erum erindrekar Krists í þessum heimi. Við sem meðlimir kirkjunnar í heiminum sem á sér engin landamæri erum því hvött til þess að vinna gegn kynþáttafordómum, greinarmun hvers konar, flokkadráttum, aðskilnaði í hverju formi og stuðla þannig að því að því að fólk og þjóðir lifað saman í friði. En víða er pottur brotinn í þeim efnum eins og við vitum. Við verðum einnig að líta okkur nær því að Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag með öllu því fólki frá fjarlægum slóðum sem flust hefur til landsins og tekið með sér menningu síns lands og trúarsiði. Við Íslendingar verðum að hyggja vel að því hvernig við tökum á málefnum flóttamanna sem reyna að komast inn í landið vegna aðstæðna heima fyrir. Við verðum að gæta þess að brjóta ekki mannréttindasáttmála á þessu fólki sem við höfum skrifað undir og skuldbundið okkur til þess að hlíta.
Það er að sönnu hryggilegt hvernig brotið er á rétti Palestínumanna um þessar mundir þar sem verið er að reisa múra á landamærum Palestínu og Ísraels. Þar eru mannréttindi fótum troðin af hendi Ísraelsmanna. Þeir segjast verða að gera þetta til þess að koma í veg fyrir sjálfsmorðsárásir Palestínumanna. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verður að grípa í taumana og fordæma þennan verknað með afgerandi hætti og knýja deiluaðila til samningaviðræðna sem skili varanlegum árangri. Guð gefi að slíkar viðræður nái fram að ganga og að báðir deiluaðilar skuldbindi sig til að halda friðinn og geri það síðan upp frá því. Amen.