[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Jh 16. 5-15
Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi
Kæri söfnuður!
Við þekkjum víst öll hvað kveðjustundir geta verið erfiðar - bæði fyrir þann sem þarf að kveðja og hinn sem verður eftir. Oft verða þessar kveðjustundir ógleymanlegar og valda straumhvörfum í lífi fólks, annað hvort til hins verra eða betra.
Það er óvissan um það hvað tekur við sem hræðir og ekkert getur bætt upp það hald og traust sem við eigum í þeim sem er að fara ef við elskum hann mikið, ekki síst ef við erum háð honum. Það skiptir ekki máli þótt reynt sé með öllu móti að vekja von um endurfundi í brjósti þess sem verður skilinn eftir því hann er þegar er tekinn að syrgja þann sem verið er að kveðja. Tilraunir til að hugga hafa oft þveröfug áhrif, auka bara á harminn og vonleysið og vissuna um að allt sé ómögulegt og ömurlegt.
Við sjáum fyrir okkur andlit litla barnsins grátbólgið í táraflóði sem herðir grátinn við það að sagt er við það: Mamma kemur aftur og þá verður allt betra. Barnið getur ekki með neinu móti gert sér grein fyrrir því að það sé til góðs að það fari frá mömmu sinni.
* * *
Guðspjall dagsins segir einmitt frá kveðjustund. Það er síðasta kvöldmáltíðin, Jesús er með lærisveinunum í loftsalnum og páskahátíðin í Jerúsalem nálgast, er næstu helgi, og það er mikil eftirvænting í loftinu. Jesús hefur verið með sýnikennslu í leiðtogafræðum með því að þvo fætur lærisveina sinna og gerir það með gjörningi sem kom lærisveinunum algerlega í opna skjöldu og vekur stöðugt furðu og jafnvel hneykslun en þann dag í dag. En ef til vill var þetta fyrst og fremst kærleiksverk þess sem er að yfirgefa þá sem hann elskar.
Þegar lærisveinarnir rísa frá borðum eftir kvöldmáltíðina með Jesú liggur leiðinn út í garðinn. Þar koma varðmenn og hermenn og handtaka Jesú og leiða hann fyrir rannsóknardóm Gyðinga og Rómverja, en Jesús vissi hvað beið hans.
Guðpjallamaðurinn lýsir atburðarásinni og útskýrir hana í ljósi þess sem gerðist í framhaldinu, yfirheyrslnanna, dómsins, krossfestingarinnar og upprisunnar. Jesús vissi að hann yrði líflátinn fyrir boðskap sinn, heimurinn hafði hafnað kærleiksboðskap friðarhöfðingjans. Og það varð að vera svo, það var rökrétt niðurstaða miðað við aðstæðurnar sem þá ríktu í heiminum. Höfðingi heimsins var ekki tilbúinn að taka við syninum frá Guð föður sem elskaði heiminn svo mikið að hann gaf honum son sinn.
Guðspjallamaðurinn notar tækifærið á þessum tímamótum í sögu Jesú til að koma með guðfræðilegar skýringar á atburðarásinni, hlutverki Jesú, sambandi hans við Guð föður og guðfræðina sem nærði söfnuðinn sem Jesús skildi eftir þegar hann dó á krossinum. Kjarninn í þessari guðfræði fjallar um heilagann anda sem Jesús kallar hjálpara og anda sannleika, réttlætis og dóms. Sú predikun og bænirnar sem guðspjallamaðurinn hefur eftir Jesú í 14.-17. kafla guðspjallsins byggja á orðum Jesú og minningum þeirra sem fylgdu honum og tilheyrðu því trúarsamfélagi sem kenndi sig við lærisveininn Jóhannes. Jesús biður biður á þessari kveðjustundu til Guðs fyrir lærisveinum sínum og starfi þeirra:
„Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist ... Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn...Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig.“
Og huggunarpredikun Jesú hljóðar þannig:
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. . .Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann. ... Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“
Líf og starf Jesú heldur áfram í hjálparanum sem hann sendi, heilögum anda sem er óháður tíma, rúmi og vilja mannins. Hann opinberar vilja Guðs sem er sífelt að verki í náttúrunni og mannlífinu og er ekki takmarkaður við rit Biblíunnar. Það var ekki þannig að séð væri fyrir endan á opinberun Guðs um 120 e. Kr. þegar kirkjuþingin samþykktu ritin sem mynda ritsafn Biblíunnar.
Bæn dagsins undirstrikar þetta: “Skapari himins og jarðar, öll verk þín lofa þig. Kenndu okkur að standa ekki þögul hjá þegar öll sköpunin syngur þér lof, heldur gef af mildi þinni að líf okkar allt sé lofsöngur um miskunn þína og máttarverk þín.“
Sköpunarferli Guðs er sívirkt og andi hans blæs m.a. vísindamönnum og listamönnum í brjóst frumkraftinn til góðra verka sem fegra og bæta heiminn og opinbera sannleikann, lina þjáningar og standa með réttlætinu.
Í Postulasögunni segir frá úthellingu heilags anda yfir postulana á hvítasunnudag sem talinn er stofndagur kirkjunnar. Þá hófu þeir að tala ýmsum tungum og fólk af ólíku þjóðerni fékk að heyra boðun fagnaðarerindisins á móðurmáli sínu. Þetta var tákn um kristniboðið sem náði brátt út til endamarka jarðar. Heilagur andi sannleika og réttlætis hefur lifað áfram kirkjunni þrátt fyrir öll mistök og voðaverk sem framin hafa verið í nafni hennar og trúarinar. Andinn dæmir og hann dæmir þess vegna kirkjuna eins og aðrar stofnanir
* * *
Íslenska þjóðin hefur nú í sex ár eða svo reynt að tengjast anda sannleikans. Hún þráir réttlætið og biður um dómsdag yfir höfðingja heimsins. Rannsóknarskýrslur Alþingis um hrun bankanna og stjórn sparisjóðanna eru liður í þessari sannleiksleit. Óskin um nýja stjórnarskrá og siðareglur eru það einnig. Tilraunir til að bæta heimilunum upp óheyrilegan kostnað við óhagstæð lán er liður í því að byggja upp réttlætið á ný. Leitast er við að dæma rétt í brotum þeim og misgjörðum sem urðu til þess að íslensku bankarnir urðu gjaldþrota og efnhagslíf þjóðarinnar fór í rúst. Enn er verið að skilgreina þessi brot og dæma í málum og þetta á eftir að setja svip sinn á íslenskt þjóðlíf lengi enn. Við fordæmum græðgina og hrænsnina sem hefur verið afhjúpuð og við finnum skýringar. Ljóst er að Alþingi Íslendinga brást þegar lögin um einkavæðingu bankanna voru sett árið 2001 í því skyni að byggja hér upp alþjóðlega fjármálamiðstöð. Einkavæðingunni átti að vera lokið innan þess kjörtímabils sem ríkisstjórnarflokkarnir sátu við völd og það leiddi til þess að bankarnir fóru á brunaútsölu og ekki var hugað að því hvort þeir sem keyptu þá ættu nægilegt eigið fjármag eða reynslu í alþjóðlegri bankastarfsemi til að reka þá. Fyrirheit um dreifða eignaraðild voru svikinn og gamla og spilta fyrirgreiðslukerfið ríkti áfram í þessu einkavæðingarferli. Alþingi ber því ábyrgð. Við bendum á embættismennina og ráðherrana sem svikust undan ábyrgð. Vissulega bar ríkisstjórnin ábyrgð.
Háskólafólk getur heldur ekki þvegið hendur sínar í þessu tilliti. Það var fínt og vottur um framsækni að fá sjóði fjármálafyrirtækjanna til að fjármagna heilu námsleiðirnar og einstaka námskeið, já jafnvel nýjan háskóla. Ýmsar þær skýrslur og sérfræðiálit sem stofnanir Háskólans og einstaka fræðimenn létu frá sér skrifast nú ekki hátt á akademíska og siðfræðilega mælikvarða.
En hvað með okkur hinn kristna söfnuð sem eigum trúna á Jesú Krist, rannsökum ritningarnar og boðum fagnaðarerindið?
Þjóðkirkjan getur ekki barið sér á brjóst og sagst hafa varað við hruninu. Yfirstjórn hennar stóð dyggilega við hlið þeirra stjórnmálafla sem keyrðu það af stað og sköpuðu aðstæður þar sem útrásarvíkingar gátu lagt út í áhættuspil með fjöregg þjóðarinnar. Kraftar hennar fóru í innri átök og deilur og í það að byggja upp eigið miðstýrt skrifræði. Hún hefði getað talað spámannlegri röddu inn í aðstæður og flett ofan af hræsni og græðgi og afhjúpað siðleysi og goðsögur sem notaðar voru til að réttlæta framrás óhefts og siðblinds auðvalds. Að vísu var haldið áfram að pedika og leggja út af hinum mögnuðu tvö þúsund ára gömlu textum ritningarinnar um synd, græðgi og hræsni, en þeir voru bitlausir og hjáróma og eins og þægilegt suð í eyrum fjármálaafla sem spiluðu með tífalda ársframleiðslu íslensku þjóðarinnar og létu smáaura af hendi rakna í góðgerðarmál. Einstaka orgel fóru inn í kirkjur og meiru var lofað. Nægði þetta virkilega til að kæfa hina spámannlegu rödd? Svo hljótum við nú að spyrja eftir á.
Þegar farið var að rannsaka gildagrunn þessarar þjóðar, sem svo harkalega hafði siglt í strand, kom í ljós að fólkið í landinu metur mest þau gildi einfaldleika, heiðarleika, kærleika og nægjusemi sem einkennir spámenn Gamlatestamentisins og fjallræðu Jesú Krists. Þetta ber vott um siðrof sem kirkjan sjálf ætti að kannast við og rannsaka hverju sætir. Það veitti ekki af heiðarlegri rannsóknarskýrslu um máttleysi og andvaraleysi þjóðkirkjunnar, kirkju sem þjóðin vill þó hafa ef marka má niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána. Hún er mikilvæg traustsyfirlýsing. Þjóðin vill þjóðkirkju, en kirkjan verður um leið að horfa í eigin barm og fara í rannsókn og leyfa anda sannleika og réttlætis leika um stofnanir sínar og lagfæra það sem betur mátti fara.
Já góði Guð: Kenndu okkur aftur nýtt lag við ljóðið um vonina sem í okkur býr.
En sem betur fer er saga þjóðkirkjunnar undanfarin ár ekki bara sorgarsaga heldur skiptast þar á ljós og skuggar. Í þessu litrófi hefur röddin úr þessum predikunarstóli verið innblásin anda sannleika og réttætis og hér á ég við stuðninginn við réttindabaráttu samkynhneigðra og fólks sem af ýmsum ástæðum stendur höllum fæti í samfélaginu.
Ég man það eins og aðrir landsmenn þegar Kastljós Ríkissjónvarpsins tók að kynna sögu Breiðarvíkurdrengjanna. Það má segja að öll þjóðin hafi fengið áfall og fjöldinn var sleginn furðu yfir því ofbeldi og misnotkun sem hafði þrifist á vistheimilum og stofnunum sem störfuðu á vegum hins opinbera. Fram komu svakalegar raunasögur um það hvernig börn voru slitin frá mæðrum sínum og send út í sveitina með fölskum vonum um nám og sveitasælu.
Kirkjan hér og safnaðarheimilið var opnað fyrir Breiðavíkurdrengjunum og aðstandendum þeirra. Samtök þeirra voru stofnuð hér í safnaðarheimilinu og þau færðu sig svo yfir í aðra bækistöð. Þessi samtök tóku vistmenn annarra upptökuheimila upp á arma sína og lögðu fram mikilvægan skerf í viðleitninni til að kanna þessi mál og koma að einhverju leyti til móts við þá sem höfðu skaðast mest.
Það var engann veginn auðvelt að hafa helgistundir með fólkinu sem kom í safnaðarheimilið á hverjum sunnudegi í nokkra mánuði árin 2007-2008. Ég var meðal þeirra sem aðstoðuðu sóknarprestinn hér og ég fann viðbrögðin þegar við ætluðum t.d. að biðja saman bænina Faðir vor. Það var fyrst eins og að tala við vegg að hefja þessa bæn og ég spurði sjálfan mig hvað kirkjan væri eiginlega að gera með því að koma inn í þessar aðstæður.
Flestir sem höfðu föðurhlutverk gagnvart þessu fólki höfðu brugðist. Ég man eftir því að það var eins og eitthvað losnaði þegar við fórum með þetta vers úr 23. Davíssálmi: „Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum.“
Hér í safnaðarheimilinu fann fólkið rými þar sem óhætt var að snertast. Á Breiðavíkurheimilinu var öll snerting grunsamleg og ofbeldiskúltúrinn fylgdi mörgum vistmönnunum út í samfélagið eftir að þeir losnuðu þaðan. Það var því ánægjulegt að sjá að fólkið kom betur klætt og glaðara eftir nokkrar heimsóknir og það varð æ algengar að sjá það faðmast og brosa.
Megi þessi frelsisandi sannleika og réttlætis ríkja hér áfram og í þjóðkirkjunni svo hún geti veitt honum sem víðast inn í líf einstaklinga og inn á hin ýmsu svið þjóðfélagsins í heild.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.