„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ Jafnvel þótt fólk viti ekkert um uppruna textans, þá þekkja áreiðanlega flestir þessi fleygu orð Prédikarans sem hann lætur falla í lexíu dagsins. Þar setur Prédikarinn, sem bæði er spekingur og konungur, fram raunsæja lýsingu á lífinu, eins og það blasir við honum, með ljóði um tímann. Hann setur ljóðinu yfirskrift sem skilgreinir um hvað það fjallar: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ Þá taka við ljóðlínur sem innihalda pör af andstæðum fyrirbærum sem skilgreina má sem jákvæð og neikvæð og tákna þannig heild, tilheyra hinum ýmsu ólíku sviðum lífsins og er ætlað að ná utan um gjörvalla reynslu mannsins í sköpunarverkinu.
Eðlilega verður skáldið að notast við almennt orðalag og orð sem ná yfir vítt svið: að rífa niður og byggja upp er hægt að sjá fyrir sér að eigi við í margs konar samhengi, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og gráta og hlæja lýsir tilfinningum sem við finnum stöðugt fyrir sitt á hvað. Það kann að hljóma dálítið einkennilega í okkar eyrum að skáldið kjósi að lýsa einhverju sem tengist saumaskap þegar það skrifar: að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma. Sem myndmál bregður þessi málsgrein svo sem upp mjög skýrri mynd af andstæðum en hugsanlega býr meira undir yfirborðinu: mögulega er hér verið að vísa til sorgarsiða hebresks samfélags sem fólust m.a. í því að rífa klæði sín en sauma þau síðan saman aftur að loknum sorgartímanum. Þannig lýsir þessi ljóðlína hvernig sorgin birtist með áþreifanlegum hætti og hvernig að þeim tímapunkti kemur í sorgarferlinu að lífið verður að halda áfram þrátt fyrir sorgina.
Eitt er það í þessum lista yfir fyrirbæri, sem hafa sinn tíma, sem kann að hafa vakið hugrenningatengsl hjá kirkjugestum og á svo sérlega vel við einmitt þessi misserin sem við lifum en það voru orðin: „að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma.“ Ég naga mig nánast í handarbökin yfir að hafa ekki munað eftir þessum texta til þess að leggja hann til við sóttvarnaryfirvöld sem slagorð í baráttunni við Covid. Nákvæmlega hvað Prédikarinn hafði í huga þegar hann skrifaði þetta er ekki gott að segja. Það að faðmast er tjáning á kærleika og vináttu og það að halda sig frá faðmlögum getur þannig verið tákn fyrir þá tíma þegar skugga bregður á vina- og fjölskyldubönd.
Það verður að hafa í huga að ljóðinu er aðeins ætlað að lýsa heiminum eins og hann er, ekki segja hvernig hann eigi að vera eða hvernig fólk skuli haga sér. Margt af því sem það lýsir hefur maðurinn enga stjórn á: hvenær hann elskar eða hatar, hvenær eða hversu lengi hann syrgir. Allir geta einhvern tíma orðið fyrir því, sem ljóðið lýsir, án þess að hafa nokkuð um það að segja.
Og það er líklega, þegar öllu er á botninn hvolft, meginboðskapur ljóðsins um tímann, að sýna fram á að möguleikar mannsins til athafna eru takmörkunum háðir og hið sama gildir um það sem hann hefur stjórn á. Skáldið dregur fram þetta sjónarhorn með spurningunni: „Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?“ Og svar skáldsins er alls ekki það að stritið sé til einskis, af því að maður sé fangi einhvers konar forlagaspírals, sem hann hafi enga stjórn á, heldur þvert á móti skrifar það: „Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“
Lykilorðin hér eru orðin: Guðs gjöf. Að skilningi hins spaka konungs ættu allir að hafa sömu möguleika til að njóta þeirra gjafa sem sköpun Guðs býður þeim að nýta sér en á sama tíma gagnrýnir hann þá hugmynd að maðurinn geti keypt sér hamingju með auðæfum sínum og hefur þá í huga sín eigin orð, sem hann vitnar til í undanfarandi kafla, þar sem hann lýsir því hvernig hann sjálfur byggði upp veldi sitt í Jerúsalem og varð mikill og meiri en allir sem á undan höfðu farið. Hann gleðst yfir því um tíma en sú gleði verður skammvinn og hann finnur enga raunverulega hamingju. Þess vegna leggur ljóðið um tímann jafn ríka áherslu á það sem getur verið manninum mótdrægt og það sem er honum hliðhollt; með því er sett fram sú sýn að þegar öllu er á botninn hvolft séu háir sem lágir undir sama hatti, jafnvel konungurinn sé ekki herra tímans. Einnig honum eru úthlutaðar ákveðnar aðstæður, sem hann hefur ekki fullkomna stjórn á.
Lexía dagsins setur þannig fram gagnrýni á hroka og mikilmennskubrjálæði mannsins, svipaða þeirri sem sagan af Babelsturninum í 1. Mósebók setur fram. Þetta er í raun gagnrýni á „guðs-komplexinn“ svo kallaða, þ.e. trúna á almætti mannsins. Sú trú hefur birst með ýmsum hætti í mannkynssögunni, oft með skelfilegum afleiðingum, bæði innan mannlegs samfélags sem og í afstöðu og hegðun mannsins út á við gagnvart sköpunarverkinu að öðru leyti.
Að mati Prédikarans öðlast fólk þá fyrst sanna hamingju þegar það áttar sig á að því eru ekki allir vegir opnir heldur takmarkast svigrúm mannsins til athafna af undirliggjandi lögmálum og eiginleikum sköpunarverksins sem og þeim óteljandi og ólíku kröftum sem eru að verki í mannlegu samfélagi. Þá fær bæði hið hliðholla og hið mótdræga merkingu, sem er þó ekki endilega augljós eða auðskiljanleg, líkt og endurspeglast í þessum orðum: „Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.“ Þegar mennirnir hafa þannig öðlast forsendu til þess að öðlast hamingjuna geta þeir verið „glaðir og notið lífsins meðan það endist“. Hér er þannig ekki um einhvers konar meinlætastefnu að ræða heldur miklu frekar það sem við gætum kallað „ábyrga nautnahyggju“ sem birtist í því að gleðjast yfir og njóta þess sem nægir til þess að gera sér glaðan dag.
Það væri hins vegar mistúlkun á afstöðu Prédikarans ef hún yrði t.d. notuð til þess að berja niður kröfur launafólks um betri kjör, því hann beinir ekki orðum sínum til almennings og hinna lægst settu í samfélaginu heldur þvert á móti til hástéttarinnar sem hreykir sér hæst og hann sjálfur, konungurinn, fer fyrir fremstur í flokki. Af boðskap hans má því draga þá ályktun að hamingja samfélagsins í heild yrði tryggð ef allir einstaklingarnir sem mynda samfélagið hefðu nóg að bíta og brenna og helst aðeins meira en nóg, svo þeim væri kleift að „matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu“.
Orð Páls um að Guðs ríki sé ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda virðast vera í mótsögn við það að það skipti máli að „matast, drekka og gleðjast af erfiði sínu“. Svo er þó ekki heldur er Páll að vara meðlimi safnaðanna í Róm við því að hneyksla meðbræður sína og systur með mataræði sínu. Í söfnuðunum Róm var samankomið fólk af ýmsum uppruna og með ólíka siði varðandi mataræði, jafnvel siði sem gátu vakið hneykslan hjá öðrum safnaðarmeðlimum og valdið misklíð í söfnuðinum. Þess vegna biður Páll fólk um að halda slíkum siðum út af fyrir sig en keppast „eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið“.
Það er mál margra samfélagsrýna og jafnvel margra ríkustu manna heims að vaxandi ójöfnuður og dýpkandi gjá á milli ríkra og fátækra sé ein mesta ógnin við frið innan samfélaga nútímans. Þess vegna er sanngjörn skipting gæðanna með það að markmiði að allir fái notið lífsins og glaðst af öllu erfiði sínu eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins og stjórnvalda á öllum tímum. Það verkefni býður einnig nýrra stjórnvalda á Íslandi nú eftir kosningar. Það að fá notið lífsins og glaðst af öllu erfiði sínu snýst hins vegar ekki aðeins um krónur og aura; nægur matur og drykkur og húsaskjól er kannski lítils virði ef manneskjan nýtur ekki frelsis og hefur ekki möguleika til þess að hafa áhrif á líf sitt og samfélag eins og kostur er. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að gleyma aldrei hve dýrmæt gjöf lýðveldið og lýðræðið sem því fylgdi var og er. Þess vegna snýst spurningin um sanngjarna skiptingu gæðanna ekki aðeins um krónur og aura heldur ekki síður um það að lýðræðið sé virkt og allir hópar samfélagsins hafi rödd sem hlustað er á og tekið er tillit til. Þar að auki er þessi spurning skyndilega orðin órjúfanlega samfléttuð spurningunni um verndun náttúrunnar og baráttuna við loftslagsvána sem er ekki bara náttúruverndarmál heldur spurning um félagslegt réttlæti.
Jesús heimsækir tollheimtumanninn Leví, sem, líkt og aðrir tollheimtumenn, auðgaðist á tollheimtunni og heimtaði líklega meira en honum bar, í þeim tilgangi að snúa honum af vegi ranglætisins. Brýning Prédikarans og annarra spekinga aldanna um nægjusemi, auðmýkt og þakklæti fyrir gjafir Guðs hefur hljómað fyrir daufum eyrum í hinu iðnvædda neyslusamfélagi sem sást ekki og sést ekki fyrir í Hrunadansi sínum. Þess vegna gerist það nú að sköpunin sjálf, Móðir Jörð, sækir okkur mennina heim með síauknu offorsi með hverju árinu sem líður og ákærir okkur þannig fyrir oflætið sem birst hefur í afstöðu okkar til náttúrunnar og umgengni um hana.
Öllu er afmörkuð stund og nú, árið 2021, í lok september, sem er mánuður sköpunarinnar í kirkjunni, daginn eftir Alþingiskosningar og kosningar í Þýskalandi, hljótum við að taka undir þá bæn barnanna okkar, sem eru erfingjar þessarar jarðar, að sú stund sé loks runninn upp að leiðtogar þjóða heimsins átti sig á því að okkur er ekki stætt á öðru en róttækum breytingum á afstöðu okkar og lífsháttum – frá ofgnótt og neyslu til nægjusemi og þess að njóta í gleði alls hins smáa og hversdagslega með auðmjúku þakklæti fyrir gjafir Guðs.