Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þekkjum við ekki lengur sannleikann þegar við heyrum hann? Guðs orð er sannleikur? En hvar liggur traust þitt í dag? Fátt er mikilvægara en traust, þetta afl sem þarf að grundvalla líf okkar, samskipti og sambönd svo við getum verið frjáls. Sá sem lifir ekki við traust er alltaf hræddur og sá sem er alltaf hræddur er ekki frjáls. Í dag eru margir hræddir, margir rúnir trausti og enn fleiri eiga erfitt með að treysta. Í þeirri staðreynd liggur stærsta áfall þjóðarinnar, við erum ekki frjáls af því við getum ekki treyst og okkur er ekki heldur treyst, umheimurinn véfengir okkur. Og við véfengjum sjálf margar stofnanir og embætti landsins sem okkur er bráðnauðsynlegt að hafa samskipti við, við treystum ekki bönkunum, lífeyrissjóðunum, stjórnmálamönnum og jafnvel forystu verkalýðsfélaga. Við vitum ekki lengur hver segir satt og hver ekki, þetta ástand er í raun miklu verra heldur en tilhugsunin um auknar efnahagsþrengingar, enda liggur fyrir að við höfum ekki jafn góða möguleika á að vinna okkur útúr þeim ef okkur skortir forsendur og getu til að treysta.
En heyrum við sannleikann þegar hann hljómar? Jesús Kristur stóð reglulega frammi fyrir því að vera véfengdur, þeir sem það gerðu stóð ógn af valdi hans af því að hann þurfti aldrei að halda því að sér og samt spratt það endalaust fram, óþrjótandi lind sem allir höfðu jafna möguleika á að svala sér á í hita og þunga dagsins. Vald Jesú Krists krafðist engrar sérhyggju eða þöggunar til að lifa af. Í heiminum er til tvenns konar vald sem á ekki samleið, lífgefandi vald og deyðandi vald. Lífgefandi vald er það vald sem Kristur opinberar og beitir, það laðar fram það besta í manneskjunni, ýtir undir vilja hennar til að deila lífskjörum sínum með öðrum, opnar augu hennar fyrir fegurð margbreytileikans, eflir réttlætiskennd hennar og tjáningarfrelsi og stuðlar að því að manneskjan nái markmiðum sínum. Deyðandi vald dreifist á fárra hendur og er af þeim sökum fjandsamlegt öllum samfélögum, það er knúið áfram af hroka, græðgi, ótta, blekkingum og mannfyrirlitningu. Deyðandi vald horfir fyrst og fremst á manneskjuna sem tæki en ekki sem markmið. Síðast en ekki síst elur deyðandi vald á tortryggni og vinnur þannig gegn trausti. Við þörfnumst hins lífgefandi valds sem dreifir sjálfu sér og elur á mannvirðingu og trausti.
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgum að á dögunum kom hingað til lands mjög merkilegur gestur, Eva Joly fyrrum rannsónardómari sem hefur sérhæft sig í baráttu gegn fjármálaspillingu. Hún var yfir rannsókn á stærsta spillingarmáli Frakklands, þegar olíufélagið Elf var grunað um stórfellt misferli, rannsóknir Joly leiddu til þess að fjöldi háttsettra embættis og stjórnmálamanna var sakfelldur. Þessi merkilega og reynda kona er nú komin hingað til lands til að aðstoða íslensk stjórnvöld við að rannsaka efnahagsbrot sem tengjast fjármálahruninu. Það var mjög merkilegt að hlýða á viðtal við Joly í Silfri Egils fyrir um viku síðan þar kom fram að henni hefur margsinnis verið hótað lífláti, síminn hennar er hleraður og hún neyðist til að hafa lífverði við hlið sér. Samt virðist hún alls ekki vera tilbúin að hörfa undan þeirri ábyrgð að leita sannleikans, jafnvel þó það kosti hana talsverð óþægindi. Einhver gæti sagt að hún væri ekki frjáls manneskja sökum þeirra ógnana sem að henni beinast en þá væri sá hinn sami ekki að skilja hugtakið frelsi. Eva Joly er nefnilega dæmi um manneskju sem lætur ekki óttann stjórna lífi sínu, áttaviti hennar er sannleiksást og djúpstæð réttlætiskennd. Og störf hennar miða að því að skapa aftur grundvöll fyrir trausti í samfélaginu. Ég held að þessi kona sé jafn frjáls og hægt er að vera sem manneskja, hún hefur stöðu og völd og notar hvoru tveggja í þjónustu við samfélagi. Hún hefur tekið þá afstöðu að tjá sig og spyrja spurninga án þess að óttast um stöðu sína, já og jafnvel líf sitt. Fátt er jafn sláandi í velferðarsamfélögum og þegar fólk velur að tjá ekki sannfæringu sína af ótta við að vera sett af, missa stöðu sína eða möguleika, samfélag sem elur á slíkum ótta er borið uppi af deyðandi valdi, já valdi sem deyðir einhverja mikilvægustu eiginleika mannsins, réttlætiskennd og samkennd. Við þurfum alltaf að vera að spyrja okkur þeirrar grundvallarspurningar, hvernig manneskja vil ég vera? Við tökum nefnilega sjálf ákvörðun um það, sama hverjar aðstæður okkar í raun eru, á endanum þurfum við alltaf að svara þessari mikilvægu spurningu, hvernig manneskja vil ég vera? Við þurfum að svara henni í okkar persónulega lífi sem og hinu opinbera. Líf okkar snýst ekki bara um að komast hljóðlega og snyrtilega frá vandamálunum heldur takast á við þau af fullum þunga og skapa þannig gæfuríkt jafnræðissamfélag, þar sem spillingin er ekki þögguð.
Framundan eru alþingiskosningar á Íslandi, von bráðar veljum við okkur fulltrúa til að taka ákvarðanir sem varða farsæld þjóðarinnar, á liðnum áratug hafa íslensk stjórnmál ekki snúist um fólk heldur fé, í því er vandi okkar, íslensku þjóðarinnar, nú fólgin. Guð gefi að nýjir fulltrúar nálgist starf sitt með réttlætis og samkenndar augum svo hér megi ræktast traust í samskiptum manna.
Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð, er kjarnasetning guðspjallsins í dag en líka kjarnasetning í þeim aðstæðum sem þjóðin er að takast á við. Þessi setning verður að varða okkar veg inn í nýja tíma svo að við föllum ekki aftur í sömu gildru að dá og hlýða hinu deyðandi valdi og taka fé fram yfir fólk. Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð og gerir það að sínum veruleika, sá sem er af lyginni heyrir lygina og trúir henni, í guðspjalli dagsins er Kristur að vara okkur við því að verða samdauna spillingunni, óréttlætinu, frægðarglýjunni og mannfyrirlitningunni. Hann varar okkur við afleiðingum þess að leita ekki sannleikans sem um lífsbjörg væri að ræða jafnvel þó sú leit sé óþægileg og jafnvel hættuleg. Trúin er traust á því að fegurð lífsins eins og hún birtist okkur í undrum náttúrunnar, regninu sem fellur þegar því hentar, vindinum sem feykir okkur til, grasinu sem vex aftur þó það sé slegið, ástinni sem getur lyft okkur ofar skýjum, já öllu því sem enginn mannlegur máttur fær við ráðið, opinberi Guð. Og Guð hefur aldrei brugðist trausti okkar, Hann hefur kannski ekki alltaf gert það sem okkur sjálfum hefur hentað en Hann hefur aldrei brugðist trausti okkar, þú sérð að sólin kemur alltaf upp að morgni, börn halda áfram að fæðast inn í þennan heim, manneskjur finna til ástar hver á annarri, allt það sem máli skiptir hættir aldrei að vera til. Og samt höfum við oft efast um Guð en trúað staðfastlega á mátt peninga og valda, sérhagsmuna og flokkadrátta. Já þrátt fyrir yndisleik barnanna og fegurð blómanna, þá höfum við efast um Guðs orð.
Mikilvægasta verkefni þjóðarinnar nú er að skapa traust, innan samfélagsins, milli stofnanna, landa, þjóðar og framkvæmdavalds, það gerum við með því að snúa við öllum steinum í fjörunni, leita sannleikans án þess að sú leit sé knúin áfram af hefndarhug. Sú leit á að koma í veg fyrir að lygin verði okkar Guð, hún á að koma í veg fyrir að manneskjur einangrist í ótta sínum, við að tjá skoðanir sínar og hugmyndir, hún á að koma í veg fyrir að tortryggni verði dyggð, sannleiksleitin á að koma í veg fyrir að orðið réttlæti verði forníslenska og samkennd kvennamál. Sannleiksleitin á að skapa grundvöll samstöðunnar þar sem þjóðin leitar nýrra leiða til hagsældar, ígrundaðra og skiljanlegra leiða, sannleiksleitin á að opna augu okkar fyrir því að allt það besta hefur ekki verið frá okkur tekið.