Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh 4.46-53
Kæri söfnuður!
Það hefur vissulega hrikt í stoðum íslensks samfélags síðustu daga. Við höfum orðið vitni að meiri hamförum en nokkurn gat grunað. Ég þarf ekki að útmála það í dag með mörgum orðum. Aðstæður margra fjölskyldna í landinu eru mjög dökkar, fjárhagslegum grunni og öryggi hefur verið svipt burt. Margir missa atvinnuna sína, margvíslegar breytingar blasa við, hjá því opinbera, hjá fyrirtækjum, fjölskyldum, einstaklingum, - endurmat á lífsháttum blasir við.
Hvað getum við gert? Jú, ráðamenn þjóðarinnar hafa gengið fram og leitast við að uppörva, minnt á gömlu góðu gildin, minnt á allt sem við eigum íslensk þjóð gæðin sem enginn getur tekið frá okkur og við getum áfram byggt á og nýtt.
Það er hvatt til samstöðu í þjóðfélaginu öllu. Fjölskyldur eru hvattar til að standa saman, við erum hvött til að rækta vinaböndin, efla bjartsýnina o.s.frv.
Við sem komin erum til kirkju í dag höfum valið leið kristninnar, þ.e. að koma saman í trú og bæn, til samfélags við Guð og hvert annað. Kristinn söfnuður er það fólk sem velur að koma saman í Jesú nafni.
Við eigum hefðir, gildi, sem reynd hafa verið gegnum margar aldir, já, árþúsundir sem byggjast ekki síst á trúnni, voninni og kærleikanum. Í þessum gildum felast fjársjóðir, sem mölur og ryð eyða ekki né tortíma, fjársjóðir sem hlaðast upp á himnum, svo notuð sé líking Jesú. Þar fellur ekki gengið.
Textarnir sem lesnir hafa verið í dag eru textar þessa sunnudags 21. sd. e. þrenningarhátíð, sömu textarnir í öllum kirkjum hér á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, textar sem vissulega hitta beint í mark, þeir tala inn í aðstæður okkar á mjög áhrifamikinn hátt.
Ég hvet ykkur til að taka blaðið með heim og lesa þá aftur í kvöld áður en þið gangið til náða.
Gamall huggunartexti úr Jesajabók var lesinn, en spámaðurinn er hér að hugga þjóðina sína, sem var öll hernumin til fjarlægs lands, eymd og volæði einkenndi aðstæður allar, - hann flytur huggunarboðskap um lausn, heimkomu, nýtt upphaf, nýja von. Hann talar fyrir munn Drottins: Ég hugga yður, ég sjálfur. Já hann segir ástæulaust að óttast dauðlega menn, hann hvetur til trúar á Guð, skaparann eilífa, sem elskar sköpun sína og vill gefa okkur allt með sér.
Postulinn, sem skrifar úr fangelsi, fjötraður vegna trúar sinnar, hann sendir einnig huggunarorð til safnaðanna, sem við megum taka til okkar: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Og lokaorðin: Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið.
Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.
Í rauninni er Páll hér að tala á svipuðum nótum og margir hafa gert undanfarna daga til huggunar og uppörfunar, margt forystufólk þjóðarinnar.
Þessa Biblíutexta megum við nota til að minna okkur á góðu gildin, til að efla okkur, þjappa okkur saman.
Guðspjallið er líka frábær mynd. Konungsmaður kemur til Jesú í miklum vanda, sonur hans er fársjúkur, dauðvona, allt búið að gera sem hægt var. En þessi góði maður hefur heyrt um Jesú og hann tekur sig upp og nær fundi hans. Konungsmaðurinn hefur eflaust sverið í hirð Heródesar konungs, einn af valdamönnum í þjóðfélaginu. Þar þótti ekki fínt að hlusta á Jesú frá Nasaret - ef hann hefði sagt vinum sínum og samstarfsmönnum frá því að hann ætlaði að biðja Jesú að hjálpa sér, þá hefðu þeir líklega hlegið að honum. En nú skipti það ekki lengur máli, nú lá lífið við, hann fór og bað Jesú að koma niður eftir og lækna son sinn, - hann var ekki í vafa um að hann gæti hjálpað drengnum.
Jesús svaraði manninum með mjög athyglisverðum hætti. “Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki!” Við hvern var hann að tala, var hann að tala til fólksins sem stóð hjá og fylgdist með, - var hann að tala um konungsmanninn og vini hans,? - við vitum það ekki, en eitt er víst, Jesús var að prófa manninn, - var honum alvara? Já, honum var alvara, honum lá á: Drottinn kom þú áður en barnið mitt andast. - Jesús horfði á hann og sagði: Far þú, sonur þinn lifir!
Já, sonurinn lifði og þessi konungsmaður tók trú og allt hans heimafólk, segir í guðspjallinu. Lífið tók nýja stefnu, fjölskyldan stóð saman í trú, von og kærleika.
Þetta var annað táknið sem Jesús gerði í Kana í Galíleu, segir hér. Tökum eftir orðalaginu, þetta var tákn, m.ö.o. þetta var boðskapur, Jesús var að benda á veg lífsins.
Ég lifi og þér munuð lifa. Prédikun Jesú stefnir alltaf út inn í eilífðina, hann er að tala um eilíf gildi
Oft heyrir maður spurninguna, - já, en hvers vegna svarar ekki Guð bænunum mínum, hvers vegna dó barnið mitt, hvers vegna þurfti ég og mitt fólk að líða og þjást. Hvers vegna ég, hvers vegna þarf ég að missa vinnuna, hvers vegna ég!
Jesús spurði líka þessarar spurningar: Hví hefur þú yfirgefið mig, Guð?
Gáta þjáningarinnar er erfið og við fáum ekki svör við öllu sem okkur langar til að vita. En reynsla trúarinnar er jafn gömul sögu mannsins og menningarinnar. Og vitnisburður trúarinnnar er sterkur.
Oft hef ég minnst gamallar konu sem ég heimsótti í ákveðnu samhengi í mínu starfi. Hún sagði mér sögu sína, hún hafði búið allan sinn búskap á Vestfjörðum við mjög erfið skilirði, missti manninn sinn í sjóinn, missti börn á öllum aldri. En alltaf hélt hún áfram og kom fjórum börnum til manns, - og svo horfði hún á mig með glampa í augunum, glampa sem ég gleymi aldrei: Prestur minn, ég hefði aldrei komist í gegn um þetta ef ég hefði ekki átt trú á Guð.
Far þú, sonur þinn lifir!
Hvað þýðir þetta í dag, jú það þýðir m.a. að við getum farið hérðan í þeirri trú, að lífið heldur áfram, - göngum veginn fram, kæri söfnuður, - í trú, von og kærleika.
Í þjóðsöngnum er bæn sem þjóðin má gera að sinni:
Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá, Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf Sem lyftir oss duftinu frá Ó, vertu hvern morgun vort ljúfasta líf, Vor leiðtogi ´í daganna þraut Og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf Og vor hertogi ´á þjóðlífsins braut Íslands þúsund ár, Íslands þúsund ár Verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkis braut.