Hvað er falleg kirkja?

Hvað er falleg kirkja?

Hún smurði hann til að hann sléttaði allar hrukkur heimsins. Hvað er fagurt – ef ekki það?

Síðustu fjórtán árin hafa verið gefnar út bækur um friðaðar kirkjur Íslands. Nú eru þegar komnar út tuttugu bækur og margar eru í gerðinni. Þetta eru vandaðar bækur sem öflugir og kunnáttusamir fræði- og listamenn hafa skrifað og unnið af mikilli alúð. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Bækurnar eru hafsjór fróðleiks um guðshúsasögu þjóðarinnar sem er jafnframt mikilvægur þáttur menningarsögu Íslendinga.

Á árinu 2012 komu út tvö bindi um friðaðar kirkjur í Reykjavík og þar er fjallað m.a. um Neskirkju. Þar kemur vel fram - og sagan er sögð talsvert ítarlega - að á undirbúnings- og byggingartíma kirkjunnar hafi mörgum þótt kirkjan ljót og ókirkjuleg. Margir töluðu með niðrandi hætti um teikningar og Ágúst Pálsson arkitekt. Byggingunni var fundið flest til foráttu og hæðst að þeim sem vildu og lögðu á sig mikla vinnu til að hún yrði byggð.

Hvað finnst okkur um kirkjubyggingar almennt? Hvað er ljót kirkja og hvað er falleg kirkja?

Kirkjulegt Þau sem koma í Neskirkju hafa stundum sterkar skoðanir á húsinu. Kona sem kom í kirkjuna í fyrsta sinn leit í kringum sig og sagði við mig: ”Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.”

Skömmu síðar stóð ungur drengur við kórtröppurnar og horfði fram í ósamhverfa kirkjuna og sagði hugsi: ”Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.” Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg – þetta ”á að vera” - væri hún þar með ekki falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika - að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og kirkjulegt skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll við viðmið.

Neskirkja á afmæli á þessum degi. Hún 56 ára í dag. Þegar kirkjur eru vígðar fæðast þær til ákveðins hlutverks í þágu Guðs og manna. Vígsludagur er kirkjudagur og pálmasunnudagurinn er því ávallt hátíðardagur í okkar söfnuði.

Smurningin í Betaníu Í guðspjalli dagsins er sagt frá nafnlausri konu. Hún var í veislu í Betaníu sem var stutt frá Jerúsalem. Þessi kona kom með rándýr smyrsl, reyndar svo fágæt og stórkostleg að þau kostuðu árslaun. Þetta var no-name-tegund þess tíma. Jesús Kristur var göngumaður og það var þakkarvert að smyrja fætur ferðamanna. Fætur þeirra voru gjarnan sprungnir og lúnir. Smyrsl gerðu þeim gott.

En ekki voru allir sáttir við að dýrmæti væru notuð á tær og hæla. Nöldurhópurinn sem var á staðnum og sá til varð æfur yfir að konan skyldi nota öll dýru smyrslin og sóa þeim á einn mann. Það var nú reyndar væluefni kvörtunardeildarinnar. Meðal Gyðinga var tíminn fyrir páska tími hjálparstarfs. Þá var vaninn að verja fjármunum til fátækra. Jesús vissi það vel og náði að skerpa mál guðsríkisins og forgang í lífinu með því að minna gagnrýnendur á að fátækir yrðu alltaf til í heiminum en hann ekki.

Það verða alltaf til einhverjir setja ómaklega út á. Gagnrýni er mikilvæg en tapar gildi ef hún er nöldur. Hvað skiptir máli, hvað er mikilvægt? Og guðspjallið réttlætir að gríðarleg verðmæti væru notuð til að smyrja Jesú sem setur reyndar þessa smurningu í hið stærsta samhengi guðsríkisins. Jesús var á leið til Jerúsalem og vissi að hann væri í bráðri lífshættu. Því leyfði hann þennan smurningargjörning. Hann leyfði að hann yrði smurður vegna dauða – og hann samþykkti líka að hann yrði smurður því þannig fóru menn með kónga. En hann var ekki pólitískur kóngur. Guðsríkið varðar ekki stjórnun heldur líf. Erindi höfundar kristninnar varðaði ekki félagslegt valdabrölt. Hlutverk hans og erindi var að veita málum Guðs brautargengi, frelsa heiminn frá vitleysu og illsku. Nöldrararnir hugsuðu efnislega, peningalega og smæðarlega, en Jesús brást við í anda hinna stærstu gilda – Guðs. Hvað er fallegt og af hverju?

Gagnrýnendum þótti konan hegða sér illa, framferði hennar væri ljótt og andstyggilegt. En það sem var aðalmál smurningarinnar var að konan tilbað Jesú Krist. Hún gerði sér grein fyrir að hann væri mikilvægari en allt annað í veröldinn, vermætari en öll auðlegð mannanna. Þess vegna smurði hún. Það var jáyrði hennar við himninum og lífinu. Hún átti í sér elsku til Jesú Krists, hún trúði að hann væri hinn útvaldi sem Guð sendi. Hún smurði hann til að hann sléttaði allar hrukkur heimsins. Hvað er fagurt – ef ekki það?

Fegurð fólks Hvað er falleg kirkja? Þeirrar spurningar var spurt á sínum tíma þegar Neskirkja var byggð. Og alltaf kvikna álíka spurningar þegar hugað er að búnaði, rými og húsagerð, líka listsýningum. Sýning Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá verður opnuð á Torginu eftir messu í dag. Það er sýning sem höfðar til fegurðarskyns okkar, tilfinninga og skynjunar og laðar fram íhugun. Æðakerfi landsins, blá-hvítlituð ský og blúsaðar pípur hafa alla vega náð að kalla fram spurningar í mér um hið samhengi lífs í landi okkar.

Í gær voru tvær fjölmennar fermingarathafnir hér í kirkjunni. Fimmtíu fermingarbörn gengu fyrir altarið og sögð sitt já. Kirkjuhúsið hélt vel um þennan mikilvæga viðburð í lífi þeirra og fjölskyldna þeirra. Þetta voru athafnir þrungnar tilfinningum og bænum. Og það er í því samhengi sem fegurð kirkju verður best lifuð.

Föstutíminn er ætlaður tiltekt og hreingerningu. Pálmasunnudagur er dagurinn fyrir álagspróf sálarinnar. Sjáum við rétt, heyrum við raddir himins, erum við tengd því sem mestu máli skipti? Erum við í lagi? Við getum ákveðið að brjóta hin dýrmætu ker okkar. Það merkir að bera fram sjálf okkur og það sem skiptir okkur máli fram fyrir Guð, gefa Jesú Kristi dýrmæti okkar og halda engu eftir.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt. Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En þegar Guð horfir á okkur erum við jöfn og stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn.

Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í vitund fólks í hverfinu og hefur notið velvilja. Stór hópur þjónar kirkjulífinu og gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Mér þykir Neskirkja falleg kirkja, en stórkostlegust er kirkjan vegna fólksins sem sækir kirkjuna, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar.

Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Neskirkja – fyrsta nútímakirkjan á Íslandi - er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. En fegurð Neskirkju verður endanlega skilgreind af öðru en ytri ásýnd, sem þó er mikilvæg líka. Neskirkja er fallegt hús því hún er hús Guðs sem er í sköpun sinni og meðal manna, meðal okkar. Það er fegurðin í fyllingu sinni.

Amen.

Hugleiðing í Neskirkju á pálmasunnudegi, 24. mars, 2013. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957.