Guðspjall: Matt. 3. 13-17 Lexia: Jes . 52. 13-15 Pistill: 1. Pét . 3. 18-22
Skírn Jesú átti sér stað þrjátíu árum eftir fæðingu hans. Við minnumst hennar nú við upphaf lönguföstunnar vegna þess að með henni lýsir Guð faðir því yfir að sonur sinn Jesús sé genginn inn í mannleg kjör og að mennirnir skuli hlýða á hann fyrst og fremst. Skírn Jesú í ánni Jórdan markar þannig upphafið að starfi hans í þágu mannanna barna. Það er að sönnu hryggilegt að á þriggja ára starfstíma sínum skuli Jesú hafa þurft að mæta slíku mótlæti sem hann gerði, þjáningu og dauða en vegir Guðs eru órannsakanlegir. Allt var þetta mikilvægur þáttur í hjálpræðisverki Guðs í þágu mannanna barna á öllum tímum. En það var hulið sjónum manna á þeim tíma er Jesús gekk út í ána Jórdan til að taka skírn af frænda sínum Jóhannesi skírara. Jóhannes vissi að Jesús þyrfti ekki á iðrunarskírn að halda vegna þess að Jesús var hreinn og lýtalaus í hans augum. Engu að síður bað Jesú hann um að skíra sig til þess að fullnægja öllu réttlæti því að með þessum hætti gæti fólkið skynjað að Guð sjálfur hefði gengð inn í mannleg kjör. Yfirnáttúruleg rödd Guðs sem heyrðist eftir skírnina staðfesti það síðan en röddin sagði samkvæmt guðspjallinu: “Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á”.
Holdtekja Guðs í Jesú Kristi markaði fyrsta upphafið að því að Guð væri genginn inn í mannleg kjör. Hann var að sönnu kominn til mannanna barna og færi ekki aftur fyrr en hann hefði fullnað það verk sem honum var falið að vinna. Holdtekjan gefur okkur þannig fullvissu um það að Guð er með okkur í dagsins önn. Í kjölfar hennar tók Guð fleiri skref í átt til okkar mannanna barna í því skyni að ganga inn í okkar kjör. Fyrst var barnið í jötunni borið inn í samkunduhúsið 8 daga gamalt samkvæmt gamla sáttmálanum og umskorið í viðurvist safnaðarins og því gefið nafnið Jesús. Umskurnin var fyrirmynd skírnarinnar. Því næst tók Guð næsta skref til okkar með því að Jesús fór tólf ára gamall með foreldrum sínum á páskahátíðina í musterinu í Jerúsalem þar sem hann týndist og fannst síðan þar sem hann var á tali við fræðimennina í musterinu. Eins og við munum þá undruðust þeir og foreldrar Jesú hvað hann var vel að sér í lögmáli Gyðinga. Jesús undraðist viðbrögð foreldra sinnar sem leituðu hans meðal ættingja og spurði: “Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?” Jesús spurði og hann svaraði spurningum vegna þess að hann vildi taka þátt í lífi mannanna allt frá unga aldri en fékk ekki þar til stóra stundin rann upp með skírninni í ánni Jórdan.
Þegar sú stund rann upp fór hann frá heimabæ sínum Nasaret og blandaði sér í mannfjöldann við ána Jórdan. Fram að þeirri stundu hafði hann verið sæll vegna þess að hann naut öryggis og verndar foreldra og ættingja. Auk þess var mannfjöldinn fávís um hagi hans. Einhverjir vissu hverra manna hann var. Með því að taka skírn af Jóhannesi varð Jesú berskjaldaður og árásirnar á hann hófust, fyrst í eyðimörkinni þar sem hans var freistað af djöflinum ífjörtíu daga og fjörtíu nætur og síðan af þeim sem vildu hann feigan fyrir það að dirfast að segja að hann gæti fyrirgefið syndir en enginn nema Guð gat fyrirgefið mönnunum syndir þeirra að sögn rétt trúaðra gyðinga. Jesús lét ekki freistast af djöflinum í eyðimörkinni og sýndi þannig fram á það að hann var fullkomlega fær um að bera þær mörgu og þungu byrðar sem voru á hann lagðar. Mannfjöldinn lét hann ekki í friði upp frá því að hann kom til baka úr eyðimörkinni. Hann hófst handa og var mjög starfssamur um þriggja ára skeið. Margt sem hann gerði bar vitni um guðlegt eðli hans. Þrátt fyrir það átti hann erfiða daga vegna þess að það voru svo margir sem voru ekki tilbúnir til þess að trúa því að hann væri sá sem hann sagðist vera. Fyrir vikið varð hann þreyttari og þreyttari fyrir ágang mannanna barna í orði og verki og leið að lokum hinn versta dauðdaga á krossi fyrir hendur Rómverja sem tóku hann af lífi.
Margar kvikmyndir hafa verið framleiddar um ævi Jesú undanfarna áratugi þar sem yfirleitt hefur verið dregin upp falleg mynd af Jesú þar sem hann vinnur sigur á myrkraöflunum með upprisu sinni frá dauðum.
Kvikmyndaleikarinn og leikstjórinn Mel Gibbson er nýbúinn að framleiða kvikmynd um síðustu tólf stundirnar í lífi hans sem hefur vakið mikla athygli og umtal vegna þess að mörgum sýnist hann vera þar að ala á hatri í garð gyðinga. Sjálfur hefur hann borið það til baka en hann tilheyrir mjög íhaldssömum kristnum söfnuði sem heldur fast í gömul gildi og hefðir. Í kvikmyndinni er lögð áhersla á allar þær þjáningar sem Kristur leið síðustu stundirnar í lífi sínu og þá grimmd sem honum var auðsýnd af hendi Rómverja..
Af guðspjöllunum má ráða að það voru konur sem stóðu við kross hans og það voru konur sem voru fyrstu vottarnir að upprisu hans frá dauðum. Þær voru fyrir vikið fyrstu lærisveinarnir. Það er vert að minnast þeirra í dag á þessum konudegi. Þær skiptu verulega miklu máli í lífi Jesú. Hann var sonur Maríu og Elísabet var móðir Jóhannesar skírara sem skírði Jesú. Og María Magdalena var ein af þeim fyrstu sem mættu honum upprisnum.
Lærisveinarnir sem guðspjöllin segja að Jesú hafi formlega kallað til fylgdar við sig voru ekki konur heldur menn á unglingsaldri sem varla höfðu þroska til þess að fylgja honum alla leið í fyrstu. Enda flúðu þeir af hólmi þegar Kristur var handtekinn og földu sig. Fyrir vikið stóðu þeir fæstir við krossinn með konunum og biðu dauða Jesú né við gröf hans síðar um kvöldið og nóttina.
Í dagrenningu á þriðja degi var ljóst að Kristur hafði borið sigur af hólmi yfir öflum myrkurs og dauða. Þegar hann birtist lærisveinunum upprisinn þá styrktist trú þeirra og hann fól þeim það verkefni að fara um allan heim og skíra fólk og kenna því að halda allt það sem hann hafði kennt þeim.
Vatnið í iðrunarskírn Jóhannesar sem Jesú gekkst undir var tákn um endurnýjað líferni þar sem syndunum var drekkt og skírnarþeginn gaf heiti um nýjan lífsmáta. Þetta var skírn gamla sáttmálans, skírn lögmálsins. Sú skírn sem Jesús bauð lærisveinum sínum að framkvæma er hins vegar skírn nýja sáttmálans, skírn náðarinnar þar sem Guð gerir náðarsáttmála við skírnarþegann án þess að hann þurfi að sýna fram á að hann verðskuldi þessa gjöf sem skírnin er.
Orðið skírn þýðir hreinsun og svo er einnig um hina kristnu skírn. En merking hennar nær enn dýpra. Kristin skírn er skírn í heilögum anda og eldi þar sem hið gamla brennur upp og innganga inn í nýjan veruleika á sér stað. Hið synduga eðli deyr fyrir eld heilags anda og upp rís ný persóna. Páll postuli kemst vel að orði í þessu sambandi er hann segir: “Ef einhver er í Kristi er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til” Hin kristna endurfæðing á sér stað innra með skírnarþeganum þegar honum verður ljóst að hann hefur óverðskuldað, án skilyrða, þegið náð Guðs og kærleika í sinn garð.
Í skírninni erum við greftruð með Kristi og eignumst hlut í upprisukrafti hans. Í skírninni í nafni Jesú er sekt syndarinnar grafin og Jesús tekur sér bústað í hjartanu. Við umskurnina urðu börn Ísraelsmanna hluttakendur í sáttmála Guðs, óverðskuldað sakir fyrirheitanna. Eins fá litlu börnin sem eru skírð hlutdeild í ríki Guðs án þess að vinna til þess. Enginn eignast hlut í ríki Guðs nema hann veiti því viðtöku eins og börnin, að gjöf.
Í pistli dagsins úr fyrra Pétursbréfi er þetta dregið ágætlega saman. Jesús Kristur var réttlátur en lét líf sitt fyrir rangláta til að leiða okkur til Guðs. Þetta stendur öllum opið í hinum nýja sáttmála kærleikans fyrir skírnina sem er ekki ytri hreinsun eins og iðrunarskírn Jóhannesar heldur “bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists”. Í þessu er hin kristna endurfæðing fólgin, hinni góðu samvisku sem gefur tóninn fyrir hið nýja líf. Bæði er það að hið gamla er orðið að engu og því þurfum við ekki að burðast með samviskukvalirnar lengur og eins hitt að hið nýja líf í Kristi veitir okkur kraft til að breyta rétt þaðan í frá. Hin daglega endurnýjun skírnarinnar felst hins vegar í því að skoða hug sinn og líf, iðrast þess sem út af ber, biðja Guð um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists. Hin einfalda athöfn, signingin, er slík bæn, áminning til okkar um að við tilheyrum Jesú Kristi og að allt okkar líf eigi að mótast af þeim nýja veruleika. Signingin er því einnig játning þess að við þiggjum að Guð, faðir, sonur og heilagur andi gangi til liðs við okkur í lífinu. ´Það er einnig í því fólgin játning að ganga til fundar við Guð í helgidómi hans og syngja honum lof á degi sem þessum eða sitja við útvarpstækið á sunnudagsmorgni og hlýða á útvarpsmessuna. Guð gefi að okkur auðnist að ganga á játningarvegi í gegnum lífið þar sem við finnum okkur borin á örmum hans á degi hverjum. Amen.