Jólin eru að koma. Þau eru okkur flestum góður tími. Fjölskyldugleði og hátíð. Jólin vekja með okkur allar minningarnar um það sem var og líka það sem við höfum misst. Það er sárt að missa. En við því verður ekkert gert. Við verðum að lifa áfram. Við skulum ekki gleyma að halda lífi í vonum og væntingum um hið góða sem bíður okkar líka þarna í framtíðinni. Finnum ríkidæmið í því sem við þó eigum og höfum því það hjálpar okkur að mæta dögunum sem koma til okkar einn af öðrum. Stundum koma dagarnir hægt en oftar með hraða sem við ekki skiljum. Hratt flýgur stundin. Jólin í fyrra nýliðin og nú koma þau aftur.
Um miðja átjándu öld var uppi enskur rithöfundur sem hefur haft mikil áhrif með skrifum sínum. Hann hét Charles Dickens. Hann ritaði sögu sem átti eftir að bjarga jólunum á merkilegan hátt. Jólin voru á þeim tíma næstum horfin úr samfélaginu. Frá 1790 til 1835 voru jólin ekki nefnd á nafn í stærsta dagblaði Englands sem var The Times. Í kirkjunni var líka deyfð og áhugaleysi. Til dæmis voru aðeins 8 manns í jólaguðsþjónustu í hinni risastóru dómkirkju st. Pálskirkjunni í London árið 1800. England var orðið það sem kallast nútímavætt land. Helgidagar voru lagðir af. Nokkrir voru auðugir en margir fátækir. Fáir héldu jólin.
En svo kom sagan, A Christmas Carol, eða jólaævintýrið um Ebeneser Schrooge, eða Skögg eins og við köllum hann. Allt við jólin var hræsni og aumkvunarvert. Allt þetta tal um að gefa til að gleðja aðra var var tóm heimska og húmbúkk. Sagði Skröggur. Hjá honum snerist allt um krónur og aura. Kalt og yfirvegað afþakkaði hann boð um að halda jólin hjá frænda sínum, Fred.
Það var jólanótt og Skröggur sefur. Þá skyndilega fær hann heimsóknir þriggja anda. Andi fortíðar sýnir honum jól liðinna daga, jól berskunnar. Glaðar og góðar stundir sem hafa spillst af græðginni. Andi nútíðar sýnir fólk sem gleðst yfir jólunum, þrátt fyrir fátækt og skort. Hann sér sinn eigin starfsmann sem er lúsfátækur því Skröggur borgar honum svo lítið. Andi framtíðar tekur hann með í kirkjugarðinn þar sem við blasir dapurleikinn. Enginn harmar dauða Skröggs. Minning hans er döpur og fölnuð fljótt.
Við sem þekkjum þessa sögu vitum að heimsóknir andanna urðu til að hrista rækilega upp í tilveru Skröggs karlsins. Hann sem hataði jólin, var nískur og illur í öllum samskiptum tók miklum háttaskipturm og varð manna gjafmildastur, Enginn hélt upp á jólin sem hann og enginn var glaðari í hinum sanna jólafögnuði. Hann opnaði hjarta sitt kærleikanum svo sannarlega.
Jólaævintýrið kom út 17.desember i 1843 i London. Það vakti strax mikla athyggli og var lesið að segja má upp til agna. Síðan hefur það margoft verið gefið út og á alltaf erindi við okkur. Gjafmildi, kærleikur, gestrisni og umhyggja eiga stöðugt erindi við okkur og það minnir Jólaævintýrið okkur á.
Þegar tilveran ætlar að verða grá og líflaus, köld og umhyggjulaus þarf að minna á þetta góða ævintýri. Þegar gildi okkar og verðmætamat brenglast þá þarf að minna á þetta enn að nýju. Hið góða á alltaf erindi til okkar. Stöðugt þarf að minna okkur á góðu gildin. Oft erum við nefnilega eins og í sporum Skröggs og höfum misst sjónar á því sem skiptir máli í lífinu.
Senn fögnum við jólum enn og aftur. Við erum jólabörn leynt og ljóst. Við berum þann neista í okkar sem jólalögin og skreytingarnar á aðventu hjálpa okkur að viðhalda. Á okkar fyrstu andartökum líktumst við Jesúbarninu mest. Saklaus og ómálga börn. En síðan hefur ýmislegt gerst. Heimurinn hefur leitt okkur áfram á sínum brautum. Hjörtun hafa harðnað og hugurinn með. Oft verðum við einmana á lífsgöngunni og sjáum ekki að Jesús er þar líka og vill ganga með okkur. Það þarf að opna augu okkar svo við sjáum hann. Opna eyrun líka svo við heyrum boðskap hans. Boðskap sem við höfum heyrt en gleymt. Boðskapur Jesú er sá sami öld af öld og á alltaf erindi til okkar. “Guð er kærleikur, hann er gæskuríkur og vill okkur vel ”. Hin stöðuga barátta hvers kristins manns er að ná að líkjast Jesúbarninu að nýju. Fylgja í sporin hans er við vöxum úr grasi. Það er erfitt því oft reynist okkur auðveldara að feta veginn hans Skröggs úr Jólaævintýrinu.
Jólin eiga að verða okkur hátið ljóssins og friðarins. Dagarnir þegar hjörtu okkar mýkjast og við lofum sjálfum okkur að verða betri manneskjur. Að verða aðeins betri hvert við annað er gott markmið. Megi barnið koma tíl þín með gleði og elsku sem hrærir við þér þessi jólin.
Þrátt fyrir allar ógnir heims, þá myrku skýjabakka sem við sjáum í mannlífinu. Hatur, fátækt, kúgun, ótta og allt hið vonda þá ber auga Jesúbarnsins það blik sem fyllir okkur þrótti og djörfung. Barnið ber blik kærleikans sem færir okkur bjartsýni til að mæta því sem að höndum ber og snúa öllu sem við megnum á betri veg. Guðs blessun og hans góði vilji er stærra en allt myrkur veraldar! Guð blessi okkur jólin og megi friður hans sem æðri öllum skliningi varðveita okkur allar stundir. Gleðileg jól!