Trú, von og stjórnarskrá

Trú, von og stjórnarskrá

Nú þurfum við Íslendingar að efla með okkur trú og von, trúa því að hið óáþreifanlega verði að veruleika, að nýtt þjóðfélag rísi upp úr rústum Hrunsins. Senn líður að setningu stjórnlagaþings. Fulltrúum á því þingi bíður vandaverk.

Hægt er jafnframt að hlusta á ræðuna með því að smella hér. Í ræðunni eru innskot sem ekki eru í textanum en eru á hljóðuppötkunnni.

Á dögunum sat ég með þremur konum úr söfnuðinum [innskot á hljóðupptöku] og við flettum í gegnum lítið rit sem Neskirkja gaf út fyrir nærri 9 árum og ber yfirskriftina Trú og líf í opnu húsi Guðs. Þar er að finna markmiðssetningu safnaðarfólks frá því í byrjun aldarinnar, drauma um framtíðarstarf safnaðarins. Í textanum segir t.d.:

[Innskot sem er á hljóðupptökunni og úr heftinu Trú og líf í opnu húsi Guðs, Neskirkja 2002 s. 11]

Þessi orð voru eitt sinn ekkert nema trú og von, framtíðarsýn, orð sem fólu í sér fullvissu um að eitthvað myndi verða að veruleika í fyllingu tímans. Trúin er „fullvissa um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“

Draumar rætast. Stórir draumar rætast. Þessi kirkja er dæmi um draum sem rættist, draum fólksins í Vesturbænum fyrir tæpum 70 árum.

Ég man vel þegar ég hóf að byggja hús yfir fjölskyldu mína. Ég man þegar ég stóð í grunninum með tvö tréborð og hamar og negldi fyrsta naglann í það hús. Hægt og bítandi reis það af grunni, borð fyrir borð, nagla fyrir nagla, járn fyrir járn, hræru fyrir hræru. Öll þekkjum við það hvernig draumar rætast. Nám sem hefst á lestri fyrstu síðu í bók endar fyrir þrautseigju og úthald með útskrift. Barn verður til í móðurkviði, vex og dafnar og fæðist til lífs í ókunnum heimi. Ár eftir ár sinna foreldrar barni sínu sem vex og þroskast uns það verður sjálfbjarga og síðar sjálfráða. Þetta er lífsins saga, saga um trú, von og kærleika. Allt lífið byggist á trú og heimurinn allur er orðinn til fyrir trú, hann var skapaður fyrir trú Guðs og allar framfarir í heiminum sem telja má til okkar manna eru sprottnar af trú og von. Ógjörningur er að lifa án trúar.

Spurningin er hins vegar ætíð þessi: Hvert er andlag trúar mannsins? Hvert beinist trú hans? Beinist hún að hinu stundlega eða eilífa, hinu jarðneska eða himneska, að skurðgoðum eða Guði almáttugum?

Lærisveinarnir vissu hvert andlag trúar þeirra var og þeir sögðu við Jesú: Auk oss trú. Þeir beindu orðum sínum að honum sem uppsprettu trúarinnar. Það er merkilegt í sjálfu sér að þeir skuli hafa litið á hann sem guðlega veru.

Hversu mikla trú þurfum við að hafa? „Mín trú er svo veik og lítil.“ Þannig hef ég stundum heyrt tólk segja og bæta svo við: „En þú ert svo trúaður og bænheitur.“ Er hægt að mæla trúna, vega hana og skilgreina með mælitækjum vísindanna? Er trúin gefin í kílóatali? Nei, en við getum vissulega skynjað hvort von okkar og trú er bjargföst sannfæring eða óljós vitund um að eitthvað verði. En hversu mikla trú þurfum við til þess að þóknast Guði? Lítill kertalogi breytir almyrku herbergi í sýnilegt rými, ein agnar lítil týra megnar að láta skuggana dansa á veggjum.

Þið tókuð væntanlega eftir því að í pistli dagsins segir að ógerningur sé að þóknast Guði án trúar. Við verðum að trúa því að hann sé til og að hann heyri bænir okkar. Jesús brosti án efa að bón lærisveinanna og tók líkingu af mustarðskorni, sinnepsfræi, sem er agnarlítið en gefur þó af sér jurt og enn fleiri fræ sem fjölgar og fjölgar uns óteljandi verða. „Mustarðskorn eða sinnepsfræ eru fræ þriggja plantna sem eru af Brassica-ætt og því skyldar káli. Ýmislegt bendir til þess að mustarðskorn hafi verið tuggin með kjöti á forsögulegum tíma og bæði Grikkir og Rómverjar notuðu þau sem krydd og læknislyf.“ Jesús tekur dæmi af þessu litla fræi.

Auk oss trú. Jafnvel hin minnsta trú megnar mikið. Ef við höfum aðeins örlitla trú dugar hún til stórvirkja v.þ.a. Guð er að baki beiðni okkar, hann er andlag trúar okkar, hann sem er sjálfur frumlag allrar trúar. Við beinum trú okkar til hans. Hann gefur okkur trúna. Litla trúin okkar getur upprætt mórberjatré og jafnvel flutt fjöll úr stað ef við lesum skylda frásögn af orðum Jesú hjá Matteusi. Seljum samt ekki Esjuna! Gætum fjársjóða Íslands, verndum landið!

Litla trúin okkar getur reist þessa þjóð upp úr rústum Hrunsins. Skref fyrri skref, nagla fyrir nagla, fjöl fyri fjöl, rís nýtt hús af grunni.

En fleira liggur í guðspjalli dagsins en orð Jesú um trú. Þar er líka að finna furðulega sögu um húsbónda og þjón. Ég verð alltaf dálítið undrandi þegar ég les þessi orð Jesú. Þau virka eitthvað svo yfirlætisfull, jafnvel hrokakennd. Hvað er hann að segja í þessum orðum?

Hann minnir á það að við erum og verðum ætíð í stöðu þjónsins andspænis Guði. Við verðum aldrei í sporum húsbóndans. Þjónninn er ekki laus að loknum vinnudegi, hann þarf en að þjóna til borðs. Þreyttir foreldrar sem koma heim að loknum vinnudegi þurfa að elda mat og koma börnum í háttinn. Við erum þjónar Guðs á sama hátt og Jesús var sjálfur en hann skilgreindi sig einmitt sem þjón allra. Við eigum ekkert inni hjá Guði. Það er kjarninn í þessum texta sem galopnar augu okkar og eyru. Jesús kunni að tala þannig að skilningarvitin opnuðust upp á gátt.

Guð mun aldrei skulda okkur neitt. Þetta skyldi séra Hallgrímur.

Þurfamaður ert þú, mín sál, þiggur af drottni sérhvert mál fæðu þína og fóstrið allt. Fyrir það honum þakka skalt. (Pss 1.11)

Og í versinu á undan í þessum fyrsta Passíusálmi segir hann jafnframt:

Guðs sonur sá sem sannleiksráð sjálfur átti á himni og láð þáði sitt brauð með þakkargjörð þegar hann umgekkst hér á jörð. (Pss 1.10)

Hann verður aldrei settur í spor íslensku þjóðarinnar í Icesave málinu. Hann skuldar okkur ekki eitt frækorn, hvorki eyri né krónu, dollar, pund eða gull. En þar með er Guð ekki tilfinningalaus eða afhuga okkur jarðarbörnum. Hann veitir okkur allt. Hann er sá eini sem sagt getur: I Save! – Ég frelsa! Guð er gjafari allra góðra hluta og skuldar engum neitt en við erum hins vegar þurfamenn, þiggjendur. Prestur eða prófastur, biskup eða páfi fær enga auka-vildarpunkta í þjónustu við lífið. Við erum öll í sömu sporum frammi fyrir Guði, við erum þjónar og eigum ekkert inni hjá honum. Hins vegar er hann örlátur við okkur enda er elska hans ómælanleg að hæð, dýpt og breidd.

Nú þurfum við Íslendingar að efla með okkur trú og von, trúa því að hið óáþreifanlega verði að veruleika, að nýtt þjóðfélag rísi upp úr rústum Hrunsins. Senn líður að setningu stjórnlagaþings. Fulltrúa á því þingi bíður vandaverk. Starf þingfulltrúa verður trúarlegt í þeim skilningi sem hér hefur verið um rætt vegna þess að það felst í því að skoða og skilgreina bæði nútíð, fortíð og framtíðina, setja þjóðfélaginu skýrar reglur til að vinna eftir svo að draumurinn um réttlátt þjóðfélag rætist, að vonir almennings um sanngjarnt samfélag verði að veruleika.

[Innskot um trúarjátningar kirkjunnar og stjórnarskrá]

Ofurtrúin á markaðinn og önnur skurðgoðadýrkun kom okkur í ógöngur. Leiðtogar sem misstu sjónar af grunngildum leiddu okkur í kviksyndi.

Heyrum orð Jesú til samtíðar sinnar:

Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. [. . . ] Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju. (Mt 15.7-9, 14)

[Innskot]

Nú þurfa þeir að iðrast sem ollu Hruninu. Leiðtogarnir þurfa að axla ábyrgð.

Ný framtíð Íslands veður lögð á grunni trúar og vonar. Án trúar er ógerlegt að eiga samfélag við Guð sem er uppspretta allra góðra hugmynda um réttlæti og frið, sanngirni og sátt. Jafnvel trúleysingjarnir verða að lifa í trú og von, vænta betri tíðar, vona á framtíðina, trúa á betri heim. Trú trúaðs manns á handanverandi Guð er að vísu önnur að inntaki en þeirra sem skilgreina sig guðlausa en trúin og það hvernig hún vinnur í sálarlífi og huga einstaklinga er söm hvort sem Guð er inni í myndinni eða ekki ef marka má niðurstöður trúarlífssálfræðinnar. Innréttingin í okkur öllum er sú sama.

Án trúar komumst við ekki úr sporunum, komumst ekki á fætur á morgnana, getum ekki unnið okkar verk, komumst ekki af í samskiptum við samferðafólkið. Allt lífið er byggt á trú og von.

Trúin er eins og lítill lykill sem lokið getur upp rammgerðum dyrum. Hún er eins og bænin í kveðskap sr. Hallgríms:

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð. (Pss 4.22)

Kæri söfnuður. Í dag kveð ég ykkur að sinni og sný mér að öðrum verkefnum. Áfram mun ég sinna minni trúarlegu köllun og guðsþjónustu daglegs lífs enda þótt á öðrum vettvangi verði. Ég leyfi mér að taka mér í munn orð postulans er hann kvaddi trúsystkin sín í Efesus:

„Og nú fel ég ykkur Guði og orði náðar hans sem getur styrkt trú ykkar og veitt ykkur hlutdeild í ríki hans ásamt öllum þeim sem helgaðir eru.“

Við erum eitt í Kristi hvar sem við erum stödd og hvert sem lífið og verkefni þess leiða okkur. Takið vel á móti séra Þorvaldi Víðissyni sem mun leysa mig af og njótið þess að sækja ykkur næringu í Neskirkju, næringu trúar, vonar og kærleika.

[Lokakafli ræðunnar er ekki í textanum en þar var m.a. rætt um nýja játningar kirkjunnar og stjórnarskrá]

Textar dagsins:

3. sunnudagur eftir þrettánda

Textaröð: B:

Hós 2.20-25Lexía

Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar og eyði boga, sverði og stríði úr landinu og læt þá búa óhulta. Ég festi þig mér um alla framtíð, ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, ég festi þig mér í tryggð, og þú munt þekkja Drottin. Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn, ég mun bænheyra himininn og hann mun bænheyra jörðina og jörðin mun bænheyra kornið, vínið og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel og mín vegna mun ég sá henni í landið. Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“ og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“

Pistill: Heb 11.1-3, 6

Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs. Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega. Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.

Guðspjall: Lúk 17.5-10 P

ostularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“ En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“