Tarfurinn og stúlkan

Tarfurinn og stúlkan

Þannig endurspeglar sjálfsprottin listin í fjármálahverfinu þessar tvær ólíku hliðar mannlífs og samfélags. Árið 2017 setti baráttufólk fyrir bættu jafnrétti kynjanna styttu af óttalausu stúlkunni, beint fyrir framan tarfinn. Hún var eins og mótvægi við ruddalegt aflið sem heimurinn hefur fengið svo oft að kynnast. Síðar var hún færð þaðan eftir þrýsting en fótsporin hennar eru enn í stéttinni.

Ferðalangar sem heimsækja New York koma gjarnan við á Wall Street, þeirri sögufrægu götu þar sem verðbréfahallirnar bera við himin.


Á sögulegum slóðum

 

Eitt sinn stóðu spákaupmenn í stórum sölum hrópuðu tilboð um kaup og sölu af miklum eldmóð. Enn fæ ég ekki skilið hvernig þau viðskipti gátu gengið fyrir sig en víst geyma þessar slóðir frásagnir af örlagaríkum atburðum.

 

Það var þarna sem heimskreppan 1929 hófst með þeim afleiðingum að tugmilljónir misstu vinnuna og heimsviðskiptin drógust saman um tvo þriðju. Upp úr þeim ósköpum þróaðist hugmyndafræði alræðis sem hafnaði gildum frelsis og mannréttinda. Það var á þessum slóðum þar sem við sáum fyrstu merki hrunsins 2008 þegar myndir bárust af starfsfólkfólki sem yfirgaf vinnustaði sína með kassa í hönd. Þá riðuðu risarnir til falls. Þess var ekki langt að bíða að allt var komið á hliðina hér uppi á Íslandi.

 

Já, eðlilegt er að gestir horfi í kringum sig, velti því fyrir sér hvernig fólk hefur reynt að endurspegla þýðingu þessa hverfis. Og þar kemur að myndlistinni, sem nær stundum að túlka það sem erfitt er að færa í orð. Þarna eru tvær styttur, sem hvor á sinn hátt rammar inn stóra atburði og mikil örlög sem þarna hafa orðið til og mótast.


Boli í árásarham

 

Það er í samræmi við texta dagsins að hugleiða tarfinn sem þarna stendur á stéttinni. Charging Bull heitir hann á enskunni, bronsstytta af bola í árásarham. Hann vegur yfir þrjú tonn og trónir þrjá og hálfan metra, vígalegur er hann að sjá með hausinn reiddan til atlögu og nasirnar þandar. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund þau skilaboð sem verkið á að miðla. Nautið er tákn um karlmennsku, áræði og árásargirni. Og rétt eins og miðlararnir sem sönkuðu að sér gróðanum skeytir tuddinn ekki um annað en að komast leiðar sinnar með góðu eða illu!

 

Þetta hefur þótt viðeigandi og í samræmi við þær hugrenningar sem tuddinn vekur. Forn samfélög tilbáðu nautið, bæði vegna óttablandinnar tignar þess og svo var heilbrigður tarfur auðvitað forsenda þess að kýrnar gætu borið kálfa að vori. Þessi stytta kallast því á við fjölmörg líkneski og myndir sem forn samfélög hafa notað í helgihaldi sínu og átrúnaði.


Gullkálfur

 

Og hér hlýddum við á slíka frásögn. Sögusviðið er eyðimörk þar sem hópur leysingja er á leið til landsins sem þeim hafði verið heitið. Þar átti smjör að drjúpa af hverju strái en þarna í auðninni var lífið harðneskjulegt og grimmt. Eyðimörkin er í hinu biblíulega samhengi tákn fyrir prófraun og þrengingar. Hún stendur líka fyrir lögleysu þar sem öll viðmið skortir. Hér er engin borg eða bær, engir vegir, engin þjónusta, ekkert stjórnkerfi. Við slíkar aðstæður er vandi að halda samfélögum í réttum skorðum.  

 

Þetta er umgjörðin fyrir frásögnina sem er ein af þeim sem hafa mótað það hvernig við tölum og hugsum enn þann dag í dag: Þetta er jú tilefni þess þegar fólk er sagt „dansa í kringum gullkálfinn.“

 

Þar sem er neyð, þar er líka jarðvegur fyrir forystu. Og þetta er saga um leiðtoga í auðninni. Sá hét Móse, og hann hafði það hlutverk að leiða hópinn í gegnum vegleysuna var horfinn á vit nýrra verkefna. Móse hafði farið upp á fjall og ekki snúið til baka enn. Fjallið er líka gildishlaðið náttúrufyrirbæri í hinu Biblíulega samhengi. Á þeim slóðum mætir manneskjan gjarnan Guði sínum. En langur tími var liðinn og nú var fólkið eins og hjörð án hirðis.

 

Fólkið átti sennilega ekki von á að leiðtoginn sneri aftur af fjallinu og vildi því gera sér einhverja táknmynd sem það gæti fylgt. Það kann að skýra af hverju Aron, fyrsti presturinn, lét þau móta þennan gullkálf og svo dönsuðu þau í kringum hann, áður en Móse birtist eins og öskurillt foreldri og eyðilagði gripinn!


Reglur

 

En erindi Móse var að leggja þeim til reglur sem áttu að móta hegðun þeirra og háttsemi. Þetta voru hin nafntoguðu tíu boðorð, leiðarljós fyrir fólkið sem ráfaði þarna um í auðninni og voru sem slík, andstæðan við lögleysu eyðimerkurinnar.

 

Í umhverfi þar sem engar reglur gilda eru það alltaf hin sterku sem undiroka þau veiku. Boðorðin eru í raun yfirlýsing um þau mannréttindi sem hvert og eitt okkar á að njóta, óháð stétt og stöðu. „Þú skalt ekki mann deyða“ merkir að lífið sé friðheilagt. „Þú skalt ekki stela“ – helgar eignir okkar að sama skapi. Að bera ekki ljúgvitni er yfirlýsing um mikilvægi orðspors okkar og mannorðs.

 

Mögulega skýrist reiði Móse af því að fyrsta boðorðið sem fólkið fékk snerist einmitt um tilbeiðsluna. „Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa.“ Það er því ekki að undra að hann hafi látið skapið hlaupa með sig.

 

Já, er hann ekki eigingjarn og afbrýðisamur þessi Guð? En aftur er þetta yfirlýsing um manngildið og verðmæti þess. Hér erum við jú minnt á það að láta ekki hið forgengilega drottna yfir okkur, ekki gullið, ekki stytturnar, ekki hugmyndirnar og alls ekki annað fólk né heldur hvert það annað sem við mótum og sköpum sem skurðgoð í lífinu. Það er einfaldlega ekki þess virði.

 

Það er bara Guð kærleikans og sköpunarinnar er við eigum að tilbiðja og þá er ólíklegt að við leiðumst út í vegleysu ofbeldis og óheilinda. Boðorð þetta dregur ekki manneskjuna niður, þvert á móti það upphefur manninn og varar við því að tilbiðja hið hverfula.

 

Þetta sem hér er kallað tilbeiðsla er hið sama og nútíminn kennir við fíkn og það gerir postulinn líka í pistli sínum:

 

Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér

mörgum harmkvælum. En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.

 

Fíknin leynist víða, ekki aðeins í undirheimum þar sem ólögleg efni ganga kaupum og sölum. Fíknin getur einmitt heltekið einstaklinga, já heilu samfélögin þegar engir mælikvarðar eru lengur til staðar aðrir en þeir að sanka að sér sem mestum af veraldargróðanum, ójöfnuður verður æ meiri og fólk reynir að friða sálina með því að kaupa meira, eyða meiru.

 

Peningar og annað það sem við eltumst við er ekki þess virði að við þjónum því. Það á líka við um hugmyndirnar sem eru sumar svo galnar að það er eins og við slökkvum á skynseminni í fylgispekt okkar við þær. Og það á líka við um fólkið sem reynir í sumum tilvikum að leiða okkur fram af bjargbrúninni. Sagan geymir hörmungar sem tengjast þessu, og má rekja til þessarar götu í stórborginni þar sem nautið stendur núna, þetta tákn um styrk og áræði og karlmennsku.


Tarfurinn og stúlkan

 

Sagan af gullkálfinum og lífsreglunum teflir því fram þessum andstæðum eða valkostum getum við sagt. Það að tilbiðja gullið, auðinn er háskaleg afstaða og sagan á mörg dæmi um það óhóf sem slíku fylgir og hörmungar sem koma í kjölfarið. Og svo er það samfélag sem lýtur reglum, gætir þess að fólk fari ekki út fyrir sín mörk: „Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan.“ segir postulinn.

 

Hér er horft til þess að fólk geti lifað með reisn. Prófsteinninn á gott þjóðfélag eru ekki hallirnar og skínandi gullið. Nei, mælikvarðinn liggur í því hvernig fólkið kemur fram við ekkjuna, munaðarleysingjann og útlendinginn. Já okkar minnstu systkin eins og Jesús komst að orði.

 

Þannig endurspeglar sjálfsprottin listin í fjármálahverfinu þessar tvær ólíku hliðar mannlífs og samfélags. Árið 2017 setti baráttufólk fyrir bættu jafnrétti kynjanna styttu af óttalausu stúlkunni, beint fyrir framan tarfinn. Hún var eins og mótvægi við ruddalegt aflið sem heimurinn hefur fengið svo oft að kynnast. Síðar var hún færð þaðan eftir þrýsting en fótsporin hennar eru enn í stéttinni.

 

Þessi tvö verk standa á sögufrægum slóðum þar sem spámenn samtímans rýna í tölur og hámarka gróða sinn. Þau birta okkur tvær hliðar á textanum sem hér hefur verið fjallað um, dansinn í kringum gullið og svo grundvallarverðmætin sem eiga að passa upp á minnstu systur okkar og bræður. Þessi tvö öfl takast á í sálu hvers og eins okkar og Biblían veitir skýra leiðsögn um það hvor kosturinn er farsælli, hvort heldur er fyrir einstaklinga eða heilu samfélögin.