Í morgun var lítil stúlka færð til skírnar í Akureyrarkirkju, ótrúlega falleg og fín, já fimm mánaða spons sem leit heiminn fyrst, heilum tíu vikum fyrir tilsettan tíma, móðir hennar var svo væn að gefa mér innsýn inn í heim fyrirburans er hún afhenti mér eintak af bleyju í þeirri stærð sem stúlkan klæddist við fæðingu. Almáttugur minn, aldrei hefði ég trúað því að ein Liberobleyja gæti hreyft eins við tilfinningum mínum og raun ber vitni, hún rúmast í lófa mínum og týnist þar ef ég kreppi hann saman, litla stúlkan var um kíló að þyngd við fæðingu, í dag, fimm mánuðum síðar er hún eins og bragglegur nýburi að stærð og hún þroskast og dafnar eins og best verður á kosið. Sjaldan hef ég lifað upprisuna eins áþreifanlega og á þessum páskadagsmorgni, úr augum barnsins skín birta páskasólar, hin máttuga birta lífsins sem lætur ekki að sér hæða. Það er tvennt sem kemur mér helst til að gráta, svona á fullorðinsárum, annars vegar er það illska og þjáning heimsins og hins vegar er það upprisa fólks í margvíslegum myndum. Já þegar ég upplifi lífið sigra eftir að hafa jafnvel verið dæmt úr leik, það getur gerst í félagslegum aðstæðum, líkamlegum aðstæðum eins og í tilviki fyrirburans og í tilfinningalegum aðstæðum líkt og þegar fólk öðlast og veitir fyrirgefningu þannig að nýtt upphaf skapast á báða bóga. Stundum er erfitt að greina á milli aðstæðna, þ.e.a.s hvenær þjáningin hefur tilgang og hvenær ekki, því hvort tveggja er til, hin skapandi þjáning og hin eyðandi þjáning, ekki vissu lærisveinar Jesú það við krossinn, hvort sú þjáning hefði tilgang eður ei, og sennilega væri það hættulegt ef svo væri, gæfa okkar mannanna er að sjá ekki morgundaginn fyrir og vera því neydd til að hvíla í voninni, því það er vonin sem gerir okkur að betri mönnum. En þú þekkir hvernig það er þegar þú finnur til, ef þú veist að verkurinn er merki um að líkami þinn sé heilbrigður þá öðlast hann aðra merkingu og þú höndlar hann betur, eins þegar þú veist að kvíði sálarinnar er vegna þess að eitthvað stórt og mikilvægt verkefni er framundan, þá verður hann ekki bara þolanlegur, heldur jafnvel nauðsynlegur, já á meðan hin óútskýranlegi kvíði verður svo yfirþyrmandi og lamandi að þú getur vart dregið andann. Fæstar konur láta fæðingarhríðar skyggja á gleði sína yfir komu barnsins og ekki fyllumst við angist yfir réttlátri þreytu eftir jákvæð líkamleg átök. Ef við vitum að raunir hafi ríkan tilgang þá fyllumst við fremur æðruleysi og von. En þegar við vitum ekki fyrir víst hvar píslargangan endar þá fyllumst við angist. Einhver mikilvægasti kafli píslarsögu Krists er bæn hans í Getsemanegarðinum, þar afhjúpar frelsarinn mennsku sína sterkar en áður og gerir þar með þjáningu sína að samnefnara alls þess sem maðurinn fær reynt og þolað, angist Krists verður þar til að færa himinn nær jörðu. Þannig opinberar Kristur það að hann þekkir sérhverja raun og tilfinningar sem við manneskjurnar glímum við á öllum tímum. Í þeirri vissu megum við öll hvíla, að við erum aldrei ein í þjáningum okkar, sama hversu þungbærar þær eru, Kristur þekkir sérhverja tilfinningu og hugsun sem manneskja er kvödd til að lifa. Áskorun okkar er hins vegar sú að skynja með okkur sjálfum tilgang og von. Já það er hin stóra áskorun trúarinnar, fæstum þykir jú erfitt að sjá fyrir sér atburði föstudagsins langa á meðan hinir sömu eiga kannski erfitt með að ræða atburði páskadags, svona a.m.k. kinnroðalaust, þ.e. upprisuna, sigur lífsins yfir dauðanum, tóma gröf, sendiboða af himum sem segir „ hann er ekki hér, hann er upprisinn, sjá þarna er staðurinn þar sem þeir lögðu hann.“ Í haust réðumst við í Akureyrarkirkju í það verkefni að setja upp söngleikinn Jesús Kristur Súperstjarna með unglingum úr grunnskólum Akureyrar, verkefnið var unnið í góðri samvinnu við grunnskólana alla og Leikfélag Akureyrar sem studdi okkur með einstökum hætti. Jesús Kristur Súperstjarna var okkar sýning í þeim skilningi að hún var stytt útgáfa af hinum margfræga söngleik Jesus Christ Superstar sem byggir á píslarsögu Krists um leið og þar eru nýjar hugmyndir tjáðar og túlkaðar í söng og leik. Tónlistin er mörgum kunn, grípandi og kröftug en alls ekki auðveld í flutningi. Og í þetta verkefni réðumst við með hóp af 13. 14 og 15 ára krökkum, góðan leikstjóra í fararbroddi sem heitir Þóra Karítas Árnadóttir, söngstjórann Þórhildi Örvarsdóttur og danshöfundinn Guðrúnu Huld Gunnarsdóttur. Ég man alltaf fyrsta daginn sem ég gekk í salinn og við mér blasti stór hópur ómótaðra ungmenna, sum með ipod í eyrum, önnur á kafi í farsímunum sínum og enn önnur að reyna að láta sem minnst fyrir sér fara e.t.v í von um að fá að fljóta með án teljandi vandræða. Ég man að ég hugsaði um leið og ég leit yfir salinn: „ Vá, hvað er ég búin að koma mér í“? Tæplega 60 krakkar horfðu á mig og annan kennara í forundran á meðan við lýstum hugmyndum okkar um þennan söngleik og allt það sem við væntum af þeim að vori þegar uppskeran lægi fyrir, „þið munið leika og syngja og dansa, hanna búninga og auglýsingar, fara í viðtöl osfrv“ svo sýndum við þeim bíómyndina gömlu til að kynna þeim verkið og útskýrðum söguþráðinn í grófum dráttum á milli þess sem við hækkuðum í tónlistinni sem virtist reyndar strax höfða til margra í hópnum. Í næsta tíma á eftir mættu 40 börn í stað 60 , einhverjir ákváðu að láta skynsemina ráða og velja viðurkenndari tómstundir, og verkið hélt áfram í 40 barna hópi og stundum án þess að við sæjum glitta í sólarupprás frumsýningardags. Ferlið var langt og stundum ótrúlega seinfarið en lífið eins og við þekkjum það hélt áfram samhliða uppsetningu hópsins, og við tókumst á við margt í sameiningu, missi og sorg, óhöpp og meiðsli, raskanir, félagslega einangrun, afleiðingar eineltis, um leið og við lærðum og sungum aftur og aftur „hósanna hósanna, Messías mannssonur og Lifum allt að nýju,“ það varð undirleikur vetrarins í öllu sem á gekk, og það var ekki lítið, tvær stúlkur úr hópnum kvöddu unga ástvini sem fóru með skyndingu úr þessum heimi , og á einni æfingu söngleiksins varð slys sem leit illa út í fyrstu og hópurinn upplifði skjót viðbrögð sjúkraflutningamanna sem fluttu eina stúlkuna á spítala og þaðan fékk hópurinn að fylgjast með rannsóknum og sjúkrahúsvist sem bar sem betur fer góðan árangur. Það gekk ýmislegt á en að lokum stóðu þau 40 á sviðinu og sigruðu ótta sinn og takmarkanir með undurfallegri sýningu þar sem Kristur var leikinn af 15 ára dreng og Júdas af jafngamalli stúlku, og sú sem lenti í slysinu lék við hækjur og áhorfendur trylltust að leik loknum og klöppuðu án afláts á meðan aðrir felldu tár og hugsuðu „góði Guð takk fyrir upprisuna“. Og þó að gleðin yfir hæfileikum sem fengu að blómstra væri mikil sem og gleðin yfir því að skapa eitthvað nýtt, þá var gleðin yfir vináttunni sem myndaðist yfirsterkari og allt gerðist þetta á meðan börnin sungu um Jesú, um ást hans á mannkyni, fórn hans og lífgjöf. Já ég verð að segja að þó að hinir raunverulegu páskar eigi sér stað í dag samkvæmt almanaki þá lifði ég þá persónulega fyrir rúmri viku þar sem ég sat í sal leikfélags Akureyrar í Rúminu og horfði á leikhópinn blómstra, traustið eflast, sjálfsmynd þeirra vaxa og vináttuna dafna. Páskar eru nefnilega það sem gerist þegar þú sérð þjáninguna öðlast tilgang, líka almennt erfiði, áhyggjur og kvíða, efa og vantrú, enginn maður gengur til móts við hina opnu gröf án þess að hika, a.m.k. um stund, meira að segja Kristur gerði það í Grasgarðinum forðum. Páskar eru það sem gerist þegar þú skynjar mátt lífsins, eins og þegar ég handlék litlu Liberobleyjuna í kirkjunni í morgun og horfði í augu skírnarbarnsins sem lá svo yfirvegað í örmum foreldra sinna, alls óttalaust í smæð sinni. Já Páskar eru einfaldlega það sem gerist þegar þú opnar hjarta þitt fyrir möguleikanum á því að lífið fari vel. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.
Jesús Kristur stórstjarna
Flokkar