Tuttugasta öldin þekkti þjáninguna flestra alda best, listamenn tókust á við hana hver með sínum hætti, ótrúlega oft með því að vísa á samnefnara þjáningarinnar og ímynd hennar, á mann með kross á baki eða hangandi á krossi. Nú virðist eins og allt sé breytt. Á framsæknum tímum er ímynd deyjandi manns á krossi ekki vænlegt vörumerki við fyrstu sýn. Reyndar hefur krossinn ekki alltaf verið meðal tákna kristinnar trúar, öldum saman voru önnur tákn sterkari. En þróunin varð sú að hinn krossfesti var í sviðsljósinu öldum saman: þjáning hins réttláta, blóði drifinn hangandi á krossi, máttlaus með hálfopinn munninn svo skín í tennurnar, deyjandi.
Ein þekktasta krossfestingarmynd allra tíma er mynd Matthíasar Grünewald úr Isenheimklaustrinu í Elsass, nú í safni í Colmar í Frakklandi skammt frá klaustrinu, rétt við landamæri Þýskalands. Myndin var gerð 1515 þegar drepsótt gekk um héraðið, hinir sjúku voru bornir að myndinni, sem er gríðarstór, og horfðust í augu við hinn þjáða sem var alsettur kaunum eins og þeir: “Hann þjáist eins og við”, samlíðunarhugsunin er hér holdi klædd. Í þjáningunni mætir hann manninum til þess að gefa honum lífskraftinn og vonina á ný. Sú er hugsunin að baki myndum af þessu tagi.
Þjáningin grípur augað. Slys á vegum, ofbeldi um miðja nótt, unglingar á misheppnuðum uppeldisstofnunum, náttúruhamfarir, hryðjuverk og sjúkdómar, hungruð börn í sjónvarpsfréttum: sársaukinn lætur engan afskiptalausan, hann krefst fullrar athygli. Við horfum á hina þjáðu. Hvers vegna? Vegna þess að þjáningin stillir manninum upp frammi fyrir tilvistarspurningunum þar sem svörin liggja ekki á lausu. Það er öllum ljóst meðvitað eða ómeðvitað. Þess vegna leitum við hins ögrandi og um leið óhjákvæmilega. Hinn djúpi leyndardómur þjáningarinnar er enn óbreyttur. Frammi fyrir þjáningunni eru allir jafnir. Þar er allt við það sama.
Þegar hann hefur dregist upp á hæðina horfumst við í augu. Krossinn stillir manninum sem einstaklingi upp frammi fyrir hinum krossfesta. Það er boðið upp á samtal við hann. Og um leið við alla sem þjást. Engum var þetta eins ljóst og dulhyggjumönnum fyrri tíma: Sá sem horfir á hinn þjáða Krist lifir sig inn í píslir hans til þess að upplifa þjáningu hans. Og jafnframt til þess að skerpa vitund sína og næmi fyrir þjáningum annarra og dýpka mannúð sína og samlíðun.
„Menn forðuðust hann“ segir í einu þjónsljóði Jesaja. En svo er ekki í reynd, hann er sá sem menn líta til þegar þeir spyrja dýpstu spurninganna, hann er sá sem menn horfa til þegar þeir þjást og líða, syrgja og sakna. Og kannski finnum við að Lúther hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að Guð væri næst manninum þegar hann mætir honum í smæð sinni: í jötunni og á krossinum. Í þjáningunni er Guð ekki fjarri heldur nærri.