Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
I.
Í sumar sagði kona mér sögu af aðfangadagskvöldi síðasta árs og mig langar að deila henni með ykkur.
Þessi kona rekur gistiheimili á Suðurlandi og einmitt þetta árið hafði dottið í hana að hafa opið yfir hátíðirnar og elda hátíðarmat fyrir gestina sína á aðfangadagskvöld. Fólkið í þorpinu hristi hausinn yfir þessari firru, því að það gat ekki ímyndað sér að nokkur vildi vera á gistiheimili yfir jólin. En viti menn, herbergin voru bókuð eitt og eitt. Þegar konan á gistiheimilinu var spurð um það hvernig gengi að safna gestunum í herbergin svaraði hún því til að þau væru öll uppbókuð nema eitt sem hún ætlaði að taka frá fyrir smiðinn og óléttu konuna hans. Hún var búin að búa um þau í herberginu. Fólkið fór með það svar, þótt það væru ekki allir vissir um það hvaða smið væri verið að tala um og þaðan af síður hvaða ólétta kona ætti að sofa í rúminu á jólanóttina. Sumir héldu að gistihúseigandinn væri endanlega genginn af vitinu.
Svo rann aðfangadagurinn upp og snjóalögin voru meiri en hafði sést svo að áratugum skipti í þorpinu. Vegirnir voru ófærir fyrir aðra en sérstyrkta bíla, hvíta hulan lagðist yfir eins og þykkt teppi, en fólkinu á gistiheimilinu var hlýtt. Það var eldur í arninum, kerti úti um allt, jólatréð stóð alskrýtt í stofunni og lyktin af jólasteikinni var yndisleg. Erlendu ferðamennirnir sem fæstir höfðu upplifað jól á norðurslóðum voru hrifnir og þakklátir. Klukkan sló sex, messan ómaði í útvarpinu og allir settust saman að borðinu. Þá heyrðust þung högg á dyrnar og inn ultu tvær kaldar manneskjur. Fyrir utan stóð klakabrynjaður Yaris bíll frá bílasölu. Þetta var ungt par af erlendum uppruna, sem hafði komið hingað til lands yfir hátíðirnar og ákveðið að keyra eitthvað út í buskann í hvítu stórhríðinni. Þau höfðu enga hugmynd um að byggðin gæti verið svona strjál á Íslandi og ennþá minni hugmynd um að hér þyrfti að gæta að veðri áður en lagt væri upp í langferð. Einhvern veginn höfðu þau þrælast á Yarisbifreiðinni austur fyrir jökul, komið þar niður í byggð og að húsi sem á stóð „Guesthouse“ eða gistihús. Gistihúseigandinn spurði fólkið hvort þau væru smiðurinn og ólétta konan hans og fólki rak upp stór augu, enda konan ekki komin nema þrjár vikur á leið. Þau voru drifin að borðinu þar sem steikin beið og messan hljómaði og þegar leið að helgri jólanóttu bjuggu þau um sig í hlýju rúmi.
Þannig endaði sagan um smiðinn og óléttu konuna á sunnlenska gistiheimilinu og einhverjir sjá kannski líkindi með henni og guðspjalli Lúkasar af rúmlega tvö þúsund ára gömlum atburðum. Það er reyndar kominn smábíll af algengri tegund í staðinn fyrir asnann. Konan er ekki jafn langt gengin með barn sitt. Þau eru ekki á leið til skrásetningar til fæðingarstaðar mannsins, heldur á ferð í ókunnu, norrænu landi sem er hvítt af snjó.
En í báðum sögum hefur fólkið ríka þörf fyrir húsaskjól og aðhlynningu. Það hefur þörf fyrir það að fararskjótinn rati til mannabyggða í náttmyrkrinu. Það hefur þörf fyrir öryggi og frið í stað ótta og óvissu. Það hefur þörf fyrir það að einhver opni þeim dyr sínar, einhver, já, bara einhver sem kann að gefa og undirbúa komu einhver sem gleðst yfir ferðalöngunum í myrkrinu, og tekur á móti hinum óþekkta smið og óléttu konunni hans.
II. Í morgun um hálffimmleytið á aðfangadagsmorgun 2012 bar til að barið var að dyrum á öðrum bæ á Suðurlandi. Þar var kominn strokufangi sem leitað hefur verið að í tæpa viku, hættulegur maður og vel vopnaður riffli með hljóðdeyfi, öxi og hnífum. Hann kvaðst vildu gefast upp á flóttanum og bað heimilisfólk að hringja á lögregluna. Fólkið talaði við hann góða stund í gegnum eldhúsgluggann og gaf honum mat út um gluggann. Þegar þau sáu að fanginn var rólegur buðu þau honum inn. Hann skildi vopnin eftir úti og fékk hangikjöt og súpu í sólstofunni þeirra.
Það er ekki á okkar færi að rýna inn í hug strokufangans, spyrja hvað honum gekk til með flóttanum, eða með því að mæta alvopnaður heim til fólks á aðfangadagsmorgun. En við getum dáðst að fólkinu, sem horfði upp á þennan ógnandi mann, sá í honum mennskuna og umkomuleysið, talaði við hann, gaf honum mat og sýndi honum kærleika. Og svo gerist þessi undarlegi og óútskýranlegi hlutur, að maðurinn með byssuna er allt í einu orðinn byssulaus. Hann situr í stofu meðal góðs fólks á aðfangadag og nýtur gestrisni þeirra þangað til lögreglan kemur og fer með hann í fangelsið.
III.
Jólin eru af mörgum talin hátíð barnanna, Hátíð gnægtanna, hátíð ljóssins, hátíð matar og hefða. Jólin eru hátíð Jesúbarnsins og allra barna. Jólin eru hátíð foreldranna sem börðust við að koma barni sínu til Betlehem og í öruggt skjól. Jólin eru hátíð barnanna, Von um gleði og öryggi barna pökkum og gríni og uppljómuðum herbergjum,
En með vissum rétti má líka segja að jólin sé hátíðin í myrkrinu, hátíðin sem tekst á við myrkrið í hjörtum okkar, óöryggið, ofbeldið, áhyggjurnar, streituna, fátæktina, angistina og sorgina sem ber að dyrum á óvæntum tíma, og flytur með sér undarleg og nýstárleg Jesúbörn sem biðja okkur að líta í augun á sér og gefa sér mat.
Friður eða sjalom að biblíulegum skilningi fjallar ekki um lognmollu og fullkomna veröld, heldur jafnvægi, hreyfiafl, frumkvæði og eitthvað sem kemur manni alltaf á óvart. Friður er ekki bara hreint og stöðugt ljós, heldur líka húmið, sem verður til af andstæðum ljóss og myrkurs í sífelldu flökti kertaljóssins.
Jólin er þannig líka hátíð hinna fullorðnu sem glíma við allt það sem dregur okkur niður í myrkrinu, og heftir fararskjótann okkar, hátíð barnsins í okkur sjálfum sem við nærum eins og ófrísk kona í kvið sínum gleðinni, eftirvæntingunni, voninni og sakleysinu sem við vonum svo heitt að okkur takist að koma á áfangastað og háttum með í hlýju, hreinu rúmi.
Jólin tekst á við myrkur gestgjafans sem sagði nei, sem hleypti engum inn, sem gafst upp á jólunum áður en þeim var formlega hrundið af stað, og lokaði dyrunum á nefið á smiðnum og óléttu konunni hans. Hátíðin sem tekst á við myrkrið og ógnina ristir þannig djúpt. Hún horfir til Sandy Hook í Connecticut, til barna í kvennaathvörfum og á munaðarleysingjahælum, til barna í flóttamannabúðum um víða veröld til fullorðins fólks sem býr við erfið kjör, sum vegna óréttlætis og mismununar önnur vegna sjálfskaparvíta. Þegar við horfum á slóðir Jesúbarnsins í Betlehem Og nágrannabyggðirnar í Gaza og í Sýrlandi birtist okkur veröld sem er sorglega laus við gleði og frið.
Skuggarnir eru líka margir hér heima um þessi jól. Sjaldan hafa fleiri leitað til hjálparstofnanna og það er þungi, þreyta, vonleysi, reiði og pirringur í mörgum. Hátíð ljósanna bendir út í þetta myrkur. Hún væntir þeirra sem eru að berjast á klakabrynjuðum smábíl yfir fjallið í þeirri von að ná í óþekkt skjól á helgri hátíð Að finna fyrir gleði, öryggi og frið á þessari kærkomnu tíð. Hún horfir til barna og fullorðinna sem eru enn þarna úti á Yarisnum í ófæru brekkunni, hver sem hann er og hvar sem hann er. Hún gefur okkur kjark til að opna eldhúsglugga hjarta okkar Og senda þangað mat og orð, greina mennsku í stað ógnar. Hin hæsta hátíð ber þannig í sér andstæður ljóss og myrkurs og húmið þar á milli friðinn sem við þráum allt það sem við erum svo undurnæm fyrir á þessum árstíma.
Og nú þegar heilög hátíð er gengin í garð, messan ómar, steikin ilmar, jólaölið freyðir og sósan sýður, þá megum við ekki gleyma þessum ljósaskiptum jólanna. Börnin gleðjast og hlakka til næstu jóla, en ábyrgð okkar fullorðna fólksins, jól og verkefni hinnar þroskuðu og trúuðu manneskju er að bera Jesúbarnið áfram til Betlehemar framtíðarinnar og nýja ársins 2013, að opna hús okkar og hjörtu fyrir þessu barni, að búa um rúmin og gefa foreldrum þess eitthvað að borða, að næra gleði og von þar sem við komum og getum, að leggja okkar að mörkum dag hvern, hlusta eftir því að einhver drepi á dyr okkar og glugga líka sá sem við viljum helst ekki vita af, að greiða götu náungans í nafni Jesúbarnsins, að berjast fyrir því að enginn þurfi að svelta, líða skort og vera fátækur á Íslandinu góða að horfa til hans sem er Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi og eflir ríki sitt með réttvísi og réttlæti.
Sjá, ókunnur bíll á hlaðinu og jólahátíðin byrjuð. Það er barið að dyrum okkar. Og inn um þær velta tvær manneskjur alþaktar snjó smiðurinn og ólétta konan hans.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.