Sæl og blessuð!
Svona heilsum við hvert öðru og kveðjan er eins og margar aðrar slíkar ýmist sett fram í hugsunarleysi vanans eða þá að hún endurspeglar einlægan vilja og hlýjar óskir.
Þetta tvennt, að vera bæði sæl og blessuð nær líklega yfir flest þau svið mannlegrar tilveru sem við getum kallað eftirsóknarverð. Og þó er ekki endilega allt sem sýnist í þeim efnum frekar en svo mörgum öðrum.
Við eigum jú mikinn sjóð bókmennta sem lýsa hinu ákjósanlega lífi og stundum verður útkoman harla óvænt. Ég man eftir því þegar ég á sínum tíma las hugrenningar hins gríska Platons um mennina tvo sem voru fullkomnar andstæður. Annar þeirra var heiðarleikinn uppmálaður og sagði alltaf satt. Hinn var ekki bara slóttugur og falskur hann gat þar að auki sveipað sig huliðshjúp og náð þannig að auka völd sína og auðlegð.
Svo fór að þeir tveir hlutu ólíkt hlutskipti. Sá réttláti var ásakaður um hina verstu glæpi og endaði í myrkrakompu, úthrópaður af öllum. Lygarinn, aftur á móti reyndist hafa komið ár sinni svo vel fyrir borð að hann drottnaði yfir þjóðinni og kepptist fólk við að lofa hann og prísa.
Það var viðfangsefni heimspekingsins að færa rök fyrir því að hlutskipti hins réttsýna væri að öllu leyti betra en lygalaupsins. Og upp úr því spruttu svo hugmyndir hans um dygðir og sannleika sem væri ofar öllu því sem jarðneskt er.
Þverstæður
Hitt er þó enn áhugaverðara að þarna setur hinn forni hugsuður fram nokkuð sem líklega er forsenda allrar nýsköpunar og þekkingar, nefnilega þverstæðuna.
Já, það köllum við frásagnir sem þessar, yfirlýsingar, jafnvel formúlur sem stangast á við það sem okkur hefur hingað til þótt satt og rétt. Hver myndi til að mynda óska sjálfum sér eða öðrum þess hlutskiptis að vera svipt öllum lífsgæðum og borin röngum sökum? Hver myndi ekki kjósa auð og völd?
Við getum ekki fallist á niðurstöðu hans, nema með því að samþykkja að það sé eitthvað meira við lífið en blasir við augum okkar í fyrstu, eitthvað búi þar að baki sem er satt og rétt og verður ekki haggað hvað sem hverjum kann að sýnast.
Þegar við lesum guðspjöllin er ekki ósennilegt að við greinum svipaða hugsun, hún er nefnilega á þá leið að ákveðin gildi séu rétt og sönn, jafnvel þótt afleiðingarnar kunni að vera þrautir og þjáning og jafnvel þótt svo virðist ekki vera í fyrstu. Veröldin er jú ekki öll þar sem hún er séð.
Texti allra heilagra messu eru hin þekktu sæluboð Jesú. Þar eru talin upp þau sem eiga um sárt að binda en fá engu að síður þá umsögn að vera sæl: Fátækir í anda, sorgbitnir, ofsóttir, þau sem hungrar og þyrstir. Fólk sem sætir ofsóknum vegna sannfæringar sinnar og trúar er þar einnig talið upp. Þetta hljómar í rauninni ekki frábrugðið sögunni sem vísað var til hér að framan.
En þetta er þó ekki endilega uppdiktaðar persónur. Kristur talar til fólks á öllum tímum sem er við það að missa móðinn í þrautum sínum og erfiðleikum. Textinn er í þeim skilningi ekki heimspekilegur heldur er hann huggunarríkur. Hann talar til okkar á stundum þar sem lífið mætir okkur á sinn grimmasta hátt. Hann ávarpar fólk sem býr við skort og eymd og hvetur það til að halda áfram baráttu sinni því, já ekki er allt sem sýnist. Þverstæður tilverunnar eru margvíslegar.
Allar sálir
Hann á vel við núna þegar við helgum stundina þeim ástvinum sem við höfum mátt kveðja. Við sem þjónum á þessum vettvangi, hérna í kirkjunni, þekkjum vel til þeirrar hliðar tilverunnar sem dauðinn er. Sárast er það þegar fólk deyr á æskuárum sínum. „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska“ sögðu Rómverjar þótt lítil huggun sé í þeim orðum.
Ásvinirnir og fjölskylda sem standa buguð af sorg geta aftur á móti skynjað sjálf þá ást sem þau bera til þess sem þau hafa þurft að kveðja. Og finna þá um leið hvað kærleikurinn birtist í ólíkri mynd. Hann er ekki alltaf sveipaður gleði og fegurð. Nei skuggahlið hans er sorgin, söknuðurinn og bjargarleysið andspænis þeim örlögum sem lífið mætir okkur með. Þá kann að vera huggun í því að greina hvaðan hinar sáru kenndir eiga upptök sín. Þær eiga rætur að rekja til þeirrar uppsprettu sem ástin er, og hún er eitt það besta sem finnst í fari okkar. Þótt sársaukinn sé mikill er hann til marks um að í brjóstum fólks bærast hinar bestu og fegurstu kenndir.
Sæluboð Jesú taka dæmi af slíkum raunum, þar á meðal sorginni. Þau flytja okkur þann boðskap að handan hins hverfula er veruleiki sem ekki hrörnar og deyr. Þar er hinn alltumlykjandi faðmur Guðs í eilífðinni. Og hann teygir sig inn í líf mannsins á líðandi stundu, réttir manninn upp úr máttleysi sínu og einsemd og fyllir hann nýjum krafti. Sæll ert þú – því þú ert umvafinn kærleika mínum.
Þetta þekkti Hallgrímur Pétursson og nú þegar við höfum gefið honum sérstakan gaum í tilefni 350 ára ártíðar hans, greinum við svo margt nútímalegt í kveðskap hans, eða eigum við að segja, sammannlegt? „Dimmt er í heimi hér/hættur er vegurinn“ yrkir hann í kvöldversi sínu og það er eins og atómskáld 20. aldar séu þar að greina tilveruna.
Halldór Laxness ritaði inngang að einni útgáfu af Passíusálmum Hallgríms. Nóbelsskáldið staldraði þar við þennan texta sem hér var lesinn, Sæluboðin sem eru hluti af Fjallræðu Jesú. Hann spurði hvernig þetta fólk væri eiginlega sem hefði þá eiginleika að geta á einhvern hátt hafið sig yfir þrautir og raunir lífsins. Laxness talaði í því sambandi um Fjallræðufólkið og er saga hans af Ljósvíkingnum Ólafi Kárasyni tilraun til að lýsa þeirri manngerð. Hið hrakta íslenska skáld var þar fulltrúi þeirra sem Jesús talar um að séu sæl í þjáningum sínum.
Hamingjuleitin
Já, hvað er það annars að vera sæl? Hvernig lýsum við því markmiði? Er það hamingjan sjálf? Og erum við ekki öll að leita hennar? Við lýsum því oft að við viljum ala upp hamingjusöm börn. Og sjálf leggjum við hamingjuna æ oftar sem mælikvarða á farsælt líf. Hamingjan er allt um kring.
Á okkar dögum er hamingjan kennd eða tilfinning og sumra mati er hún mælikvarði á líf okkar og gæði þess. Það þarf samt ekki mikla þekkingu á líffræði til að átta sig á því að kennd þessi er fylgifiskur þess að við höfum gert eitthvað sem skiptir máli. Við getum mögulega rifjað upp síðast þegar slík notakennd skreið eftir bakinu á okkur og yljaði líkamanum. Kom hún af sjálfu sér eða var einhver aðdragandi?
Í hinum kristna skilningi er hamingjan sem slík ekki markmiðið heldur er hún skilaboð um að við höfum náð takmarki okkar og tilgangi. Páll postuli orðar þetta svona: „Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan.“
Það að leita hamingjunnar hennar sjálfrar vegna, væri eins og að lið fagnaði marki í fótboltaleik án þess að boltinn hafi nokkurn tímann snert netið. Ef við gefum því gaum er líf nútímamannsins uppfullt af slíkum fagnaðarlátum: Myndskeið á netinu, áfengi, já alls kyns lyf og sætindi sem við setjum ofan í okkur, hafa ekki annan tilgang en að framkalla þessa tilfinningu, án þess þó að hún eigi sér rætur í raunverulegum áföngum sem við höfum náð. Þá verður hún líka innantóm og við eigum það á hættu að ánetjast því sem gefur okkur hina fölsku hamingjukennd. Víst eru dæmin mörg um slíkt.
Fólkið sem Jesús talar um í guðspjalli allra heilagra messu er í fljótu bragði ekki hamingjusamt. En samt er texti þess fullur af sælu og gleði. Á þennan þverstæðukennda hátt dregur Jesús fram fögnuðinn og gleðina sem bíður hinna hrjáðu. Hér er talað röddu hluttekningar. Enginn getur hjálpað nema með því að setja sig í spor þess sem hann hjálpar. Og Kristur er með okkur. Hann leiðir okkur áfram og minnir okkur stöðugt á það að við göngum ekki ein á leið okkar í gegnum sorgina. Þannig verða þau ekki heimspekileg hugleiðing um hin æðstu gildi, heldur texti sem talar til okkar á erfiðustu stundum ævinnar.
Með þeim hætti verður vitundin um að ágjöf þessa heims er ekki hinn endanlegi dómur. Þetta er þverstæðan sem birtist okkur í Biblíunni og reyndar miklu víðar. Og sem slík er hún furðu nútímaleg. Liðinn er sá tími þegar hugsuðir töldu að aðeins vantaði herslumuninn upp á að heimsmynd okkar væri fullkomin og öll svör lægju fyrir. Nú lifum við á tímum sem greinendur samtímans kalla heim þverstæðunnar. Og þó er ekkert nýtt undir sólinni. Sæluboðorðin geyma slíka þverstæðu, þau skora á okkur að hugleiða stöðu okkar mitt á erfiðustu tímum lífsins og hvetja okkur til að ígrunda hvað felst í því að vera blesssuð og sæl.