Það viðurkennist hér með að þegar ég las texta þessa dags varð mér hreint ekki um sel. ,,Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg.” Þetta var ekki sá boðskapur sem ég hefði valið að leggja útaf í dag. Velti fyrir mér hvort ég gæti ekki brugðið fyrir mig frelsi kristinnar manneskju og lesið einhvern allt annan texta sem mér þætti geðþekkari og væri ljúfara að leggja útaf. Æ, ef vant kirkjufólk eða jafnvel kollegar mínir eru að hlusta og hafa lesið texta dagsins fyrirfram þá sjá þau í gegnum gunguskap minn við að glíma við textann..... þetta var ég nú að hugsa og eyddi drjúgum tíma í leit að útleið. Það var ekki í fyrsta skipti og vonandi ekki það síðasta sem ég reyndi að einmitt þeir textar sem valda mér mestu hugarangri í byrjun eru þeir sem mér hefur fundist þegar upp er staðið skemmtilegastir að glíma við og skilja mest eftir.
Þessi þrumandi ræða Jesú kemur í framhaldi af dæmisögunni um liljur vallarins sem hvorki vinna né spinna en eru þó svo undurfagrar og við erum hvött til að vera ekki áhyggjufull um líf okkar. Hvernig túlkum við reiðilesturinn um svikula ráðsmanninn sem ber þjóna og þernur, etur og drekkur og verður ölvaður og í refsingarskyni er barinn mörg högg? Er Jesús að tala við okkur sem hann hefur falið ráðsmennsku hlutverk hér í heimi og að með því að skila því verki illa verði örlög okkar þau sömu og ráðsmannsins? Kirkjusaga fortíðar og samtíðar segir okkur að alltof oft hefur slíkum ótta verið haldið að fólki í kirkjunni. Í staðin fyrir að hlusta á heildarboðskapinn og skoða líf Jesú í því ljósi eru klipptir til og límdir saman textar sem ala á ótta. Manneskjan er bæld í stað þess að reisa hana upp eins og frelsarinn gerði aftur og aftur. Boðað er vald ótta og refsingar í stað valds kærleikans. En hvað, ætlum við þá að skauta yfir þessi hörðu orð sem er viðfangsefni okkar í dag? Við ætlum að skoða þau í samhengi og flétta inní líf og trúarreynslu.
Getur ekki verið að lykillinn að túlkuninni sé í þessum orðum: Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg. En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Erum við sem eigum því láni að fagna að heyra boðskap Jesú Krists og tilheyrum kirkju hans ekki skyldug til að vera vakandi og halda á lofti með lífi okkar og framkomu þessum einfalda boðskap sem okkur er kenndur. Er hann einfaldur? Að koma fram við annað fólk eins og við viljum að það komi fram við okkur, að elska Guð, náungann og okkur sjálf. Einfaldur, en erfiður í framkvæmd, það segir mannkynssagan, kirkjusagan, Íslandssagan, sagan þín og mín. Boðið um að elska Guð af öllu sínu hjarta getur verið hættulegt. Ef kærleikurinn til Guðs tengist ekki kærleikanum til náungans er auðvelt að hafna í ofstæki. Þessvegna bindur Jesús saman elskuna til Guðs og náungans. Náungann sem við finnum í ástvinum okkar, maka, foreldrum, börnum, systkinum og vinum. Náungann sem við finnum í systurinni í Ísrael, afanum í Palístínu, dótturinni í Írak eða svanga bróðurnum í Afríku.... Með lífi sínu og dauða sýnir Jesús okkur hvað kærleikurinn er. Guð hefur ekki þörf fyrir góð verk okkar, það er náungi okkar sem hefur þá þörf. Við sjálf og samferðafólk okkar hefur þörf fyrir trú okkar á Guð. Það hlýtur að vera þannig þegar við sjáum andlit Guðs í andliti sérhverrar manneskju sem á vegi okkar verður. Guð, náungann og sjálfa mig. Við eigum að elska okkur sjálf í þessu samhengi. Án þessa þríhyrnings verðum við egóistar öllsömul, upptekin af okkur sjálfum. Það er samfélagið, það að mæta samferðafólkinu sem gerir okkur að manneskjum. Við erum sköpuð til samfélags hvert við annað. Þar liggja verðmætin.
Verðmætin liggja í því að við sjáum hvert annað, hlustum, skynjum, gerum okkur far um að skilja.
Það er einhver falskur tónn í eftirsókn nútímans í eilífa æsku, þessi undarlega ósk um að eldast ekki. Dauðinn passar hvergi inn í þá draumsýn.
Hvaðan komum við, á hvaða leið erum við? Það eru mikilvægar spurningar trúarinnar. Hvernig falla þær inn í veruleika okkar? Á síðustu árum og misserum hefur samfélagið okkar breyst og fólk annarar trúar og menningar komið til lengri eða skemmri dvalar á landinu okkar. Öll trúarbrögð eru upptekin af lífinu, og því sem tekur við eftir lífið hér. Okkar kristna trú boðar eilíft líf. Það gerir einnig islam og gyðingdómurinn.
Heimsstyrjaldir síðustu aldar skildu eftir sig djúp sár og dauðinn var yfirþyrmandi nálægur og birtingarmynd hans skelfileg. Nú á nýju árþúsundi eru hin ógnvænlegu hryðjuverk búin að setja mark sitt á heimsbyggðina. Síðustu áratugina hafa miljónir smitast af hinni illvígu veiru HIV /aids. Hryðjuverk, og eyðni eru ógnvaldar samtímans og skapa óöryggi í heimsbyggðinni allri. Í Miðausturlöndum eru götur og torg og jafnvel heimili fólks undirlögð af árásum og gagnárásum. Nær okkur í Evrópu og á Norðurlöndunum berast vondar fréttir af uppgjörum milli hópa þar sem barist er upp á líf og dauða, litla Ísland hefur heldur ekki farið varhluta af þessari þróun.
Ég hitti á ráðstefnu eldri konu sem hefur starfað mikið meðal fórnarlamba HIV/aids í sínu heimalandi, Botswana. Hún sagði að engin fjölskylda væri laus við þessa ógn: ,, jafnvel í minni eigin fjölskyldu sem ég hélt að aldrei yrði, þar eru smitaðir einstaklingar”, sagði þessi kona sem vann göfugt starf í kirkjunni sinni í þágu smitaðra. Þau eru mörg sem eiga um sárt að binda og það er þörf á samúð okkar og samkennd. Aðgerða er einnig þörf.
Textarnir okkar í dag eru að hvetja okkur til að vera undirbúin. Við eigum hata hið illa og elska hið góða segir lexía gamla testamentisins og að einhverju leyti skiljum við það betur en boð Jesú um að elska óvini okkar. Kærleiksboðakapur Jesú Krists gefur ekki rúm fyrir hatrið, það er gert útlægt. Í pistlinum erum við hvött til að berjast góðu baráttunni og loks segir Jesús okkur í guðspjallinu að við eigum að vera trú og hyggin í ráðsmennskuhlutverkinu sem okkur hefur verið falið.
Við þurfum að skoða orð Jesú í samhengi við líf hans, dauða og upprisu. Hann hristir hressilega uppí okkur, vekur okkur jafnvel af værum blundi. Ætlar hann að refsa okkur, vill hann hræða okkur? Hann vill að við tökum ábyrgð, í réttu hlutfalli við þær gjafir sem okkur eru gefnar. Dýrmætasta gjöfin er lífið sjálft. Af þeim sem mikið er gefið verður mikils krafið. Það er svo rökrétt. Okkur er mikið gefið sem fæðumst hér í landi án hers, án stríðs og hryðjuverka. Hér er næg vinna, vatn og hreint loft. Það er skylda okkar að bregðast við með öllum tiltækum ráðum því ástandi sem náungi okkar í Ísrael og Palistínu finnur sig í. Við eigum að leggja okkur fram um að setja okkur inní aðstæðurnar, sorgina, heiftina og óttan sem þar ríkir. Hermennirnir, þau sem sprengja sig sjálf og allt sem fyrir verður í loft upp, þau sem standa fyrir hryðjuverkum, einnig þau eiga mæður, feður, og systkin sem þurfa að lifa áfram. Höldum við út að finna til með þeim, setja okkur í þeirra spor, eða lítum við bara undan og gleymum?
Hvernig kirkja viljum við vera? Ég hitti félaga minn að nýafstaðinni prestastefnu í vor og við tókum tal saman og barst það fljótlega að málefnum kirkjunnar. ,,Kirkjan er auðvitað íhaldsöm”, sagði hann, ,,og þarf kanski að vera það”.
Ég hef velt þessum orðum mikið fyrir mér. Mér finnst svo margt spennandi bæði í fullyrðingunni um að kirkjan sé íhaldssöm og eins í vangaveltum um hvort hún þurfi að vera það. Það hafa á öllum tímum komið fram róttækar hreyfingar innan kirkjunnar, frelsunarguðfræði blökkumanna, feminisk guðfræði og fleiri straumar og stefnur. Það breytir því ekki að á heildina litið telst kirkjan líklega býsna íhaldssöm. Var Jesús íhaldssamur? Bæði og. Hann var trúr sínum bakgrunni og bar mikla virðingu fyrir þeirri hefð sem hann fæddist inní. En hann var róttækur þegar honum fannst reglur, boð og bönn koma í veg fyrir að fólk fengi að lifa verðugu lífi. Hann notaði ekki orðið syndari um manneskjurnar sem hann umgekkst, en hann staldraði oft við hjá þeim sem af samferðafólkinu og voru nefndir syndarar. Þar sem áður var áherslan þú skalt ekki þetta eða hitt kom hann með skilyrðislausa áherslu á kærleikann. Þú skalt elska sagði hann. Þannig held ég að kirkjan okkar þurfi að vera íhaldssöm að því leyti að það er gott að geta gengið að einhverja vísu í þessum heimi þar sem allt er að breytast. Að biðja saman miskunnabæn á í guðsþjónustu á sunnudagsmorgni. Að syngja gamla og nýja sálma og að heyra Guðsorðið flutt hvern sunnudag í kirkjunum og líka í ríkisútvarpinu. En um leið og kirkjan skýlir sér á bak við hefð til þess að halda einstaklingum eða hópum samfélagsins í gíslingu óréttlætis þá þurfum við að skoða okkar gang. Kirkjan á að vera kjörkuð og djörf í boðun sinni. Kirkjan á að ganga á undan í mannréttindamálum og mótmæla óréttlæti í hvaða mynd sem það birtist. Kirkjan á að vera umburðarlynd, hlusta, hvetja til samtals. Samtals milli kirkjudeilda, trúarbragða og samtals kirkju við samtímann. Það hefur ekkert með svokallaðan pólítískan rétttrúnað að gera einsog gjarnan haldið á lofti af íhaldssömum öflum sem óttast breytingar. Við erum að fjalla um manneskjur, heilbrigði fólks og hamingju. Kirkjan getur ekki verið köllun sinni trú ef hún styður þrælahald, mismunar fólki eftir litarhætti, kynferði eða kynhneigð. Það er hlutverk kirkjunnar að mæta fólki og stuðla að lífi þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, skapaður í Guðsmynd og þessvegna óendanlega dýrmætur.
Íslenska þjóðkirkjan hefur þéttriðið net í kringum landið okkar og í áföllum og slysum erum við minnt á það mikilvæga hlutverk að vera staður þar sem fólk kemur saman, grætur, styður hvert annað og leitar huggunar hjá góðum Guði. Við mælum aldrei ávinning þess að þjóðin okkar er borin á bænarörmum, í kirkjum landsins er beðið fyrir þeim sem stjórna landinu okkar, þeim sem búa við bág kjör, fyrir sjúkum og sorgmæddum. Í kirkjunni er staður fyrir þig í öllum aðstæðum, í gleði og sorg. Við viljum börnunum okkar allt hið besta og í trú berum við þau til skírnar, flest velja þau að fermast og hjónaefni velja kirkjuna oftast sem viðkomustað til þess að staðfesta gagnkvæma ást, virðingu og trúfesti. Kveðjustundin hinsta í kirkjunni undirstrikar trú okkar á lífið eilífa þar sem við felum góðum Guði þau sem okkur eru kærust.
Guð leiði okkur og leiðbeini veginn áfram, veg kærleikans.