Herskáir trúarhópar eru gjarnan orðaðir við bókstafstrú, sem er óheppileg þýðing á enska orðinu "fundamentalism". Fundamentalistar eru frekar nýtt fyrirbæri í sögunni. Þeir eiga rætur sínar í bandarískri mótmælendatrú, en á síðustu öld hóf allnokkur hópur fólks þar í landi trúarlegt endurnýjunarstarf með því að leggja áherslur á það sem taldar voru undirstöður (fundaments) trúarinnar.Fundamentalistar eru ekki endilega öfgafólk og heldur ekki sjálfgefið að þeir séu íhaldssamir. Sumir flokkast hiklaust sem róttækir. Fundamentalistar geta verið einlægir friðarsinnar. Sennilega er meirihluti þeirra mótfallinn því að beita ofbeldi. Minnihlutinn er á hinn bóginn hávaðasamur og áberandi. Flestir fundamentalistar vilja að tilveran verði trúarlegri, en upplifa veröldina sem afskaplega óvinveitta trúnni og gildum hennar. Fundamentalismi er uppreisn gegn sívaxandi veraldarhyggju og fundamentalistar vilja gera Guð sýnilegri í opinberu lífi, sækja hann af varamannabekknum og koma honum í leikinn.
Fundamentalismi er ekki miðaldafyrirbæri, heldur skilgetið afkvæmi nútímans.
Samfélög fundamentalista lúta flest svipuðum lögmálum. Þau eru fylgismönnum sínum skjól sannrar trúar í guðlausri og vitskertri veröld, þar sem unnt er að lifa hinu hreina og góða lífi. Úr þessum samfélögum er síðan reynt að breyta þjóðfélaginu til að lífshættir þess verði Guði þóknanlegir. Sumir fundamentalistar eru tilbúnir að beita ofbeldi til að það nái fram að ganga, ekki síst fyrir þá sök að flestar hreyfingar fundamentalista, óháð því innan hvaða trúarbragða þær eru, standa í jarðvegi óttans. Fundamentalistar telja margir að frjálslynd ríki nútímans hafi það að markmiði að þurrka út trúna. Heimurinn er ógnandi.
Fundamentalistar eru oft hrætt fólk sem upplifir sig innikróað. Það er gömul saga og ný að þegar fólki finnst að því hafi verið stillt upp við vegg getur það gripið til ofbeldis. Því ofbeldi er svarað með öðru og svo koll af kolli, eins og við heyrum um í fréttunum.
Það er engin lausn að ráðast á hrætt fólk með byssum og bareflum. Heldur ekki að gera lítið úr trú þess. Hvorki stríð né aukin veraldarhyggja eru leiðir til að takast á við fundamentalisma. Í stað þess að gera lítið úr trú fundamentalista ætti að hjálpa þeim að sjá betur boðskapinn um samúð, frið og réttlæti í eigin átrúnaði. Hjálpa þeim til sjálfsvirðingar og gefa þeim vonina. Stríð og hatur eru afleit leið.
Í framtíðinni verða valkostirnir ekki veraldarhyggja eða trú. Við veljum milli felmturs og vonar, hvar sem við stöndum.