Ýmislegt í umræðunni hér á landi umliðnar vikur og daga vekur upp þá spurningu hvort að við Íslendingar séum upp til hópa fyrst og fremst upptekin af eigin hag og höfum þar af leiðandi lítið svigrúm til að gefa gaum að öðru en því sem augljóslega kemur okkur vel. Þrátt fyrir atburði undanfarins árs eru enn margir uppteknir af stundargróða og vilja helst af öllu að allt verði eins og áður – helst á morgun. Oft og tíðum eru skammtímamarkmið varin vegna þess að fólk vill sjá eitthvað jákvætt gerast, eitthvað sem gefur arð – sem fyrst og sem mest. Þetta hefur til dæmis margoft komið fram síðustu vikuna í umræðum tengdum loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Þannig má heyra fólk velta fyrir sér réttmæti þess að einblína á umhverfið og vandmál því tengt þegar „brýnni“ mál þurfa úrlausnar við.
Af þessum sökum finnst mér mikilvægt að við hugum að stöðu okkar og ábyrgð í stærra samhengi. Við búum vissulega út af fyrir okkur á eyju norður í Atlantshafi, en það firrir okkur ekki ábyrgð gagnvart þeim sem búa annarsstaðar. Það er nú einu sinni svo að náungi okkar býr ekki aðeins í sama húsi eða sömu götu, ekki heldur í sama sveitarfélagi eða sama landi. Náungi okkar býr nefnilega líka hinum megin við hafið – eða hinum megin á hnettinum. Þessvegna varðar okkur svo sannarlega um það hvernig fólk í Afríku og Kína hefur það. Náttúran er líka náungi okkar og því þurfum við líka að sinna um hana og láta okkur varða um afdrif hennar. Hennar framtíð er framtíð barna okkar.
Áherslan á skammtímamarkmið og stundargróða vekur áleitnar spurningar um afkomendur okkar og afkomu þeirra. Að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir felst ekki í því að sjá sem mestan gróða á sem stystum tíma. Það er ekki endilega best fyrir börnin okkar að við virkjum meira og reisum fleiri álver – jafnvel þó að álverðið kunni að vera eftirsóknarvert. Við höfum séð hvað áherslan á skjótfenginn gróða hefur kallað yfir okkur og margt bendir til þess að næstu kynslóðir þurfi að borga fyrir alvarlegar afleiðingar óábyrgrar fjármálaumsýslu og græðgi sem á örskömmum tíma hefur kollvarpað íslenskum þjóðarhag.
Á aðventunni erum við minnt á nauðsyn þess að líta í eigin barm og íhuga stöðu okkar. Flest okkar höfum fundið fyrir áhrifum efnahagskreppunnar, vissulega mismikið en margir á mjög afgerandi hátt og saman erum við neydd til að staldra við. Erfiðleikar koma í veg fyrir að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. En það krefst áræðni og kjarks að ganga í sig og við þurfum að þora, því það er mikið í húfi. Hvernig við breytum í dag mun hafa áhrif á líf okkar og barna okkar á morgun. En við þurfum að hugsa lengra en til morgundagsins og ekki aðeins fyrir okkur og börnin okkar. Við þurfum að huga að hinu stærra samhengi því að okkur varðar um aðra. Okkur varðar til dæmis um áhrifin sem hlýnun jarðar kann að hafa og hvort að lágreistar eyjar með heimilum fólks muni fara í kaf á næstu árum eða áratugum. Okkar er að byggja til framtíðar, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir gjörvalla sköpunina. Aðeins ef við gerum það getum við talist góðir ráðsmenn í sköpunarverki Guðs, eins og okkur ber að vera.