Fjórar útgáfur ”Og heyri þið! Ég vil svo ekki fá fjórar útgáfur af þessu!”
Þessi orð fylgdu mynd sem gekk um netheima fyrir nokkrum vikum. Myndin var af Jesú, þar sem hann ávarpaði mannfjöldann með þessum orðum.
Mér þótti þetta harmlausa grín að fjölda og misræmi milli guðspjallanna ágætt. Þetta er einnig góð áminning til okkar um að guðspjöllin eru ekki fullkomlega örugg heimild um allt sem Jesús sagði og gerði. Þau eru rituð á ólíkum tímum og af ólíku fólki. Þau gefa okkur ágæta heildarmynd en það er síðan okkar að túlka, mynda okkur skoðanir og trúa því sem við teljum trúlegt eða því sem heilagur andi blæs gefur okkur. Það er einnig mikilvægt að við berum virðingu fyrir því að öll trúum við ekki á nákvæmlega sama hátt. Við höfum frelsi til þess, innan kristindómsins.
Guðspjöllunum fjórum ber ekki saman saman um öll atriði frásögunnar af því er konurnar komu að grafhýsinu á páskadagsmorgunn og gripu í tómt. Fjöldi kvennanna og nöfn eru ekki þau sömu í öllum guðspjöllunum. Engillinn gegnir misjafnlega stóru hlutverki í frásögnunum. En munurinn á frásögu Markúsar, sem lesin er í kirkjum landsins í dag, og hinna guðspjallamannanna er áberandi stór að einu leyti. Í guðspjalli dagsins, í Markúsarguðspjalli, kemur fram að konurnar sem komu að gröfinni hafi orðið svo skelfdar að þær hafi þagað yfir reynslu sinni. Í öllum hinum guðspjöllunum fara konurnar, þrátt fyrir ótta sinn, og segja lærisveinunum frá því er þær sáu og heyrðu.
Nú er það okkar að velja, hvaða útgáfu við trúum.
Þrjú á móti einu eykur kannski líkurnar á því að þær hafi sagt frá. Það sem ýtir undir að við tökum mark á útgáfu Markúsarguðspjalls er að það var sjálfsagt ekki auðvelt fyrir fáar konur að fara með svo ótrúlega frásögu inn í stóran karlahóp. Líkurnar á að þeim yrði trúað voru ekki miklar. Annað sem er Markúsarfrásögunni í hag er að hér er um að ræða elsta guðspjallið.
En skiptir einhverju máli hver sagði hvað, hvenær og við hvern? Erum við ekki bara að festa okkur í smáatriðum sem skipta engu máli fyrir heildarmyndina?
Já, það skiptir máli. Það skiptir máli vegna þess að ef við trúum útgáfunni, sem þremur guðspjallanna ber saman um, um að konurnar (ein kona í Jóhannesarguðspjalli) hafi farið og sagt frá þá þýðir það að þeim sem höfðu enga rödd opinberlega var treystandi fyrir atburði sem átti eftir að breyta lífi okkar allra. Það það þýðir að Jesús leit ekki á konur á sama hátt og samfélagið gerði. Og að þær stóðu unir trausti hans. Það þýðir að konur voru sannarlega hluti af nánasta hópi Jesú, að hann samanstóð ekki aðeins af 12 körlum, þó vissulega sé sú tala flott. Það þýðir að konur og karlar voru saman í því frá upphafi að boða kristna trú.
Við þörfnumst páskanna Það sem gerðist þennan páskadagsmorgunn og afleiðingar þess er kannski ekki ólíkt því sem gerist þegar við köstum steini í lygnan sjó eða vatn. Steinninn hverfur samstundis og sekkur til botns en vatnið fer á hreyfingu, yfirborðið gárast og er lengi að verða slétt á ný.
Eitthvað svipað gerðist þegar steininum var velt frá gröfinni í Jerúsalem hér forðum. Það var svo sem enga stund gert en áhrifin voru gífurleg. Áhrifin, gárunar á vatnsborðinu eru enn á hreyfingu. Áhrifin frá Jerúsalem fyrir meira en tvöþúsund árum hafa áhrif enn í hér í Grafarvogskirkju á Íslandi árið 2012.
Og það voru nokkrar konur sem sögðu frá en við vorum mörg sem trúðum. Við trúðum því að ljósið sigraði myrkrið, að lífið sigraði dauðann. Við trúðum því að hægt væri að sigra illt með góðu, að réttlætið sigraði að lokum.
Og það eru einmitt þessi atriði sem eru grundvallandi! í lífi okkar allra. Þetta eru atriðin sem gera það að verkum að við höfum vilja til að lifa. Þessi atriði kallast einu orði VON.
Vonin er grundvöllur alls lífs. Og ég held að það geti verið lífshættulegt að missa vonina og löngunina til lífsins. Trúin á að hið góða hljóti alltaf að sigra að lokum er grundvallaratriði kristinnar trúar og um það snúast páskarnir.
Það er síðan annað mál að okkur mannfólkinu tekst ekki alltaf svo vel upp við að fylgja þessum boðskap. Við látum alltof oft óttann við hið óþekkta stjórna okkur. Við gerum trúna alltof oft að pólitík og þá er voðinn vís. Sagan kennir okkur það.
Trú er ekki pólitík. Pólitík er ekki trú.
Kristin trú byggist á atburðum páskanna og getur því aldrei orðið ljót. Þegar trúin hefur virst ljót þá er verið að misnota hana og kannski að nota sem pólitík og það á ekkert skylt við páskaboðskapinn.
Trú og lífsskoðun sem byggir á því að gott sigri illt, að lífið sigri dauðann að ljósið sigri myrkrið og að umburðalyndi, ást og virðing eigi að einkenna öll samskipti mannfólksins, hlýtur alltaf að lifa af, jafnvel ofsóknir.
Í samfélagi sem verður fjölbreyttara með hverjum deginum þurfum við á boðskap páskanna að halda sem aldrei fyrr.
Í samfélagi þar sem við teljum okkur vita alla skapaða hluti hafa sannleikann í hendi og lausn á öllum vanda á blogginu, þurfum við á boðskap páskanna að halda sem aldrei fyrr.
Í samfélagi sem hefur beðið siðferðilega hnekki og á erfitt með að rétta sig við, þurfum við á boðskapi páskanna að halda sem aldrei fyrr.
Við erum í lagi Jesús Kristur birti okkur, með lífi sínu, dauða og upprisu, Guð sem lítur á manneskjuna með velþóknun. Og í kristinni kirkju hljótum við að leggja stund á guðfræði og boðun sem leggur áherslu á að manneskjan sé elskuð, að manneskjan sé í lagi. Því jafnvel þó manneskjan lifi í ástandi syndugs heims þá er hún góð sköpun Guðs, hugrökk eins og konurnar á páskadagsmorgunn, elskuleg eins og konan sem þvoði höfuð Krists með ilmolíum og skörp eins og Marta og Pétur þegar þau játuðu að Jesús væri sonur Guðs.
Látum ekki segja okkur annað á páskadegi en að manneskjan eigi von. Að landið okkar eigi von því að þar býr fólk sem þrátt fyrir allt er umburðarlynt og gott.
Þó er það því miður svo að til þess að geta metið páskadaginn til fulls þá verðum kannski við að hafa lifað föstudaginn langa. Gleði í ljósi sorgar og erfiðrar reynslu verður alltaf dýpri og sannari en gleði sem aldrei hefur borið skugga á. Þegar þú hefur upplifað hina dýpstu sorg, farið gegnum dimman dal og leyft þér að finna til, þá munt þú kunna að meta hina sönnu gleði á annan hátt en áður en þú kynntist sorginni og þjáningunni.
Það er hættulegt að festast á föstudaginn langa en það er mikilvægt að þora að fara í gegnum hann, þora að finna sársaukann. Ég held að manneskja sem hefur lifað föstudaginn langa, komist í gegnum hann og fundið hina sönnu páskagleði er líklegri til að tileinka sér umburðalyndi og óttaleysi við hið óþekkta. Hún er líklegri til að misnota ekki boðskap trúarinnar, trúna.
Ég trúi því að það sé mikilvægt að gefa föstudeginum langa mikið rými í kirkjunum okkar, að gefa okkur stund til þess að íhuga og jafnvel finna til með Jesú Kristi á skelfilegasta degi lífs hans. Ég held að það sé gott fyrir okkur að setja okkur í spor móður hans, fjölskyldu og vina um leið og við íhugum okkar eigin líf og finnum eigin sársauka. Því við megum aldrei gleyma því að þetta gerum við allt í ljósi páskadags. Við vitum að páskarnir koma eftir tvo daga. Við vitum að þetta batnar, að allt verður betra að lokum.
Því gleðin og sorgin eru systkin.
Fjórar útgáfur ”Og heyri þið! Ég vil svo ekki fá fjórar útgáfur af þessu!”
Við getum aldrei komið í veg fyrir að boðskapur, hversu sannur sem hann er, breytist á leið frá þeim er flytur og til þess er meðtekur. Góður boðskapur getur verið meðtekinn á marga vegu sem allir eru sannir. Og góður boðberi leyfir viðtakandanum að melta, túlka og trúa á þann hátt sem er sannastur fyrir hann.
Því höfum við ekki áhyggjur af því að boðskapur páskanna sé túlkaður á fleiri en einn veg. Við höfum heldur ekki áhyggjur af því að fólk haldi páskana hátíðlega á mismunandi hátt. Sum okkar komast næst guðdómnum úti í náttúrunni, á skíðum á meðan önnur okkar finna nálægð Guðs í kirkjunni.
Umburðarlyndi er boðskapur páskanna í dag og fögnuður yfir því að við skulum vera ólík. Í því felst ríkidæmi.
Kristur er upprisinn! Vatnið er gárað af steininum stóra sem velt var frá gröfinni svo að við fengjum eilíft líf. Það gefur mér trú á að hið góða sigri hið illa, að umburðarlyndi yfirvinni fordóma og ótta, að við getum lifað hlið við hlið í þessu landi, þessum heimi og deilt gæðum hans og allsnægtum jafnt.
Gleðilega páska!