Flutt á Hólum í Hjaltadal, 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – Skálholtshátíð
Jes 43.1-7, Jes 43.1-7 og Matt 28.18-20
Eilífi Guð, opnaðu hjörtu
okkar fyrir boðskap þínum, gefðu að lifandi orð þitt snerti líf okkar og að við
verðum aldrei viðskila við þig. Við lofum þig og tignum. Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.
Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, sagði Jesús... skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður... þetta voru síðustu orð hans til lærisveina sinna áður en hann steig upp til himins... eftir þetta fylgdi því ákveðið hlutverk að vera lærisveinn Jesú... og um leið og við höfum meðtekið trúna erum við orðin lærisveinar með þetta sama hlutverk... að breiða út orð Guðs.
Í fyrri ritningalestrinum segir Guð að hann vilji safna saman sonum sínum og dætrum frá endimörkum jarðar... hann kallar á alla sem eru við nafn hans kenndir... Hvernig skyldi okkur ganga að sinna því hlutverki að breiða út trúna... og hverju ættum við að byrja á?
Þeir sem eru aldir upp við að fara með Faðir vorið á kvöldin, kenna
börnunum sínum það yfirleitt og þeir sem voru vanir að fara í sunnudagaskóla
eða sóttu barnastarf í kirkjunni hvetja börnin sín til að gera það líka... í
flestum tilfellum lætur fólk það nægja og börnin fá því næstu fræðslu frá
kirkjunni fyrir ferminguna...
Þó við teljum okkur ekki lifa eftir uppskrift, þá er raunin sú að við lifum í ákveðnu munstri... gerum það sem okkur er tamt... það sem við erum alin upp við. Það hefur verið landlæg hugsun hér (innan gæsalappa) að finnast að engum komi við hvort maður trúi á Guð... en td í Bandaríkjunum er trúin svo samofin inn í daglegt líf að öllum finnst eðlilegt að flíka trúnni.
Ég hef ferðast um öll fylki USA á síðustu 25 árum og er alltaf jafn hrifin af því hvað þeim finnst sjálfsagt að opinbera trúna. Í yfirgnæfandi meirihluta við start á stórum hlaupum sem ég hef tekið þátt í hefur verið flutt bæn í upphafi og þjóðsöngurinn alltaf sunginn... og bandaríkjamenn sem koma í R-maraþon hafa spurt mig af hverju við syngjum ekki þjóðsönginn fyrir hlaupið...
Svarið er einfalt, það hefur ekki skapast hefð fyrir því.
Ég hef oft sagt frá því að á hótelum þar sem við hjónin höfum gist og á veitingastöðum þar sem við höfum borðað, hefur fólki ekki fundist það tiltökumál að fara með borðbæn áður en það byrjar að borða. Eitt af því fallegasta sem ég hef orðið vitni að, var á Buffeti í Californíu. Við vorum nýbyrjuð að borða þegar tvær ungar konur með þrjú lítil börn settust við borð við hliðina á okkur. Elsta barnið var ekki meira en 4ra ára. Mæðurnar fóru og náðu í mat á hlaðborðin fyrir þau öll og svo héldust þau öll í hendur yfir borðið og önnur mamman sagði borðbæn sem endaði á Amen... þau slepptu takinu og ætluðu að byrja að borða en þá vildi ca 2ja ára strákur bæta við bænina... þau tóku saman höndum aftur, hann bablaði eitthvað að ég held á spænsku, sem endaði á amen og þau gátu byrjað að borða...
Já, það skiptir máli hvað við erum alin upp við... það sem við erum alin upp við – verður okkur eðlislægt og ómissandi þáttur í okkar daglega lífi... jafnvel á þeim árum sem við erum kannski of miklir töffarar fyrir ákveðnar reglur...
Nú nýlega horfði ég á bíómynd á rúv sem heitir Kúrekinn, ( ég held að hún sé enn í boði í safninu þeirra). Myndin er um ungan mann sem vann fyrir sér með tamningum og sat ótemjur á hestamótum... Hann var nýbúinn að slasast illa á höfði og var í bataferli. Einhverntíma í miðri mynd sækja vinir hans hann um miðja nótt, þeir kveikja eld úti í náttúrunni, eru að drekka og þá berst tal þeirra að vini þeirra sem var svo illa slasaður eftir ótemjureið að hann var mállaus og í hjólastól... þó vinirnir sitji að drykkju um miðja nótt, segir einn þeirra að hann biðji fyrir honum á hverjum degi og í framhaldinu biður hann bæn á staðnum, hinir tóku niður hattana, lutu höfði og lokuðu augunum á meðan... þeir sem sagt tóku þátt í bæninni. Af því að ég hef séð hvað kananum er eðlislægt opinbera trúna þá veit ég að þetta er ekkert einstakt. Mér fannst þetta ótrúlega fallegt og undirstrikun á því, að það sem við erum alin upp við, skiptir máli fyrir okkur og fylgir okkur alla ævi.
Síðustu orð Jesú voru að gera alla að hans lærisveinum... við getum það ekki án þess að við kynnumst honum fyrst sjálf og kynnum hann síðan fyrir öðrum. Við höfum tækifæri á hverjum degi til að lauma orði Guðs inn, án þess að það virki eins og við séum sífellt að prédika yfir öðrum.... Bara það, að þakka Guði fyrir matinn, húsaskjólið, heilsuna, öryggið, fjölskylduna... bara eitthvað eitt í einu... það kennir okkar nánustu að þakka Guði og þakkirnar munu vaxa með tímanum.
Í barna og æskulýðsstarfi kennum við börnunum að þegar við signum okkur, séum við með krossmarkinu að merkja okkur Kristi... Það er hægt að merkja sig á margan hátt... það eru td margir sem ganga með kross um hálsinn... krossinn er lítið tákn en það eru ákveðin skilaboð fólgin í því að bera hann.
Stundum merkjum við okkur án þess að gera okkur grein fyrir því... eins og
þessi saga af mér, segir ykkur... einu sinni þegar ég var að fara út startaði
bíllinn minn ekki.
Bíllinn, stór jeppi með tvo rafgeyma, var orðinn gamall. Ég hringdi í rafgeymasöluna...
og til að gera stutta sögu enn styttri... sagði ég manninum heimilisfangið því
hann ætlaði að koma og lána mér geymi svo ég gæti komist á verkstæðið til
hans... ég sagði honum að ég myndi skilja húddið eftir opið og fylgjast með
þegar hann kæmi... en eitthvað gleymdi ég mér og allt í einu var bjöllunni hringt...
ég opna og maðurinn fyrir utan segir: Ég er búinn að setja geyminn í. Ég átti ekki til orð... en spyr hann svo:
Hvernig vissir þú hvar ég ætti heima, það eru 52 íbúðir í húsinu?..... ég hafði
ekki sagt honum að ég ætti heima á jarðhæðinni með sér inngangi....
Það var mjög einfalt sagði hann... þú ert með fiskamerki á bílnum við hliðina á bílnúmerinu og þú ert með fiskamerki á útidyrahurðinni... já, ég er merkt Kristi.
Á fyrstu öld, þegar kristin trú var talin villutrú notuðu menn fisktáknið eins og við notum krossinn í dag... það er merki um að við erum kristin... skammstöfun fisksins merkir : Jesús, Kristur sonur Guðs frelsar... Jesús sagði: Sá sem kannast við mig fyrir mönnum, mun ég kannast við fyrir föðurnum á himnum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta talað frjálslega um trúna og geta viðurkennt Krist fyrir öðru fólki... og það er jafn mikilvægt fyrir alla, að við virðum skoðanir annarra þó þær stangist á við okkar.
Samfélag okkar við aðra, á að byggjast á kristnum kærleika og þessi kærleikur byggir á vali, að hver og einn fái að velja fyrir sig... en allt hangir þetta saman... því við vitum að til þess að geta valið!!!..... til að geta tekið ákvörðun, þurfum við að vita hvað er í boði. Guð kallar á okkur öll að vera börnin sín, Kristur boðaði að gera alla að sínum lærisveinum og heilagur andi á að hjálpa okkur og uppfræða svo það geti orðið. Hin heilaga þrenning er stöðugt að verki.
Mig langar til að enda á bæn dagsins, hún passar vel við:
Trúfasti Guð, þú sem í heilagri skírn gjörðir
okkur að þínum börnum, og kallaðir okkur með nafni til að vera þín eign. Leyfðu
okkur að ganga í gleði og trúfesti vegu lífsins, og að reyna að ekkert getur
gjört okkur viðskila við kærleika þinn, sem þú gafst okkur í Jesú Kristi, þínum
kæra syni og bróður okkar. Amen.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen