En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“
Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“
Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“
Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni. Lúk 1.26-38
Meðganga er merkilegt ástand, fyrir svo margra hluta sakir. Þetta ástand þegar kona fóstrar aðra mannveru með líkama sínum. Deilir blóði og næringu og andlegu jafnvægi með vaxandi einstaklingi sem er fullkomlega háður hjartslætti hennar. Líkamleg og tilfinningaleg líðan kvenna tekur ávallt nýja stefnu á meðgöngu, sumum konum líður aldrei betur á meðan aðrar upplifa depurð, kvíða og yfirþyrmandi vanmáttarkennd, líkamsmyndin og líkamsstarfssemin verður ólík því sem þær eiga að venjast, sumum konum til gleði en öðrum hreinlega til ama. Þá er ekki þar með sagt að barnið sé til ama heldur sú líðan sem fylgir því að ganga með það og það að líða illa getur undið upp á sig sektarkennd og skömm yfir að vera ekki hamingjusöm þegar allir aðrir ætlast til að svo sé. Meðgöngu og fæðingarþunglyndi er gríðarlega algengt en jafnnframt falið vandamál, það er falið vegna þess að konum finnst erfitt að ræða það af fyrrnefndum ástæðum, skömm og sektarkennd og svo eru það hinir í umhverfinu sem gera ekki ráð fyrir því að erfiðar tilfinningar hafi völdin á þessum gleðiríka tíma sem ekki öllum konum auðnast að upplifa, þó þær gjarnan vildu. Þannig skapast togstreita milli væntinga og veruleika svo niðurstaðan verður gjarnan hin nístandi þögn.
Á boðunardegi Maríu, við lestur guðspjallsins verður mér ósjálfrátt hugsað til allra barnshafandi kvenna og þeirra líðan og þá er ekki úr vegi að maður velti fyrir sér möguleikum kirkjunnar og þess góða fagfólks, karla og kvenna sem þar starfa til að rjúfa þessa þykku þögn og mæta sektarkenndinni, vanmætti og skömm með miskunnsömum boðskap Jesú Krists, þess sem aldrei dæmdi neinn en tók þess í stað á sig dóm okkar og þjáningar.
En það er fleira merkilegt við ástand meðgöngunnar, það er upplifunin sem ég held að flestar barnshafandi konur eigi sameiginlega, sérstaklega þegar líður að fæðingu og það er tilfinning hreiðurhvatarinnar, löngunin til að draga sig útúr skarkala þjóðlífsins og einblína eingöngu á væntanlegt afkvæmi sitt. Ég viðurkenni fúslega að tala af eigin reynslu, þar sem ég stend hér, komin rúma 8 mánuði á leið og finnst í raun fátt mikilvægara þessa dagana en að þvo samfellur og velja nafn á ófædda barnið. Hún er svo merkileg þessi tilfinning að finnast allt í einu í einlægni, veraldlegir hlutir og almennt lífsgæðakapphlaup algjört aukaatriði vegna þess að lítill ósjálfbjarga einstaklingur er að koma.
Kannski finnst þér kæri áheyrandi það hljóma sem argasta ranghugmynd að ímynda sér að augu Guðs líti heiminn allan þessum augum, eins og kona með hreiðurhvöt. En þegar betur er að gáð er svo ótal margt í fari Guðs sem birtist í syninum Jesú Kristi sem minnir á ástand meðgöngunnar. Við erum jú öll Guði háð, ósjálfbjarga mannverur frammi fyrir óvissu framtíðarinnar, vitum jafn lítið um örlög morgundagsins og fóstrið sem hvílir í móðurlífi. Og Guð er haldinn krónískri hreiðurhvöt, sér ekkert nema börnin sín og þeirra þarfir, einblínir á þig og velferð þína, bíður þess að kalla þig með nafni við skírnarlaugina, til eilífrar samfylgdar, þar sem Hann sér öll þín spor, sigra og ósigra, já þar sem Hann gleðst og syrgir með þér.
En hvernig er það áheyrandi góður, getur Guð verið haldinn fæðingaþunglyndi? Getur barnshafandi kona fundið samhljóm með sjálfum Guði í vanmætti sínum gagnvart yfirþyrmandi ábyrgð?
Á páskaföstunni hvarflar hugurinn inn í Getsemanegarðinn þar sem Kristur tókst á við angist þess sem er búinn stærsta hlutverki lífsins að gefa öðrum líf af sínu lífi, að þjást svo aðrir megi lifa. Hann mætti ekki skilningi samfélagsins, sinna nánustu vina sem höfðu ekki þrek til að vaka og standa við hliða Hans,” faðir minn, ef verða má þá fari þessi kaleikur framhjá mér, þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.” Í orðunum heyrum við angist þess sem veit að fórnin er óumflýjanleg því foreldrahlutverkið er óeigingjarnt starf og erfitt og því er vanmáttarkennd aðeins heilbrigð viðbrögð hvers mannlegs foreldris. Kristur sjálfur kveið því að bera heiminn á herðum sér upp á Golgatahæð, sú meðganga var honum síður en svo þrautalaus en Páskasól upprisunnar vekur okkur sem tökumst á við þetta hlutverk, vonir um styrk og þrek til að koma börnum okkar til manns.
“Óttast þú eigi María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði,” sagði engillinn við fátæku stúlkuna frá Nasaret sem veitti sjálfum Guði skjól og næringu í sínu móðurlífi, óttast þú eigi unga kona, náð Guðs er gjöf til þín, þitt andlega skjól til að takast á við stærsta verkefni lífsins. Allar barnshafandi konur eru Maríur, þær fæða börn Guðs inn í þennan heim, sköpuð í Hans mynd og njóta náðar Hans fyrir meðgöngu Krists og fæðingu upprisunnar.
Já hreiðurhvötin er líklega heilagt ástand sem á uppruna sinn hjá algóðum Guði og hlotnast verðandi mæðrum af náð til að þær megi veita afkvæmum sínum allan þann tíma og kærleika sem þau þarfnast. Mikið væri það giftusamlegt ef samfélagið sem heild hefði meira af þessari dásamlegu og næsta ólýsanlegu hvöt sem er aðeins viðvarandi á fremur stuttu tímabili í lífi móðurinnar. Mikið væri það farsælt ef fjármunum væri ráðstafað af þessari hvöt, ef verkefnum væri forgangsraðað af henni, hreiðurhvöt er nefnilega uppspretta farsældar þar sem sjónum er beint að mikilvægustu lífsgæðunum.
Um daginn heyrði ég af ungu pari af erlendum uppruna sem hafði starfað við aðhlynningu á spítala hér í borg, við góðan orðstír sjúklinga og samstarfsmanna. Þetta par sá sig knúið til að segja upp vinnunni og hefja störf við matvælaiðnað þar sem sú vinna skilaði þeim talsvert hærri tekjum á mánuði og þrátt fyrir að umönnunnarstarfið væri þeim hjartfólgið höfðu þau ekki efni á að hafna nýju vinnunni. Ég hef líka heyrt um unglinga á grunnskólaaldri sem eru að þéna svipað á mánuði við afgreiðslustörf í matvöruverslun og kennarinn þeirra sem undirbýr þau námslega og félagslega undir framtíðina. Um starfsfólk á leikskólum þarf ekki að fjölyrða, þar sem það fæst einfaldlega ekki til starfa. Er þetta ekki merkilegt í ljósi þess að öll höfum við einhverntímann verið börn og flest okkar munu verða gömul og missa heilsuna. Á boðunardegi Maríu verður mér hugsað til þeirra sem af hugsjóninni einni velja að annast um börnin okkar, öldungana og þá sem sjúkir eru, þau hafa fetað í sporin hans Jesú sem einblíndi fyrst og síðast á fólk.
Um síðustu helgi var æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar haldinn hátíðlegur í öllum kirkjum landsins, hér í Laugarneskirkju þjónuðu börn og unglingar með margvíslegum hætti, í leik og söng og bæn, Guði til dýrðar og okkur til blessunar. Það var yndislegt að upplifa framlag þeirra sem angaði af einlægni, trúarvissu og líka trúarþorsta. Í stólinn sté ungur maður úr 10.bekk Laugalækjarskóla og flutti ræðu sem vakti býsna mikla athygli. Ræðan var gríðarlega vel skrifuð og óvenjulega raunar þar sem um var að ræða 15 ára gamlan ungling. Ungling sem hefur sýnt kirkjunni og trúnni mikinn áhuga í langan tíma, ungling sem þráir að glíma við Guð og samtíma sinn og þarna fékk hann rými til að tala í sínum eigin söfnuði sem þekkir hann, hann fékk rými vegna þess að kirkjan er andlegt heimili sem byggir á sannleika Jesú Krist og hefur þess vegna þrek til að taka við öllum mannlegum tilfinningum. Kirkjan er ekki mafía sem þarf að hylma yfir óþægilegan sannleika, þvert á móti, hún byggir á lífgefandi sannleika, mannréttindaboðskap Jesú Krists sem mun aldrei teljast afstæður, hvað þá úreldur. Þessi óvenjulega ræða drengsins var vissulega andstæð því sem við eigum að venjast úr prédikunarstólnum en glíma hans var heiðarleg og mikilvæg.
Af gefnu tilefni viljum við prestarnir hér í Laugarneskirkju þó fá að nota tækifærið og biðjast afsökunar á þeim orðum sem voru viðhöfð um biskup Íslands í þessari ræðu, við hörmum það sem sagt var um hann. En það jákvæða var að ungi drengurinn, náði eyrum okkar fullorðna fólksins sem gefum okkur annars alltof lítinn tíma til að hlusta á unglinga. Þau eru týndur hópur í íslensku samfélagi, hópur sem við gleymum að hlýða á. Kirkjan er kjörinn vettvangur til þess og raunar ber henni skylda til þess, já líka að taka við því sem er óþægilegt og jafnvel sárt, mér sýnist á öllum viðbrögðum, að við þurfum að bjóða unglingum að tala meira í kirkjunni, vegna þess að það er lífsspursmál að við skynjum líðan þeirra og heyrum skoðanir þeirra á okkur fullorðna fólkinu sem stýrum þessu samfélagi. Börnin okkar eru heilagari en prédikunarstólinn, hann er ekki staður þar sem óskeikuleiki orðanna er jafnan við völd, einmitt þess vegna förum við prestarnir úr höklinum áður en við stígum í stólinn og minnum þannig á, með táknrænum hætti, að tunga okkar er ekki lengur bundin orði Guðs, þar fer fram mannleg tjáning í vanmætti, kvíða og óvissu, já jafnvel þó um lærða guðfræðinga sé að ræða.
Á endanum eru við samt Guði háð eins og fóstur sem þiggur næringu í gegnum naflastreng, það þýðir líka að við getum slakað á, það er ekki okkar hlutverk að verja Guð ekki frekar en það er hlutverk fóstursins að næra móðurina. Hugsið ykkur ef ófædda barnið mitt ætti að taka ákvarðanir um líf mitt, það væri ekki gott, hugsið ykkur ef tilvist Guðs réðist af hæfni okkar til að verja hann, það væri heldur ekki gott, þá væri hann löngu dauður. Það er enginn skaði skeður þó að við séum ekki alltaf sammála í kirkjunni og það er heldur enginn skaði skeður þó okkur bregði við öðru hverju, í raun ýtir það frekar undir heilbrigði vegna þess að andstæðar skoðanir hvetja okkur til að hugsa. Og svo megum við heldur ekki gleyma að kirkjan er öllum opin og það er Jesús Kristur sem stendur við dyrnar. Við þurfum ekki að verja Guð en við þurfum og eigum að standa vörð um manneskjur, á boðunardegi Maríu skulum við minna okkur á samfélagslegt hlutverk okkar og börnin okkar, já hin raunverulegu verðmæti, megi sagan af fátæku mærinni frá Nasaret, hugrekki hennar og auðmýkt vera okkur hvatning til góðra verka. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.