Tónajól

Tónajól

Hæfileikinn til að raða saman tónum og takti og flytja þannig að úr verði list sem hrífur og gleður, skapar hátíðleika eða samkennd, huggar og styrkir á erfiðum tímum, jafnvel kallar fram sárar minningar til þess að sárin geti byrjað að gróa; þar ríkir innblástur og gjöf Hans sem öllu ræður.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
24. desember 2019
Flokkar

Egilsstaðakirkja, jólanótt 2019

Biðjum: Heilagur andi. Við biðjum þig að tendra innra með okkur þrá eftir nálægð þinni, sem birtist í barni í jötu; að tendra með okkur vitundina um fegurð og von frá þér í hörðum heimi. Í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Pabbi setur Jólafrí með Ellý Vilhjálms á fóninn og kliðmjúkir tónar íslensku dívunnar svífa um stofuna okkar. Þá finn ég að jólin eru að nálgast. Í barnakórnum í skólanum æfum við „Þá nýfæddur Jesús“ og syngjum á Litlu jólunum með kertaljós í hönd, en á aðfangadagskvöld syngur fjölskyldan saman „Heims um ból.“ Svo nálgast unglingsárin og pilturinn sækir jólaball með gel í hárinu (og já, þetta var í þá gömlu góðu þegar Þorgeir var með hár!) og þá gildir að dilla sér við Last Christmas með Wham í fyrsta en alls ekki síðasta skipti! Á seinni árum hafa svo kaflar úr Jólaóratóríunni og Messíasi orðið að uppáhaldsáheyrn prestsins í nálægð hátíðanna.

Tónlistin umvefur jólahaldið okkar. Kannski eigið þið, líkt og ég, í sjóði minninganna, ykkar jólatóna, tengda ólíkum aldri, atburðum og tilfinningum. Sum lögin tengjast þá trúlega hlýju bernskujólanna, þegar við vorum sjálf á „viðtökuendanum“ í jólagleðinni. Önnur lög geta minnt á umbrot unglingsáranna, eða þá það allt sem er flóknara að fanga í orð og verður jafnvel enn flóknara einmitt um jólin – tónar sem tengjast brostnum hjörtum, einsemd, ástvinamissi, eða jafnvel fólki sem brást okkur.

Tónlistin hefur tengst jólunum og trúnni frá fyrstu tíð. Hvað segir ekki jólaguðspjall Lúkasar okkur? Á hinni fyrstu, kristnu jólanótt var fæðingu Jesú fagnað með söng – englasöng.

Palestínumenn þessa tíma höfðu vitaskuld sína siði í kringum barnsfæðingu og því miður var fæðing drengs álitin meira gleðiefni en fæðing stúlkubarns. Þegar fréttist að barn væri á leið í heiminn söfnuðust vinir fjölskyldunnar og tónlistarmennirnir á staðnum gjarnan saman í nágrenni heimilisins. Ef svo var tilkynnt að sonur væri fæddur var byrjað að syngja og spila á hljóðfæri í fögnuði. Jesús fæddist auðvitað við svo fátæklegar aðstæður, fjarri heimabæ sínum, að ekki var hægt að framfylgja þessari hefð. Það er fallegt að hugsa til þess að í staðinn hafi tónlistarmenn himinsins komið til skjalanna og fagnað yfir fæðingunni!

Lofsöngurinn sem englarnir fluttu á Betlehemsvöllum hljómar enn í flestum messum: Dýrð sé Guði í upphæðum / og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.

Orðið dýrð vísar fyrr í guðspjallinu til flennibirtunnar frá englinum, þessa ljóss sem táknar nærveru Guðs sem opinberast fjárhirðunum. Guð er í eðli sínu umlukinn dýrð, vegna þess að vegsemd og hátign hlýtur að tilheyra hinum hæsta, skapara alls. Við vitum auðvitað ekki með hvaða tónum þessi lofgjörð englanna var flutt, en þegar við tökum, til dæmis í messu, undir þennan söng englanna, erum við að viðurkenna að Guð er raunverulegur og lifandi Guð, sem svo sannarlega ber dýrð. Og við erum líka að taka undir það, að sá Guð sem öll heimsins dýrð ber, hann hefur umhyggju og velþóknun á okkur manneskjunum. Sú velþóknun birtist okkur í Jesú Kristi.

Fæðing Jesú er þannig ástarljóð og ástarsöngur Guðs til okkar, til þín og mín.

En englasöngurinn yfir hirðunum var auðvitað alls ekki fyrsti lofsöngurinn til Guðs. Mörgum öldum fyrir fæðingu Krists var ritað í Davíðssálmunum: Syngið Drottni nýjan söng (149.1), og enn fremur: Lofið Guð með bumbum og gleðidansi, lofið hann með flautum og strengjaleik (150.4). Í gegnum tíðina notuðu Ísraelsmenn bæði söng og hljóðfæraleik til að færa Drottni lofgjörð, bænir, þakklæti sitt og líka harmsálmana sína í erfiðum aðstæðum. Það er stórkostlegt að mega syngja og spila fyrir Guð.

Og gætum við nokkuð hugsað okkur lífið án tónlistar? Trúarlíf án tónlistar er í það minnsta nánast óhugsandi. Það er því ekki skrýtið að Marteinn Lúther, þýski siðbótarmaðurinn sem okkar lútherska kirkja lítur á sem stofnanda, hafi metið tónlistina næsta að verðleikum við hlið guðfræðinnar. Ég geri orð Lúthers að mínum þegar hann skrifar: „Tónlistin er gjöf Guðs og ekki manns, því að hún skapar glaðvært hjarta, flæmir burt hinn illa, kveikir einlægan fögnuð og eyðir drambi, reiði og ósiðsemd. Tónlistin ríkir á tímum friðar.“

Já, tónlistin er sannarlega gjöf Guðs. Maður nokkur sagði mér nýlega frá því að hann hefði skömmu áður verið í söngtíma hjá góðum söngkennara, og hrifist svo af laginu sem honum var falið að syngja að hann missti út úr sér við kennarann: „Er ekki tónlistin bara sönnun þess að Guð sé til?“ – Hæfileikinn til að raða saman tónum og takti og flytja þannig að úr verði list sem hrífur og gleður, skapar hátíðleika eða samkennd, huggar og styrkir á erfiðum tímum, jafnvel kallar fram sárar minningar til þess að sárin geti byrjað að gróa; þar ríkir innblástur og gjöf Hans sem öllu ræður.

Tónlistin er líka ein þeirra leiða sem Guð getur notað til að tala til okkar í sínum heilaga anda, hvort sem við hlustum á eða tökum þátt í söng eða hljóðfæraleik. Það er auðvitað ekki sama um hvaða tónlist er að ræða, en ef vel tekst til, og ef við opnum rifu á hjartað, getur tónlistin hjálpað okkur að skynja og upplifa nærveru Guðs sem okkar kærleiksríka föður á himnum. Hún hjálpar okkur að sækjast eftir fegurðinni í lífinu.

Það að sækjast eftir fegurðinni þýðir alls ekki að við horfum framhjá sársauka eða ljótleika tilverunnar. Nóg er af honum í samfélaginu, og jafnvel innra með okkur sjálfum. Við afneitum því alls ekki. Það er næg ástæða til að leggja rækt við hið fagra.

Snjórinn það sem af er vetri gleður ýmsa en ergir líka marga. Stórt, hvítt snjókorn úr plasti, sem hengt er í glugga með rafmagnsljósi, er vinsæl jólaskreyting hér í bænum. Á nýliðinni aðventu sat hópur fólks að spjalli þar sem þrjú slík ljósasnjókorn héngu í röð í glugga. „Þau eru falleg, ljósin,“ varð þá raunvísindamanninum í hópnum að orði. „En þeir hafa flaskað á einu. Þau eru öll eins. Í raun og veru eru engin tvö snjókorn eins.“

Hugsið ykkur hvað veröldin sem Guð hefur skapað getur – þrátt fyrir allt –verið (merkileg og) falleg í fjölbreytileikanum: Engin tvö snjókorn nákvæmlega eins, engar tvær manneskjur með alveg eins fingrafar og engin tvö tónverk eru nákvæmlega eins! Þarna býr fegurð Guðs, þrátt fyrir allt sem vill rífa hana niður og upphefja hið ljóta.

Gleymum ekki að Kristur fæddist á margan hátt við ömurlegar aðstæður. Í jólaguðspjallinu lesum við um barn sem fæðist eins og skínandi og fögur perla í miðjum ljótleikanum, eins og ástarlag Guðs til okkar.

Við skulum leggja við hlustir og hlýða á þennan ástarsöng. Leyfum kærleika Guðs að syngja sig inn til okkar á þessum jólum og alla daga.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.