Orð birta innri mann Umfjöllunarefni dagsins er hvernig innri maður birtist í orðum okkar. Sálmur 40 hefst með lýsingu á viðbrögðum Guðs við kveini manneskjunnar, en kvein er jú einhvers konar orð, umkvörtun borin fram í angist hjartans. Guð heyrir kvein okkar, segir í sálminum og leggur okkur “ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn” (Sl. 40.4). Þarna er algjör viðsnúningur á líðan manneskjunnar – fyrir hjálp Guðs - sem birtist í því sem af vörum hennar streymir, frá kveini yfir í lofsöng. Í lokaorðum tilvitnunarinnar kemur fram að þessi lífsreynsla er ekkert einkamál þess sem þegið hefur, heldur á hún að vera öðrum til vitnis um að Guð er traustsins verður.
Jakobsbréfið er skýrt og skorinort að venju: “...tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri” (Jk. 3.8). Það gengur auðvitað ekki að við lofum Guð með sama munni og við formælum fólkinu í kring um okkur. Slíkur lofsöngur er varla af hjarta hreinn, einlægninni áfátt þegar samferðafólki okkar, börnum Guðs er úthúðað í næstu andrá.
Í sama streng tekur Jesús í guðspjalli dagsins: “Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð... Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði” (Mt. 12.33, 35).
Við segjum öll ýmislegt sem við sjáum eftir síðar, stundum aðeins andartaki eftir að það var sagt; við missum út úr okkur hluti sem eru óviðeigandi, særandi eða bara heimskulegir. Því meiri óreiða innra með okkur, því fleiri “óhöpp” af þessu tagi. Oft getum við leiðrétt mál okkar, borið við misskilningi eða fljótfærni. Stundum verða orðin hins vegar ekki aftur tekin og við þurfum að taka afleiðingunum.
Innri stjórn er ábótavant Hver áheyrandinn er skiptir oft máli. Við vöndum okkur ef til vill sérstaklega þegar við erum innan um fólk í áhrifastöðum, kennarana okkar eða foreldra, yfirmenn eða ráðandi fólk af einhverju tagi. Svo þegar við erum “við sjálf”, meðal jafningja eða nánustu fjölskyldu, kemur oft hið sanna í ljós, ýmislegt fær að flakka sem kannski er af hinu góða en getur líka verið til ills. “Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?” (Jk. 3.11) eða sýna orð okkar þar hver við raunverulega erum?
Tungan er óhemja. Um það getum við víst öll verið sammála og flest vitnað um eigin reynslu þegar við höfum misst stjórn á orðum okkar. Við eigum erfitt með að hafa hemil á okkur og innri stjórn er svo oft ábótavant.
Þess vegna verðum við að reiða okkur á heilagan anda Guðs, að hann endurnýji hugarfar okkar, eins og postulinn segir: “Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna” (Rm. 12.2).
Vilji Guðs er hið góða, fagra og fullkomna. Orð okkar – að vilja Guðs – eiga þá að vera góð, fögur og fullkomin. Halló! Góð, fögur og fullkomin! Verður það einhvern tíman? Ekki að okkar vilja, ekki að “holds vild né manns vilja” (Jh. 1. 13), því eftir okkar synduga eðli er vilji okkar er í sjálfum sér hvorki góður, fagur né fullkominn. Þarna höfum við vissulega ákveðna afsökun. “Ég er bara svona”. “Ég get ekki vandað orð mín betur”. “Því miður – ég er ekki fullkomin!”.
Léleg afsökun Afsökun? Já, kannski, en harla léleg afsökun fyrir okkur sem erum endurfædd fyrir anda Guðs: “En er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja” (Tt. 3.4-5). Heilagur andi gjörir oss nýja. Hvorki meira né minna. Við erum ný sköpun fyrir anda Guðs. “Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til” (1Kor. 5.17).
Þess vegna erum við án afsökunar (sbr. Rm. 1 og 2). Við getum ekki haldið áfram að skýla okkur á bak við “svona er ég bara” setningar. Við þurfum að lifa því lífi sem Guð ætlar okkur, lífi á leið með Kristi í átt til fullkomnunar. Það merkir að við þörfnumst þess að leita anda Guðs hvern dag og biðja hann um að draga okkur nær myndinni af Jesú Kristi, þeirri mynd sem lögð er okkur í brjóst í skírninni. Það þýðir að við þurfum að iðrast vanhugsaðra orða okkar, bæta fyrir það sem við “misstum út úr okkur”, og temja okkur að vega og meta hverja hugsun, hvert orð í ljósi kærleika Krists.
Við erum ekki fullkomin, en eigum að leita áminningar og fræðslu til að verða leidd fram “fullkomin í Kristi” (Kól. 1.28). Við þurfum að segja skilið við “reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð” (Kól. 3.8) og ljúga ekki hvert að öðru, því við höfum “afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns” (Kól. 3.9-10).
Syndin gegn heilögum anda Í þessu samhengi lesum við orð Jesú um syndina gegn heilögum anda. “Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda” (Mt. 12.31-32).
Lastmæli gegn mönnunum, jafnvel Mannssyninum sjálfum, er fyrirgefanleg synd. Það er í eðli Guðs að fyrirgefa syndir, varpa þeim í djúp hafsins (Mík. 7.19). Aðeins ein synd er ófyrirgefanleg og hún er að varpa frá sér krafti Guðs sem umbreytir innri manni. Syndin gegn heilögum anda er meðvitað að neita sjálfum sér um þá endurnýjun hugarfarsins sem hér var lýst að framan; að afneita anda Guðs, vilja ekki þiggja hönd hans á vegi umbreytingar lífsins.
Við þurfum ekki að vera óttaslegin vegna þessara orða Jesú. Við erum á réttri leið þegar við spyrjum okkur þeirrar spurningar hvort nokkuð sé það í lífi okkar sem mæli gegn heilögum anda. Víst mistekst okkur oft og tíðum. Við þiggjum ekki alltaf leiðsögn heilags anda, gleymum að hugsa áður en við tölum, biðjum ekki Guð um að rétta kúrsinn, leiðrétta hugarfar okkar. Víst er það vont. Við þurfum stöðuga áminningu. Hana fáum við með því að vera opin fyrir verkum heilags anda sem birtast á svo margan hátt og eru efni í margar prédikarnir.
Munum bara þetta: Ýtum ekki Guði út úr lífi okkar. Þiggjum leiðsögn anda hans, umbreytingu innri manns, og leyfum þeirri endurnýjun hugarfarsins að birtast í orðum okkar, öðrum til vitnisburðar.
Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni. Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi. Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig.