Þjóðkirkjan hefur að stefnuskrá sinni að vera biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja meðal íslensku þjóðarinnar í hverjum þeim kjörum sem henni bera að höndum. Í þessu starfi sínu spyr hún ekki um félagsaðild, trúarafstöðu kirkjurækni, búsetu, aldur eða nokkuð það sem skipar fólki í flokka. Hún er reiðubúin til að biðja fyrir, boða og þjóna öllum sem vilja þiggja. Meðan svo er getur hún kallast þjóðkirkja í einni merkingu þess orðs hvernig sem tengslum hennar við ríkið, fjármögnun hennar eða skipulagi að öðru leyti er háttað. Allt sem hún þarfnast til að vera þjóðkirkja er umhyggja fyrir þjóðinni og samstaða með henni. Hér má svo ekki skilja þjóðarhugtakið eins þröngum og þjóðernislegum skilningi og okkur Íslendingum er tamt. Þjóðkirkja verður einnig að búa yfir umhyggju og eiga samstöðu með öðrum þjóðum, öllum þjóðum, öllum mönnum, gjörvöllum lýð Guðs.
Hvað er að biðja, boða og þjóna?
En hvað felst í að biðja, boða og þjóna? Í þessu felst að hlusta eftir innstu andvörpum, kvíða og áhyggjum en jafnframt vonum, þrám og hugsjónum þjóðarinnar, yrða þessar dýpstu hugrenningar hennar og ber þær fram fyrir almáttugan Guð í guðsþjónustunni og utan hennar. Hér getur verið um að ræða kvíða, von eða þrá einstaklings, fjölskyldu, byggðarlags eða þjóðarinnar allrar í gleði og þraut. Það er bæn. Í þessu felst einnig að flytja einstaklingum, hópum eða þjóðinni allri fagnaðarerindi vonarinnar — Yður er í dag frelsari fæddur — á þann hátt að orðin verði skilin, skynjuð og þeim treyst sem breytingarafli. Það er boðun. Í þessu felst loks að nema andlega, líkamlega, efnalega eða félagslega neyð einstaklinga eða hópa, ganga í inn kjör þeirra, deila þeim og gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að bæta þau. Það er þjónusta, kærleiksþjónusta.
Að biðja, boða og þjóna er ekki átaksverkefni Þjóðkirkjunnar til næstu fimm ára eða þar til ný stefna kann að verða mörkuð. Þetta er hlutverk sem Kristur fól lærisveinum sínum fyrir 2000 árum að rækja meðal þjóða heims. Síðan hafa þeir beðið, boðað og þjónað kynslóð fram af kynslóð. Þetta sístæða hlutverk verður þó ekki stundað á óbreyttan máta frá einum tíma til annars. Sé það reynt verður bænin hjáróma, boðunin hjákátleg og þjónustan hjárænuleg. Nú verður Þjóðkirkjan því að spyrja: Hvernig á að biðja, boða og þjóna meðal íslensku þjóðarinnar eftir Hrun? Á svarinu veltur hvort hún verður þjóðkirkja á komandi áratugum. Þar er hvorki vísað til stjórnarskrár né fjárhagstengsla við ríkið heldur trúnaðartraustsins við þjóðina.
Hugarfarslegt Hrun
Fyrir Hrun bjó hér sjálfumglöð og hnarreist þjóð í „stórasta landi í heimi“ og skoraði hátt á öllum mælikvörðum sem lagðir voru á fyrirmyndarríki. Eftir Hrun blasir það við sem áður var dulið: Við byggðum afkomu okkar að verulegu leyti á glópagulli. Spilling var hér mikil þótt hún mældist ekki á mútumælikvarðann sem almennt er notaður. Misskipting var hér gríðarleg og jókst jafnvel við Hrunið. Fyrir Hrun héldum við okkur vera heiðarlega, dugmikla þjóð. Nú er önnur ímynd að skýrast sem fremur ber merki frekju, flumbrugangs, sjálftöku, sjálfsvorkunnar og óheiðarleika. Þjóðkórinn syngur nú: „Við borgum ekki...“ ef útlendingar eiga í hlut. Hrunið var ekki aðeins fjárhagslegt. Það var að verulegu leyti hugarfarslegt.
Hreinsun
Við þessar aðstæður er hlutverk kirkjunnar að ganga með þjóðinni í gegnum hreinsunarferli — Karþasis. Saman verðum við að gera upp við okkar nánustu fortíð, játa syndir okkar, iðrast. Við verðum einnig að festa sjónir okkar á nýrri framtíð, eignast að nýju þrá um „gróandi þjóðlíf“ sem hvílir á hugsjónum réttlætis, jafnréttis og manngildis. Við verðum að öðlast nýja samstöðu og samkennd þar sem hver ber annars birgðar. Með heiðarlegri þátttöku í þessu verðu Þjóðkirkjan biðjandi, boðandi og þjónandi þjóðkirkja.
Þjóðkirkjan getur ekki tekið sér stöðu við hlið þjóðarinnar, gerst leiðbeinandi hennar eða leiðtogi á þeirri þroskabraut sem framundan er. Hún verður að vera í sporum þjóðarinnar, vera þjóðin. Ella er hún ekki þjóðkirkja. Biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja verður enda ætíð að vera mitt í hreinsunarferlinu sjálf. Ella hefur hún einskis að biðja, ekkert að boða og getur enga þjónustu innt af hendi. Þá er hún bara hallelújakór ríkjandi ástands hverju sinni — vindhani á staur.