Fermingarbörnin hafa gjarnan svörin á reiðum höndum. Mér finnst fróðlegt að spegla vangaveltur á þessum hópi og fá álit þeirra á ýmsum málum. Fræðslan er samtal þar sem við lærum ekki síður en þau og öll sjónarmið fá að njóta sín.
Er gagn að reglum?
Það er til að mynda fastur liður í fræðslunni að gera óformlega skoðanakönnun um það hversu gagnlegar reglur eru svona almennt. Víst blundar hún í okkur flestum, einhvers staðar misdjúpt í sálinni, löngunin til að vera frjáls og óbundin öllum höftum. Reglur eru nú heldur betur varnargarður sem samfélagið reisir utan um hvert og eitt okkar og slíkar girðingar geta stundum reynt á þolrifin. Þegar einstaklingur er á mörkum þess að vera barn og að vera ungmenni þá fer hann að reyna á mörkin sem eru þarna allt í kring, oftast ósýnileg og jafnvel órædd. Þá er ekki nema von að þessar reglur komi stöku sinnum upp í kollinn. Já, hverjir eru nú kostirnir og gallarnir við að þurfa að fylgja einhverri forskrift í lífinu?
Í Aþenu hinni fornu skeggræddu þeir þessi mál, Sókrates og hinir svo nefndu sófistar eða fræðarar. Það er merkilegt að fara yfir það samtal, þar sem allt mátti nefna og skoðun var ekki metin ómerk og ónýt fyrr en búið var að skoða hana í krók og kima. Í Ríkinu, einu af höfuðritum Platons, lætur höfundur, Sókrates, lærimeistara sinn færa rök fyrir því að reglur og gildi séu bæði nytsamleg og sjálfsögðu í mannlegu samfélagi.
Viðmælendur hans gera lítið úr þeim sjónarmiðum og telja lögin eiga rætur að rekja til þess að hinir sterku hafi náð slíkum tökum á fólki að þeir geti einfaldlega ráðið því hvað má og hvað ekki mál. Lögin eru, segja þeir, einfaldlega framlenging á hnefarétti þeirra sem fara með völdin hverju sinni. Það er ekkert göfugt við þau eða gagnlegt nema fyrir þau sem eru svo lánsöm að tilheyra efri lögum samfélagsins. Þessu mótmæltu Sókrates og lærisveinar hans og má segja að siðmenning okkar hafi síðan snúist um það að færa rök fyrir því að einhver glóra sé í mannlífinu.
Við getum líka rifjað upp söguna sígildu, Palli var einn í heiminum, sem er á sinn hátt framhald af hugleiðingu um gildi reglna. Já, þar sem Palli litli, þurfti ekki að deila tilverunni með neinum voru hegðun hans ekki settar skorður. Hann gat valsað um sælgætisbúðir, ekið slökkvibíl og strætó ef ég man rétt og lífið var fullt af tækifærum, allt þar til atburðarrásin fór úr böndunum. Hann fór að sakna sinna nánustu og vaknaði loks upp við vondan draum á gólfinu við rúmið eftir að hafa farið sér á voða.
Frelsið leiddist að lokum út í stjórnleysi, draumurinn varð martröð og lesandinn er minntur á að í heimi án laga og réttar getur lífið verið erfitt, hættulegt og sennilega líka mjög stutt. Það ber ekki á öðru en að þessi viðfangsefni hinna gömlu Grikkja séu sígild og í samtölum okkar í fermingarfræðslunni veltum við því fyrir okkur hvort lífið væri meira spennandi og viðburðarríkara ef boð og bönn væru ekki að við hvert fótmál.
Boðorðin tíu
Boðorðin tíu í gamla testamentinu eiga sér vissulega margar hliðstæður enda er ekki til það samfélag sem lýtur engum reglum. Það er ekki nema sá sem er einn í heiminum, sem býr við þau vafasömu réttindi að þurfa ekki að taka tillit til neins. Öfugt við sófistana í Aþenu, komumst oft að þeirri niðurstöðu, ég og fermingarbörnin þegar við ræðum þessi tíu boðorð að þau séu einmitt ekki sett til stuðnings þeim sem með völdin fara. Þau eru miklu fremur sett til að setja valdi þeirra einhverjar skorður.
Í heimi þar sem algjört stjórnleysi ríkir, eru það jú aflsmunir sem ráða, hinn sterki undirokar hinn veika. Ákvæði sem banna fólki að myrða, stela, svíkja og klekkja hvert á öðru hafa miklu meira gildi fyrir þau sem ekki geta varist af eigin rammleik. Boðorðin sem við gætum allt eins kallað bannorð – því þau banna alls kyns háttsemi – eru í því samhengi réttnefnd mannréttindayfirlýsing. Það að ég megi ekki stela frá öðrum – þýðir að eignir mínar eru friðhelgar og það á líka við um annað það sem skiptir mig máli. Og ef ég er ekki rammur að afli eða á her bandamanna sem passa upp á mig og mitt, þá varðar mig enn meir að farið sé eftir slíkum reglum.
Dómsmorð
Það er einmitt þessi hlið reglnanna sem hefur birst okkur nú á þessum haustdögum. Árið 1980 voru nokkur íslensk ungmenni dæmd til þungra refsinga fyrir að hafa orðið manni að bana. Allar götur síðan hefur mál þetta skotið upp kollinum og grunsemdir hafa verið um að varnarlausir einstaklingar hafi verið þvingaðir til að játa á sig rangar sakir. Lýsingar á tilburðum valdsins þóttu renna stoðum undir þann vonda grun og nú hefur hæstiréttur kveðið upp sinn dóm: „Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola,“ sagði forsætisráðherra í yfirlýsingu sinni. Já, ranglæti, heitir það þegar varnarlaust fólk er kúgað og undirokað. Það er einmitt þetta sem góð boðorð og bannorð eiga að fyrirbyggja.
Eitt boðorðanna tíu fjallar einmitt um dómsmorð af þeim toga sem þarna mun hafa verið framið: „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þinum.“ Það var einmitt sett til varnar sakborningum, fólki sem borið var þungum sökum og til að fyrirbyggja að saklausir þyrft að þola strangar refsingar á grundvelli falskra sakargifta.
Já, áttunda boðorðið var að öllum líkindum hugsað í tilvikum eins og þessu – mál sem hefur verið eins og samviskubit þjóðar sem hefur áratugum saman verið minnt á að þar hafi verið brotið gegn dýrmætum mannréttindum þessara ungmenna sem dæmd voru. Og þar sjáum við líka í hnotskurn hver það eru sem þurfa að líða ef reglum er ekki fylgt eftir.
Hvað er yfir yfirvaldinu?
Inngangur boðorðanna, gefur til kynna að reglur þessar séu frá Guði komnar. Það var reyndar mjög mikilvægt því þá var búið að setja yfirvaldinu, leiðtogum þjóðarinnar, skýr mörk. Þeir gátu ekki aðhafst að vild, brotið á undirsátum, kúgað þá, sankað að sér fé og auði, án þess að þeir fengju harða áminningu frá spámönnum þjóðarinnar. Og ranglátt yfirvald varð að víkja því ofar því var sjálfur guðdómurinn í öllum sínum mætti. Sú afstaða var löngum við lýði í flestum löndum og hún hafði þau áhrif að fólk reyndi að gera það sem rétt var – þótt aðstæður væru oft erfiðar og margt sem kom í veg fyrir að hagur fólks væri eitthvað í líkingu við það sem við fáum notið.
En boðorð og bannorð eru ekki aðeins sett til að halda frið og reglu í mannlegu samfélagi. Þegar Platon fjallaði um sitt ímyndaða ríki, var hann í rauninni að draga fram líkingu af því sem hann kallaði mannsálina. Já, í samvisku okkar allra takast á ýmis öfl sem vilja beina okkur í ólíkar áttir. Þegar Jesús var spurður út í boðorðin og þá beindi hann sjónarhorninu að hjarta hvers og eins okkar. Og þar kristallast sú afstaða hans að við vinnum gott starf í þessum heimi, ekki í því skyni að forðast refsingu eða beygja okkur undir vald sem er okkur sterkara. Nei, sönn og góð hegðun byggist á kærleikanum. Jesús dró efni boðoðranna tíu í það sem hann kallar tvöfalda kærleiksboðorðið: „…þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
Og þetta er einmitt hluti af því vegarnesti sem við viljum miðla til fermingarbarnanna þar sem þau eru á mikilvægum tímamótum á sinni lífsins leið. Samtal og uppbygging skapar heilbrigt fólk sem skynjar það hversu tilgangsríkt það líf er, sem er ríkt að kærleika til Guðs og náungans.