Flutt 12. nóvember 2017 · Áskirkja í Reykjavík (útvarpað á Rás 1)
Guðspjall: Mt. 28:16-20
Á kristniboðsdegi þjóðkirkjunnar spyrja eflaust einhverjir sig: Hvað er kristniboð? Hverju breytir kristniboðið?
Kemur mér það eitthvað við?
Eins og um flest annað má spyrja margra spurninga, og af ýmsum hvötum.
Kristniboð þolir alveg gagnrýni og umræðu. En sumum finnst kristniboðið
ef til vill óþægilegt umræðuefni af því að þeim finnst allt óþægilegt
sem snýr að trúmálum og lifandi trúariðkun.
Hvað er kristniboð?
Í stuttu máli er kristniboð að fylgja orðum frelsarans og fara af stað,
til alls heimsins, eða þess hluta sem við ráðum við, og gera fólk að
lærisveinum Jesú Krists. Hinn krossfesti og upprisni lifir og á erindi
við alla menn. Pistill dagsins útskýrir það enn frekar að enginn trúi
nema hann heyri. Og enginn heyri nema eitthvað sé til að hlusta á og
þess vegna þarf að senda fólk með boðskapinn um Jesú. Trúin kemur af
boðuninni. Erlenda orðið „missio“ vísar í þennan veruleika, að senda,
eða vera sendur. Kristniboðsstarf snýst um að senda fólk á vettvang.
Þannig fær fólk á hinum endanum tækifæri til að heyra um og kynnast Jesú
Kristi sjálfum. Honum sem kom að opna okkur leiðina til baka til Guðs
föður okkar og sem þráir samfélag, sátt og frið við okkur mennina. Með
Jesú varð Guðs ríki nálægt, Guð sjálfur varð nálægur, samfélagið við
hann á nótum vináttu varð að veruleika. Jesús kom sjálfur til að
fjarlægja allt sem hindrar og heftir samfélag okkar við skapara okkar.
Hann fól í framhaldinu lærisveinum sínum að bera áfram vitnisburðinn um
sig til komandi kynslóða og út um allan heim.
Kristniboðið á sér margar hliðar. Alla tíð hefur kærleiksþjónustan verið
ríkur þáttur starfsins. Kristniboðar, kristniboðsstarfið og staðbundnar
kirkjur á starfssvæðum okkar í Eþíópíu og Keníu hafa hjálpað í
aðstæðum neyðar og óréttlætis. Lífi fólks hefur verið bjargað. Það hefur
eignast von.
Öflug leið til valdeflingar og bætts samfélags er menntun eins margra og unnt er, helst allra, enda er fjórða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til 2030: „Menntun fyrir alla.“ Með menntun kemur aukin meðvitund um eigin getu og um samfélagið, stjórnskipun, tækifæri til atvinnu, umhverfismál og efnahag. Leiðin til lýðræðis og réttlætis er löng og verður ekki farin á einu ári eða einum áratug. En með sérhverri kynslóð sem fer menntaveginn aukast líkur á bættu samfélagi. Kristniboðssambandið hefur alla tíð lagt áherslu á menntun, lestrarkennslu ólæsra og skólagöngu á hinum ýmsu stigum. Kristniboðið ásamt innlendu kirkjunni í Pókotsýslu í Keníu hefur tekið ábyrgð á uppbyggingu 100 grunnskóla og 20 framhaldsskóla. Það er frábært að fylgjast með fóki sem eignast trú á sjálft sig, stefnir hátt, nær árangri og verður síðan virkt í samfélaginu með þann ásetning að láta gott af sér leiða.
Kristniboð er meðal annars hjálparstarf. Það er grunntónn í starfinu þar sem öllum er hjálpað og allir fá tækifæri án manngreinarálits. En burðarás kristniboðsins er boðun trúar á Jesú Krist meðal nýrra einstaklinga og samfélaga, þar sem fólk þekkir ekki frelsarann. Kirkjan er fædd af vitnisburðinum um Jesú, hvort sem er hér eða annars staðar. Hún lifir af þessum sama vitnisburði með Jesú Krist sem þungamiðju sína. Og væntanlega á þessi sami vitnisburður eftir að bjarga kirkjunni á Vesturlöndum þegar ávextir kristniboðsstarfsins snúa til Evrópu til að endurgjalda björgunina og bera Jesú vitni á meðal okkar.
Hverju breytir kristniboðið?
Kristniboðsstarfið breytir lífi margra einstaklinga og stundum heilum
samfélögum. Ný von og sjálfsmynd, trú á eigin getu og tækifæri, vilji
til að bjarga sér og vera öðrum til hjálpar, eru nokkur atriði sem má
nefna. Tækifæri til menntunar á mikinn þátt í því, en einnig
umbreytingarkraftur fagnaðarerindisins. Stundum er Jesús besta
þróunarhjálpin. Andlegt myrkur, endalausar fórnir, ótti við ill öfl og
sjálfhverfa víkja fyrir honum sem er ljós heimsins. Jesús sagði að þau
sem fylgja honum muni ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.
Fjölmargir geta borið því vitni.
Eitt dæmi er hann Siwareng í Pókotsýslu í Keníu. Hann býr í fjallabyggð lengst frá alfaraleið. Hann ákvað snemma að gerast nautgripaþjófur. Hefð þjóðflokksins var að fara, eins og svo víða annars staðar, og „sækja“ nautgripi til nágrannaþjóðflokksins. Með öðrum orðum að stela þeim, flytja þá um langan veg, helst í skjóli nætur, og selja síða öðrum sem færu með þá enn lengra. Mikið mátti hafa upp úr slíkum viðskiptum. En engu að síður var hjarta Siwarengs fullt af ófriði og ótta.
Einn daginn þegar Siwareng var á leið heim upp bratta brekku í lélegum yfirbyggðum pallbíl, sem var ofhlaðinn fólki og varningi, á hrikalegum vegi, gáfu bremsurnar sig. Bíllinn fór að renna aftur á bak og Siwareng sem hékk aftan á honum sá að allt stefndi í voða með djúpt gilið fyrir aftan. Dauðinn blasti við. Hann henti sér því af bílnum en lenti undir honum. Við það stöðvaðist bílinn, öllum var borgið en fótleggurinn var illa brotinn.
Er við hjónin hittum Siwareng fyrst í Keníu fyrir tæpum sex árum síðan, haltraði hann um, en þá var nokkuð liðið frá slysinu. Hann var nemandi á námskeiði kirkjunnar fyrir verðandi prédikara. Þar sagði hann okkur sögu sína. Eftir slysið lenti hann á spítalanum í Kapenguria, dagsleið í burtu frá heimili hans. Þar fékk hann heimsókn af prédikara kirkjunnar sem sagði honum frá Jesú. Guð væri ekki fjarlægur og afskiptalaus eins og trú forfeðranna segði til um. Hann væri nálægur, svo nálægur að Guð hefði sent son sinn í heiminn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Hann dó, reis upp og lifir. Við getum lifað með honum, átt hann sem okkar besta vin og bróður. Jesús væri tilbúinn að gefa honum nýja byrjun, með sér, sagði prédikarinn.
Þessi boðskapur var nýr fyrir Siwareng og hann varð heillaður. Hann vissi að hann hafði farið illa með marga, rétt eins og Sakkeus forðum. En þennan dag sagðist Jesús vilja koma til hans, dvelja hjá og með honum. Og eins og Sakkeus tók Siwareng á móti Jesú glaður. Þar með breyttist líf hans allt. Hann fór að tala um þennan Jesú og fólkið heima fyrir hlustaði því það sá að Siwareng var gjörbreyttur maður. Hann hafði snúið baki við því gamla. Hann var hættur að fara ránsferðir. Hann hafði iðrast og eignast trú á Jesú.
En vandamál lífsins voru ekki horfin. Hvernig átti hann að brauðfæða sig og fjölskylduna núna? Ekki átti hann akur, ekki ætlaði hann í fleiri ránsferðir. Hann var sendur af söfnuði sínum á prédikaranámskeið. Við sögðum vinum starfsins hér heima frá honum og nokkrir slógu saman í kameldýr. Nú hefur það alið af sér tvö eða þrjú önnur dýr og mjólkin er nóg fyrir fjölskylduna og jafnvel fleiri.
Siwareng hringdi aftur og aftur til að þakka fyrir sig. Það þýðir þó ekki að vandamál lífsins séu að baki.
Kristniboðsstarfið hefur breytt miklu bæði fyrir Siwareng, fólkið hans í
fjalllendinu, víðar í Pókotsýslu og utan hennar og í Eþíópíu og víðar.
Takk fyrir að koma… takk fyrir að hjálpa… takk fyrir að vera ekki bara
heima heldur leggja þessa löngu ferð á ykkur… takk fyrir að segja okkur
frá Jesú… takk fyrir hjálpina á heilsugæslunni og fyrir að bjarga lífi
mínu… takk fyrir að kenna okkur að lesa og tryggja að börnin okkar gangi
í skóla…
Vinir og stuðningsaðilar starfsins hér heima, einstaklingar, kristniboðshópar, söfnuðir, sóknir, prófastsdæmi og kirkjan hefur með fyrirbænum sínum og fjárframlögum verið hluti af starfinu, átt hlutdeild í að senda kristniboða og tryggja að fólk heyri um Jesú. Enginn verður þvingaður eða plataður til trúar. En fólk hefur val og margir kjósa að fylgja honum sem sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Kemur þetta okkur við?
Þar með erum við kominn áleiðis með þriðju spurninguna: Kemur þetta mér eða okkur við? Á fólk ekki að fá að vera í friði?
Nei, því Jesús bað okkur ekki um það. Þar fyrir utan er enginn lengur í friði. Vesturlönd vinna ljóst og leynt að því að koma á gildum sínum, lýðræði, jafnrétti, mannréttindum og umhverfisvernd í öllum samfélögum heims. Við erum þar líka þátttakendur. Við erum öll þess meðvituð að það felur í sér breytingar, breytingar sem við teljum jákvæðar og því framgöngum við með djörfung. En það þýðir ekki að allir séu sáttir við breytingarnar.
Alþjóðafyrirtæki hafa það einnig á stefnuskrá sinni að fara um allan
heim og græða á öllum þjóðum með því að gera allar þjóðir að neytendum
sinnar vöru. Fjármagnið og þjónar Mammons fara út um allan heim í þeirri
von að geta síðar sogað það til baka með vöxtum. Farsímanotkun nær
orðið til ystu kima og skúmaskota heimsins. Enginn er lengur í friði.
Heimurinn breytist ört, spurningin er aðeins þessi: Hvernig og í hvaða
átt breytist hann?
Siwareng eignaðist frið og sátt, sem smitaði yfir á aðra. Mestu skipti
fyrir hann að hafa mætt Jesú Kristi og slegist í för með honum. Að
syndir hans og skömm fortíðar misstu tök sín frammi fyrir opnum faðmi
fyrirgefningar og elsku Guðs.
Þessar vikur fögnum við fimm alda afmæli siðbótarinnar. ýmsum er tíðrætt um samfélagsleg áhrif hennar, sem eru margvísleg. En grunntónn siðbótarinnar var trúarlegur, það var kveikjan. Lúther og flestir siðbótarmenn leituðu til kjarnans og upprunans. Til Jesú sjálfs og orða hans. Forysta kirkjunnar á siðbótartímanum hafði misst sjónar á hinum krossfesta og upprisna frelsara. Hún hafði gleymt því af hverju hann kom. Lúther benti á Ritninguna, við ættum að byggja á henni einni, ekki mannlegri visku og valdi. Hann benti á trúna, að sá einn frelsast sem iðrast og trúir á Jesú. Að bjóða aðra leið, leið afláts og verkaréttlætingar væri að vanvirða Guð. Hann benti á náðina, hún ein dugar okkur sem svar við brestum og breyskleika okkar. Við þurfum ekkert annað, okkur stendur ekki neitt annað til boða og við getum engu bætt þar við.
Með öðrum orðum má segja að skilaboð hans hafi verið að kirkjan þurfi að þekkja og gangast við Jesú Kristi. Hún má ekki vera feimin að bera honum vitni og benda á hann. Við erum kölluð til að lifa með honum og það líf varir út yfir gröf og dauða. Kirkjan, sem er umfram allt við, þú og ég, þarf að keppa eftir því að vera boðandi, biðjandi og þjónandi. Með það að leiðarljósi hefur kristniboðsstarfið borið ríkulegan ávöxt í áratugi. Með það að leiðarljósi getum við haldið áfram að taka þátt í verki Guðs á meðal okkar mannanna, bæði nær og fjær.
Að lokum
Kæru bræður og systur. Látum þennan dag vera tækifæri til að spyrja:
Hvernig er háttað sambandi og vináttu okkar við Jesú? Hvaða vægi hefur
hann, orð hans og náð hans í lífi okkar? Hvernig getum við svarað kalli
hans um þátttöku í kristniboðsstarfinu.
Verum ekki feimin að kannast við Jesú Krist. Gefum heiminum lifandi brauð, Jesú Krist sjálfan. Höldum nafni hans á lofti. Styðjum og styrkjum hvert annað í því að boða, biðja og þjóna: Að vera lærisveinar Jesú og gera aðra að lærisveinum. Og Jesús segir: Sjá, ég er með ykkur alla daga, allt til enda veraldar. Það er forsendan, í þeim krafti lifum við og störfum. Í krafti þess loforðs höldum við áfram, allt til ystu endimarkar jarðarinnar. Amen.