Jesaja spámaður talar um föstu í Jes 58.1-9a og beinir kastljósinu að inntaki föstunnar. Almennt er hægt að tala um tvenns konar föstu: Ytri og innri föstu.
Hin ytri fasta lýtur að þeim mat sem við snæðum á föstutímanum. Sumir halda sig alveg frá kjöti, eggjum og mjólkurvarningi alla daga föstunnar. Aðrir takmarka föstuna við öskudag og föstudaga á föstunni. Þá neyta þeir einnar fullrar máltíðar á dag (sem inniheldur ekkert kjöt). Einnig er leyfilegt að neyta smá matar að morgni og kvöldi en það má ekki verða svo mikið að í heildinni jafngildi það tveimur heilum máltíðum.
Ytri fastan vísar ætíð til hinnar innri föstu sem hefur lítið breyst í tímans rás og geymir kjarna föstunnar. Segja má að innri fastan hafi tvíþætt markmið: Annars vegar að við minnumst skírnarinnar þegar við vorum helguð Guði; hinsvegar að við undirbúum okkur fyrir páskana.
Það gerist þannig að við beinum athygli okkar inn á við og skoðum okkur sjálf í ljósi lífs Krists og kenninga hans. Þessi sjálfsskoðun leiðir okkur til dýpri skilnings á eigin stöðu, iðrunar og yfirbótar og að lokum til endurnýjunar hugarfarsins.
Fastan er þannig ekki markmið í sjálfri sér heldur undirbýr hún okkur fyrir atburði föstudagsins langa og páskadags þannig að getum betur upplifað þann leyndardóm endurlausnarinnar sem er fólgin í krossdauða Krists og upprisu hans.
Hægt er að lýsa þessu með öðrum hætti: Hvert og eitt okkar á að nota föstuna til að snúa sér til Guðs. Fastan hefur þannig Guð að markmiði. Hin ytri fasta bendir með ögun sinni á þá innri sem bendir okkur til Guðs og minnir okkur á að við erum Guðs og eigum að ganga á Guðs vegum.
Er þetta ekki ágætt verkefni að glíma við í fjörtíu daga á ári? Að líta í eigin barm og kanna hvar við stöndum, hugleiða grundvallarspurningar um líf okkar og nýta þannig föstuna til að styrkja og bæta samband okkar við Guð, gera hugsanlega leiðréttingu á stefnunni í lífi okkar með það að markmiði að öðlast fyllri og sannari tilveru.
Guð gefi okkur öllum styrk til þess.