Guðlast og tjáningarfrelsi

Guðlast og tjáningarfrelsi

Trúarlegar skopmyndir eru ekki nýjar af nálinni. Elsta varðveitta myndin af Kristi á krossinum frá upphafsárum kristins átrúnaðar er hinn svokallaði Palatín kross, veggrista sem uppgötvaðist við fornleifauppgröft í Róm 1856. Þar getur að líta kristinn mann sem vegsamar róðukross en í stað kristsmyndar er asni á krossinum og undir stendur á grísku: „Alexamenos, tilbiður Guð sinn”.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
13. janúar 2015
Meðhöfundar:

Trúarlegar skopmyndir eru ekki nýjar af nálinni. Elsta varðveitta myndin af Kristi á krossinum frá upphafsárum kristins átrúnaðar er hinn svokallaði Palatín kross, veggrista sem uppgötvaðist við fornleifauppgröft í Róm 1856. Þar getur að líta kristinn mann sem vegsamar róðukross en í stað kristsmyndar er asni á krossinum og undir stendur á grísku: „Alexamenos, tilbiður Guð sinn”.

Upphafsár kristni og rabbínsk gyðingdóms á fyrstu öldum okkar tímatals einkenndust af ofsóknum í garð þessara trúarhópa og þeim fylgdu skopstælingar og áróður gegn þeim af hálfu Rómverja. Eyðilegging musterisins í Jerúsalem (70 e.Kr.) og loks borgarinnar sjálfrar (135 e.Kr.), komu til af því að Rómverjar börðu niður uppreisnir gyðinga sem voru andsvar við virðingarleysi í garð trúar þeirra og musteris. Útbreiðsla kristindómsins hélst í hendur við ofsóknir í garð hinna fyrstu kristnu en píslarvottar, sem mættu dauðdaga sínum af hendi Rómverja án mótspyrnu, vöktu athygli og andúð Rómverja. „Hermenn Krists beita ekki vopnum”, skrifuðu kirkjufeður á borð við Tertúllíanus til varnar píslarvottunum og ögruðu þannig karlmennskuhugsjónum Rómverja, sem upphófu dyggðugt líf hermannsins.

Ofsóknir í garð trúarhópa eru enn við líði og þar eru fá trúarbrögð undanskilin. Gyðingar hafa mætt ofsóknum í gegnum aldirnar í Evrópu, Afríku og Asíu og til þessa dags hafa skopmyndir gegnt veigamiklu hlutverki við að kynda undir andúð í þeirra garð. Slíkar myndir voru algengar í Vestur-Evrópu á fyrri hluta 20. aldar og eru algengar í Mið-Austurlöndum í dag. Ofsóknir í garð kristinna manna eru í dag verstar í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum (Rupert Shortt: Christianophobia: A Faith Under Attack, 2013) og margir af trúarhópum Mið-Austurlanda, á borð við drúsa, alavíta og mandea, eru nú þegar í útrýmingarhættu (Gerard Russel, Heirs to Forgotten Kingdoms: Journeys into the Disappearing Religions of the Middle East, 2014).

Skopmyndir hafa á Vesturlöndum ítrekað verið notaðar til að gera lítið úr og draga dár að trúarhefðum og þar er íslenskt samhengi ekki undanskilið. Í kjölfar hroðaverkanna í París hefur verið mikil umræða um tjáningarfrelsi og margir hafa sýnt samstöðu með hinum ögrandi skopteiknurum á tímaritinu Charlie Hebdo. Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga og því er eðlilegt að við sýnum öll tjáningafrelsinu samstöðu. Það frelsi felur í sér að styðja rétt þeirra til að tjá sig sem við erum í grunninn ósammála.

Tjáningafrelsið á sér langa og sársaukafulla sögu í Frakklandi og skopstælingar hafa verið samofnar þeirri sögu frá upphafi. Einn ötulasti baráttumaður Frakka fyrir tjáningarfrelsi, Voltaire (1694 – 1778), var óvæginn gagnrýnandi trúarhefða og hann ritaði m.a. leikverk sem er ádeila á Múhammeð spámann, Le Fanatisme ou Mahomet. Verkið þykir enn umdeilt og komst í hámæli 2005 þegar franskir múslimar mótmæltu uppfærslu verksins í smábæ á landamærum Sviss.

Tjáningarfrelsi og trúfrelsi eru stjórnarskrárvarin réttindi í Frakklandi en eins og víða á Vesturlöndum hefur m.a. spenna á milli trúarhópa og aukin hryðjuverkaógn leitt af sér skorður á því frelsi. Frakkar hafa gengið einna lengst Vesturvelda við að banna tjáningu trúar í hinu opinbera rými og eðli málsins samkvæmt hafa þær skorður beinst fyrst og fremst að múslimum. Árið 2004 var leitt í lög bann við trúartáknum í skólum, sem meinar múslimum að bera blæju og gyðingum bænakollu á meðan kristnir geta borið krossa innanklæða, og 2010 var samþykkt á franska þinginu reglugerð sem bannar höfuðföt sem hylja andlit, en henni var beint gegn búrkum.

Charlie Hebdo tímaritið er reist á rústum eldra blaðs, Hara-kiri, sem var bannað fyrir að gera gys að andláti Charles De Gaulle fyrrum forseta landsins en það þótti ganga of langt. Ritstjórn þess varð síðan skotspónn Islamista eftir endurbirtingu skopmynda Jyllands-posten 2006, þar sem bætt var við skopmyndum af spámanninum, og 2011 var ráðist að blaðinu eftir birtingu skopmyndar af Múhammeð á forsíðu blaðsins, sem í kjölfarið varð heimsþekkt.

Árásin í liðinni viku, þar sem fjöldi starfsmanna Charlie Hebdo létu lífið auk lögreglumanna sem gættu skrifstofu blaðsins, er árás á tjáningarfrelsið sjálft. Tjáningarfrelsi tryggir blaðinu réttinn til að gera grín að harmleikjum forseta jafnt sem trúarlegum spámönnum og þeim sem það blöskrar að mótmæla slíkum skopteikningum.

Þingmenn Pírata lögðu í kjölfarið fram frumvarp um að fella úr gildi ákvæði um guðlast í íslenskum lögum, sem hótar þeim fangelsisvist sem „opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags.” Það lagaákvæði samræmist ekki nútímahugmyndum um tjáningarfrelsi og það er skoðun okkar sem þetta rita að það eigi að fella úr gildi. Mikilvægt er að skoða samhliða því hvort núgildandi skorður á tjáningarfrelsi tryggi það að hatursáróður í garð trúarhópa sé bannaður með lögum en þar eru innflytjendur og minni trúfélög sérstaklega útsett.

Í kjölfar hildarleiksins hafa margir sýnt á samfélagsmiðlum samstöðu með skopritinu með orðunum Je suis Charlie eða „Ég er Charlie”. Við viljum jafnframt taka undir með þeim sem sýnt hafa lögregluþjóninum og múslimanum Ahmed Marabet virðingu en hann lét lífið til að vernda tjáningarfrelsi tímarits sem opinberlega dró dár að og smámaði trúarkenningar hans. Með orðum sem eignuð eru Voltaire, „ég er ósammála því sem þú segir en ég mun fram í rauðan dauðann verja rétt þinn til þess að halda skoðun þinni fram.” Je suis Ahmed Marabet.