Ég hef mikið velt því fyrir mér undanfarnar vikur og mánuði þessari hugsun þegar manneskja verður fyrir vonbrigðum með lífið eða þá að lífið valdi okkur sjálfum vonbrigðum. Ég reyndar tel að við séum allt lífið að takast á við þessa hugsun eða tilfinningu að verða á einhvern hátt fyrir vonbrigðum, þá geta það verið bæði stórir hlutir og litlir hlutir sem spila þar inn í allt frá því að við erum lítil börn þangað til við verðum fullorðnir sjálfráða einstaklingar.
Vonbrigðin okkar geta verið svo mismunandi, einstaklingsbundin og ólík eftir því hvar við erum stödd í lífinu hverju sinni. Fólk og aðstæður geta valdið okkur vonbrigðum og svo getur það gerst að við verðum fyrir vonbrigðum með Guð, finnst hann ekki hafa staðið með okkur, gripið inn í á ögurstundu og sýnt sig með óyggjandi hætti þannig að við finnum fyrir honum áþreifanlega.
Ég viðurkenni að þetta eru spurningar sem brenna held ég á hverri manneskju og þar eru prestar ekkert undanskildir að takast á við þá spurningu hvar Guðs sé þegar ég lendi í aðstæðum sem valda mér sorg og sársauka og hvar Guð sé í öllum þeim ótal harmleikjum sem gerast út um víða veröld, bæði hjá einstaklingum og samfélögum í heild. Oft verður einmitt fátt um svör.
Í raun held ég að ekkert eitt svar sé rétt og ég veit líka að það eru margir sem taka þá ákvörðun að hætta að trúa á Guð af því að svörin eru einmitt fá og ef þau eru til, þá tala þau ekki beint inn í þjáninguna hverju sinni, því það eru svo fá orð sem í raun og veru megna að tala inn í þjáningarfullar aðstæður og margir finna því sárum tilfinningum sínum frelsi með því að taka þá ákvörðun að Guð sé ekki til.
Ég skil það vel, enda er það held ég mesta áskorun sem tekist er á við, þegar lífið skyndilega breytir um svip, þegar allt í einu er kippt undan okkur fótum, þegar allt sem við áður þekktum, allt í einu dugar ekki til og við þurfum að feta okkur áfram skref fyrir skref í heimi sem okkur var áður ókunnur, líkt og barn sem er að læra að ganga í fyrsta sinn og í því ferli er oft eins og við séum ein á ferð og Guð er þögull. Á þeirri stundu þegar við þörfnumst hans mest, er ekkert svar.
Að mínu mati á það t.d. við þegar við annað hvort greinumst með sjúkdóm sem ógnar lífi okkar áþreifanlega, þegar tíminn allt í einu styttist og lífið er allt í einu ekki eins sjálfsagt og það var áður og það á líka við þegar við stöndum frammi fyrir því að vera nánir aðstandendur einstaklings sem stendur í þeim sporum að greinast með krabbamein. Í vanmættinum gagnvart þessum aðstæðum er auðvelt að upplifa sig eina/einan á ferð. Einmanaleikinn í slíkum aðstæðum er þrúgandi, maður vill ekki alltaf vera að tala um hlutina við annað fólk, ekki þreyta aðra með þínu, ekki valda áhyggjum, reyna að lifa af á hverjum degi, samt er alltaf undirliggjandi kvíðahnútur í maganum yfir því sem er í vændum er og er alltaf til staðar á meðan ástandið varir, hvort sem það endar í góðum bata sem betur fer gerist oft og fyrir það ber að þakka en getur líka farið á hinn veginn. Þannig er þessi sjúkdómur, því miður.
Nú get ég einungis tala út frá því sem ég upplifi sem aðstandi náins ástvinar sem er að takast á við ólæknandi krabbamein og eflaust upplifum við hlutina á svo ólíkan hátt en ég upplifi svo oft þessa tilfinningu að vera að syrgja fyrirfram manneskju sem er enn á lífi, full af lífsvilja og elju að komast af, sem um leið elur á sektarkennd og samviskubiti hjá mér, að finna fyrir þessari miklu sorg og vanmætti gagnvart manneskju sem ég elska og er ekki enn farin úr þessum heimi. Þetta elur á svo mikilli togstreitu í sálarlífinu, það er að gleyma núinu og vera kominn svo langt á undan sér, en ég vil meina að það séu bara mannleg viðbrögð við þessum aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir sem fjölskylda og um þessar tilfinningar þarf að ræða og eiga samskipti um allt sem við upplifum og finnum fyrir, því annars getur þessi andlega áfallakreppa farið að brjótast út líkamlega og andlega og farið að taka sinn toll af þeim sem í þessum aðstæðum eru. Það er þetta sem einn góður sjúkrahúsprestur orðaði svo vel um daginn í viðtali hjá Sigurlaugu M. Jónasdóttur á Rúv „að eiga grímulaus samskipti“. Þegar á hólminn er komið er ekkert held ég dýrmætara í svona ferli en einmitt þess konar samskipti milli náinna aðstandenda sem eru að takast á við veikindi af þeim toga sem krabbamein er.
Ég velti því líka fyrir mér, þar sem ég hef verið að leita að merkingu síðast liðið ár, eftir að móðir mín greindist í blóma lífsins, þ.e að veruleikinn sem ég er stödd í sé á einhvernhátt merkingarbær til þess að færa mér um leið ró og stundarfrið í sálinni. Ég hef eytt miklum tíma í að lesa mér til um allar þessar stóru spurningar og það sem hjálpaði mér mikið í þessum aðstæðum var það að ég rakst á bók um daginn eftir bandarískan blaðamann sem heitir Philip Yancey; en bókin heitir „The question that never goes away“ Why...eða spurningin sem aldrei hverfur – Af hverju?
Hann er vinsæll fyrirlesari um það hvernig við tökumst á við þjáninguna og hefur talað inn í mjög erfiðar aðstæður víða um heim. Hann lýsir því þegar hann lenti sjálfu í bílslysi og var hætt kominn hvernig þrjú atriði fóru í gegnum hugann á þeirri stundu: Hvern elska ég, Hvað hef ég gert við líf mitt, og er ég tilbúinn undir það sem gerist næst?
Hann vitnar þar á eftir í ljóð eftir þýska ljóðskáldið Rainer Maria Rilke sem hljóðar svona í lauslegri þýðingu: "Væri það mögulegt; að við gætum séð handan þess sem við þekkjum...gætum við umborið sorgir okkar með meira trausti en gleðistundirnar. Því sorgarstundirnar eru stundir þegar eitthvað nýtt hefur ruðst inn í líf okkar, eitthvað ókunnugt, allt sem við þekkjum hörfar aftur, og eitthvað nýtt stendur fyrir miðju og er þögult.“
Þegar ég las þetta, fór ég að hugsa, kannski er ég að eyða of mikilli orku í að fá merkingu í þá hluti sem ég er að ganga í gegnum í dag sem aðstandandi, kannski er ég ekki tilbúin til þess að skynja og skilja merkinguna, kannski innst inni vil ég ekki trúa að það sé einhver merking í þessu öllu fólgin, því ef að hún er til, þá um leið trúi ég að Guð sé að stýra og stjórna aðstæðum og handvelja út fólk sem verður þjáningarfullum aðstæðum að bráð og það er ekki sá Guð sem ég trúi á.
Kannski á ég að leyfa þessari nýju reynslu einmitt að vera þögul um stund, hluta af mér, ég óskaði ekki eftir þessum aðstæðum og það gerði sannarlega mamma mín ekki, en þær eru engu af síður komnar til að vera og ef til vill síðar meir, þegar ég horfi aftur fæ ég skilið eða sé mun sjá hlutina í merkingarbæru ljósi. Þangað til mun ég böðlast áfram, skref fyrir skref, dag eftir dag, lifa af og teygja mig út eftir aðstoð, í nærveru þess sem skilur eða jafnvel skilur ekki, stundum er nóg að vera bara til staðar með fólkinu sem maður elskar.
Ég hóf þessa hugvekju á því að tala um vonbrigði og hversu óhjákvæmilegt það er að forðast slíkar aðstæður í lífinu því þær eru hluti af mannlegri tilvist og tilveru í samfélagi við annað fólk. Ég veit líka í dag og trúi því frá hjartans rótum að Guð er ekki sá sem stýrir þeim aðstæðum, því að við erum fædd með þeim ósköpum að vera ekki fullkomin, vera mannlleg, berskjölduð og gera mistök. Ég trúi því að auki að Guð valdi ekki sjúkdómum og hörmungum, ég trúi því að hann vaki yfir og sé með okkur þegar lífið er sem verst og myrkrið sem svartast. Ég trúi því að hann birtist í okkur mannfólkinu þegar einhver þarf á hjálp að halda, þegar einhverjum líður illa, þegar hörmungar ganga yfir og heilu samfélögin bregðast við til að bæta fyrir það sem úrskeiðis hefur farið, þegar ljósið hans lýsir í augum náungans sem kemur með útrétta hjálparhönd og þerrar tár af augum þess sem líður. Þegar við mætumst í nándinni, hversu sársaukafull sem hún kann að vera, þá getur mannleg snerting gert kraftaverk og slík kraftaverk eiga sér stað á hverjum degi út um allan heim í dag. Það á þann hátt sem Guð er sýnilegur í veröldinni, það er á þann hátt sem tilvist hans verður áþreifanleg og nálæg. Að skynja það, minnkar vonbrigðin, léttir þjáninguna og smátt og smátt fer að glitta í ljósið í myrkrinu. Þess vegna t.d dæmis eru svona messur svo mikilvægar, að við komum saman og eigum þessa sameiginlegu reynslu, að hafa veikst af krabbameini, hafa misst eða vera aðstandendur einhvers sem er veikur af þessum sjúkdómi. Það er á þennan hátt sem kristið samfélag virkar og í þesum veruleika öðlast hin kristna von líf, að við getum saman vænst einhvers af framtíðinni og þannig lifum við saman af og með þeim aðstæðum sem lífið færir okkur í fang, bæði í sorg og í gleði.
Þessi hugleiðing var flutt í Bleikri messu í Akureyrarkirkju sunnudagskvöldið 19. októberf