Onagawa í Miyagi héraði í Japan er strandbær sem varð einna verst úti í jarðskjálftunum og flóðbylgjunum í mars sl. Íbúafjöldi Onagawa var um 10.000 en fleiri en 3.000 manns er saknað og eru sennilega látnir og 80 prósent af íbúðasvæði bæjarins eyðilagðist.
Samstundis eftir að fréttir bárust um heimsbyggðina um hamfarirnar hóf Nelson Post, fréttablað í Nelson-borg í Kanada, að skora á fólk að sýna íbúum Onagawa stuðning og breiddist áskorunin fljótt um allt landið. En hvers vegna vildi fólk í Kanada sérstaklega styðja íbúa Onagawa?
Onagawa er hafnarborg en höfnin var notuð fyrir japönsk herskip á meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Í lok styrjaldarinnar ákvað kanadíski herinn að gera árás á herskip í Onagawa-höfn. Þann 9. Ágúst 1945 gerðu kanadískar flugvélar loftárás á höfnina með þeim afleiðingum að 158 japanskir hermenn og borgarar í Onagawa létust en einnig féll einn flugstjóri kanadíska hersins. Hann hét Robert H. Gray, 37 ára gamall foringi í kanadíska sjóhernum og var frá Nelson-borg.
Flugvélin sem foringi Gray stýrði hélt áfram að sækja gegn Japönum þrátt fyrir að eldur hafi orðið laus í vélinni en féll að lokum í Onagawa-fjörð. Foringi Gray reyndist vera síðasta fórnarlambið í kanadíska hernum í seinni heimsstyrjöldinni og var heiðraður en lík hans fannst aldrei.
Árið 1989 spurði Terry Milne, foringi kanadíska hersins, hvort möguleiki væri á að byggja minnismerki í Onagawa til að minnast hugrekki foringja Gray og heiðra. Það hefur hins vegar aldrei verið venja í Japan að byggja minnismerki fyrir erlenda hermenn innan landsins. Það kom því foringja Milne mjög á óvart að fólkið í Onagawa tók beiðni hans vel. Það samþykkti ekki aðeins að leyfa byggingu minnismerkis heldur einnig að leita að líki foringja Gray og flugvél hans í sjónum. En leitin reyndist árangurslaus.
Minnismerki var byggt í fallegum Sakiyama-garði á fjalli en þaðan er hægt að horfa yfir Onagawa-fjörð þar sem foringi Gray sefur enn. Kanadískir hermenn jafnt og japanskir sem lifðu stríðið af mættust í athöfn þegar minnismerkið var afhjúpað. ,,Óvinir gærdagsins urðu vinir dagsins. ... Við óskum þess að minnismerkið verði huggun fyrir öll fórnarlömb stríðsins og tákn vináttu beggja þjóðanna og friðar“ Þetta er rist á minnismerkið.
Undanfarin ár hafði Onagawa og Nelson-borg dýpkað samskipti sín og meðal annars sent á milli ungt fólk sem skiptinema. Foringi Milne sagði eftir hamfarirnar í Japan: ,,Onagawa gerði allt sem var hægt að gera fyrir okkur Kanadamenn. Nú er tíminn fyrir okkur að gera slíkt hið sama fyrir fólkið í Onagawa.“ Foringi Milne er nú mjög virkur í skipulagningu söfnunar og öðru hjálparstarfi fyrir Onagawa.
Á meðan ég hef fylgst með fréttum frá Japan eftir hamfarirnar heyrt ég margar sögur sem hafa vakið mig til umhugsunar. Mig undrar oft hversu miklu hugrekki fólk býr yfir og er tilbúið að sýna, tillitssemi til annarra og kærleika í ólýsanlegum erfiðleikum.
Mig langaði að segja fólki á Íslandi ofangreinda sögu, þar sem mér finnst um að ræða merkilegt dæmi um virðingu og skilning sem skapar vináttu og frið en elur ekki á hefnd. Við þurfum ekki alltaf að vera svartsýn um gjörðir okkar og framtíð. Sagan um foringja Gray átt sér stað í ,,hörðum heimi raunveruleikans“. Ef falleg saga eins og á milli Onagawa og Nelson-borgar gerist einu sinni eða tvisvar í hverjum tíu tilfellum, þá eigum við að geta trúað á hið góða.
Er þetta ekki hvatning til okkar og jákvæð skilaboð frá fólkinu í Onagawa sem stendur fyrir gríðarlegum erfiðleikum núna? Hjálparhönd sem við réttum til fólks í erfiðleikum og neyð gefur okkur alltaf eitthvað til baka, sem fæst ekki á annan hátt, eins og peninga eða samfélagsvald. Og þannig og þess vegna hjálpumst við að, ekki bara fyrir annað fólk heldur líka fyrir okkur sjálf.