Komið er sumar og lífið allt tekur á sig annan blæ. Við hjónin tókum strax út fyrsta skammt sumarleyfis okkar og héldum til Spánar. Við dustuðum rykið af golfsettunum og fórum út á golfvöll, spennt að sjá hvernig kunnáttan, eftir allar æfingarnar í fyrra, kæmi undan vetri.
Gátan
Fyrsta daginn lékum við tvö ein í sól og sterkum austanvindi. Það var ágætt að fá að vera í friði fyrsta daginn. Næst þegar við brugðum okkur út á völl höfðum við verið bókuð með tveimur öðrum kylfingum. Þetta voru tveir karlar, vinir til fjörutíu ára, annar Englendingur, hinn Íri.
Að leika átján holur í golfi tekur um fimm klukkustundir. Við hófum leik með þessum tveimur herramönnum og nutum lífsins á laugardagsmorgni í sól og blíðu. Áður en lagt um leið kom í ljós að Írinn var mun málgefnari en Englendingurinn. Það kjaftaði á honum hver tuskan, eins og sagt er. Hann reif af sér brandara, gerði grín af öllu milli himins og jarðar. Þetta voru allt meinleyslegir brandarar af því tagi sem gera lífið bara skemmtilegra og golfið enn ánægjulegra en ella.
Þegar við höfðum leikið í á annan tíma spurði Írinn kurteislega hvort hann mætti spyrja hvaða starf ég hefði með höndum. Ég spurði á móti hvort hann vildi ekki geta sér til um það og reyndar mættu þeir báðir taka þátt í leiknum. Þeir mældu mig upp úr og niður úr og skutu á að ég gæti verið læknir. En svo komu efasemdir. Annar taldi mig aðeins of gildan um miðjuna til að svo gæti verið. Þá færðu þeir sig yfir í verkfræðina en ég lét ekkert uppi enn.
-Ertu þinn eigin herra, spurðu þeir. –Nei, ég á mér húsbónda.
Þeir báru saman bækur sínar og tippuðu á að ég gæti verið í hótelbransanum.
–Nei, svaraði ég og var að hugsa um að segja þeim að hjá húsbónda mínum væru þó margar vistarverur eins og í hótelbransanum sem hefði gefið þeim næga vísbendingu enda þekkt setning úr 14. kafla Jóhannesarguðspjalls.
Þeir gáfust upp og ég sagði:
- Í ljósi allra skemmtilegu brandaranna um trúarbrögð og allt það þá verð ég að segja að það er mér sérstök ánægja að tilkynna ykkur . . .
Lengra komst ég ekki. Írinn tók bakföll af hlátri og hrópaði:
-Ertu prestur?
Og ég játti því. Við hlógum öll mikið og héldum áfram að leika golf.
Hið sameiginlega
Fljótlega kom í ljós að Írinn var kaþólskur hafði búið í Englandi í áratugi og rekið þar veitingahús þar til hann fór á eftirlaun á miðjum sextugsaldri. Hann hafði með öðrum orðum verið kráareigandi eða kæmeistari eins og maðurinn var kallaður í gömlu biblíuþýðingunni, sá sem smakkaði á veigunum í brúðkaupinu í Kaana þegar Jesús hafði breytt vatni í vín. Englendingurinn var fyrrverandi slátrari og hafði séð þeim fyrrnefnda fyrir hráefni í veitingabransann. Hann hafði einnig farið á eftirlaun fyrir sextugt.
Írinn fór nú að tala um trú sína og uppvöxt. Hann er einn 17 systkina. Að hugsa sér 17 börn, sammæðra og samfeðra! Hann var sæll með lífið og tilveruna, þakklátur fyrir allt og tilbúinn að kveðja hvnær sem væri. Bróðir hans hafði verið að því kominn að verða kaþólskur prestur en hætt við á síðustu stundu, fundið konu og átti nú sjö börn. Hann ræddi trúmál. Við spjölluðum um lífið og tilveruna. Skemmtilegar og gefandi samræður.
Að leik loknum buðu þeir upp á veitingar og við spjölluðum saman um hríð, um lífið og tilveruna, um stjórnmál, um Tony Blair, sem er nú í tilvistarvanda með ríkisstjórn sína, um vinstri og hægri menn í Bretlandi, um Íraksstríðið, um Ísland, Spán og allt milli himins og jarðar eins og við félagarnir gerum í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni.
Komið var að kveðjustund. Ekki voru þeir þó verr farnir en svo eftir að hafa leikið golf með íslenskum hjónum, presti og sjúkraliða, í næstum því heilan dag að þeir stungu upp á að við hittumst aftur. Við kvöddumst og ákváðum að hittast á öðrum velli eftir tvo daga og taka saman annan hring.
Hvert verður límið?
Undarlegt hvernig maður kynnst nýju fólki við nýjar aðstæður. Hátterni þessara góðu félaga sýndi að þeir höfðu báðir alist upp í trúarlegu umhverfi, annar kaþólskur og hinn mótmælandi. Við áttum sameiginlegt gildismat. Í þeim báðum býr tiltekin virðing fyrir trú og kirkju.
Fólk um alla Evrópu deilir álíka viðhorfum til lífs og tilveru. Við erum ein heild. En hve lengi verður það? Samsetning þjóða í Evrópu er að breytast. Fólk af öðrum menningarsvæðum tekur sér bólfestu á meginlandinu og á Íslandi líka. Hvernig verður mannlífið í löndum álfunnar í náinni framtíð og þegar lengra er litið? Verður þar áfram samhljóma heild? Hvernig getum við varðveitt einingu í margbreytileika? Hvernig getum við fagnað nýju fólki með framandi trú? Hvernig getum við lifað í sátt og samlyndi með ólíku fólki? Í hverju verður einingin fólgin? Hvert verður límið í menningunni? Hvað tengir áfram prest og kæmeistara, sjúkraliða og slátrara?