Síðustu árin hefur iðrun ekki verið í tísku á Íslandi.
Ísland hefur verið of hrokafullt fyrir iðrun.
Hér áttu menn ekki að sjá eftir neinu. Hér áttu menn að halda áfram og líta ekki um öxl. Hér áttu menn helst ekki að gera mistök – og ef þeir gerðu þau, áttu þeir helst ekki að viðurkenna þau.
Vísifingur Íslands benti á aðra þegar mistök voru annars vegar. Þau voru ætíð þeim að kenna. Hrokafull samfélög staðna. Þau eru svo upptekin af sjálf- um sér að þau hafa ekki pláss fyrir neitt annað. Við Íslend- ingar fengum að sjá hvernig samfélag hrokans hrundi. Og það sem á við um samfélag er ekki síður í gildi um okkur sem einstaklinga.
Iðrunin er forsenda fyrir þroska okkar.
Iðrun er að sjá mistök sín. Viðurkenna þau. Sjá eftir þeim. Iðrun er að vera alveg í rusli vegna eigin breyskleika.
Iðrun er að vera miður sín út af sjálfum sér.
Iðrun er að sjá að maður er gjörsamlega búinn að klúðra málinu. Hjálparlaust.
Sá getur ekki iðrast sem tekur sig of hátíðlega. Sá sem iðrast leyfir sér að vera bara manneskja.
Iðrun er að sjá mistök sín. Viðurkenna þau.
Sá sem iðrast kann að gera mistök.
Sá kann að iðrast sem veit að stundum er maður afleitur eða jafnvel vonlaus.
Hrokagikkurinn hugsar ekki þannig. Honum finnst bæði hallærislegt og aumingjalegt að iðrast. Aðeins sá veiki iðrast. Aðeins sjúkir menn eru miður sín út af sjálfum sér, hugsar hrokagikkurinn og er miður sín út af öllum öðr- um.
Iðrun er stórkostlegt fyrirbæri. Þeir hugrökku iðrast. Þeir hugrökku þora að hugsa málið upp á nýtt. Endurmeta það. Sjá það frá öðru sjónarhorni.
Iðrun er dáð. Iðrun er að brjótast út úr vananum. Segja skilið við það hefðbundna. Iðrun er að átta sig á að hlut- irnir þurfa ekkert endilega að vera eins og þeir hafa alltaf verið.
Iðrun er að byrja upp á nýtt.
Iðrun er þrá eftir þeim skapandi mætti sem endurnýjar manninn og læknar.
Iðrun er hin sanna bæn um fyrirgefningu. Sé fyrirgefningin vatnið er iðrunin þorstinn.
Þessi pistill birtist fyrst í bókinni Fyrirgefning og sátt sem Skálholtsútgáfan gaf út árið 2009.