Fölnað laufið fýkur um götur og stræti borgarinnar, grasið í haganum hefur misst sinn græna lit. Haustið leggst að, dagarnir styttast og myrkrið teygir sig lengra inn í daginn og síðdegið. Gáskinn í lífinu sem fylgir sumri hefur vikið fyrir alvörunni þegar lífsmynstrið tekur á sig hefðbundinn og reglubundinn blæ. Skólarnir byrjaðir, sumarfríin að baki. Og kirkjustarfið fer líka inn í sinn hefðbundna farveg haustsins og vetrarins sem skammt er undan. Þeim fjölgar sem koma á sunnudögum til kirkju og sækja helgihald og annað kirkjulegt starf.
Ókunnugt andlit blasti við mér einn sunnudagsmorguninn við kirkjudyrnar rétt fyrir messu. Það er svo sem enginn nýlunda, en það var einhver sérstakur svipur sem horfði til mín. Einhver eftirvænting en um leið kannski kvíði, svolítið sérstakt gleðiblik í augunum en hikandi bros lék um varirnar. “Velkomin til kirkju og gaman að sjá þig,” sagði ég er ég tók í kalda hönd hennar í haustnepjunni. “Já, vertu velkomin í kirkjuna okkar”, bætti djákninn okkar við með hlýju brosi er þær tókust í hendur. “Æ, mikið er tekið fallega og vel á móti mér hérna”, sagði konan og andlitið hennar ljómaði af gleði, feginleik, mannlegri hlýju. Það var eins og einhverju litlu fargi hafi verið létt af henni. Eftir messu tókum við tal saman yfir kaffibolla. Hún sagði mér að hún væri ný flutt í hverfið. Þekkir engan enn, langar að verða hluti af samfélaginu hér í nýja hverfinu sínu. “Svo heyrði ég í klukkunum um daginn” sagði hún. “Ákvað með sjálfri mér að koma í næstu messu og sjá, hitta fólk og skoða “nýju” kirkjuna mína. Mikið er ég fegin að hafa drifið mig, það segi ég satt” og einlægt brosið lék um allt andlit hennar.
Ég hef mikið velt því fyrir mér, sérstaklega eftir að ég varð prestur í borginni, hve mikilvægt það er hvernig kirkjan tekur á móti fólki, opnar faðm sinn til að þeim sem sækja til kirkjunnar líði þar vel. Umvafin hlýju og kærleika. Vissulega skiptir landafræðin þar engu máli. En nándin og kunningsskapurinn er yfirleitt meiri í dreifbýlinu en þéttbýlinu, þó það þurfi ekki að vera einhlítt. Einsemd manneskjunnar þarf ekki að vera bundin stað, hún er oftar persónubundin. En það er hlutverk okkar sem kirkju að reyna að rjúfa einsemd og reyna að létta öðrum lífið. Vera með faðminn opinn.
Það getur verið svolítið átak að koma inn í ókunnugt samfélag kirkjunnar sinnar eins og reyndar að vera innan um ókunnugt fólk. Því er okkur svo nauðsynlegt að stíga fram og eiga frumkvæðið, hafa augun opin fyrir þeim sem eru hikandi, gefa okkur að nýju andlitunum og kynnast persónunum. Ef einhver hefur skyldur og vitund um þetta er það kristin kirkja. Hún er samfélag – ekki köld stofnun – samfélag í trú og tilbeiðslu, samfélag sem gefur gaum manneskjunni sem leitar og vill koma til samfundar við Guð og menn. Við öll höfum ætíð þörf fyrir slíkt og erum velkomin í samfélag kirkjunnar.