Ég sat við eldhúsborðið í morgun, nýbúinn að fara yfir Facebook síðu kirkjunnar, sötraði kaffið mitt og las Moggann. Á netinu, að sjálfsögðu í pdf-útgáfu því á krepputímum er pappírinn sparaður og netið notað í staðinn. Það er heilmikið fjallað um Facebook í Mogganum í dag. Frambjóðendur eru farnir að nota samskiptavefinn mikið og svo eru auglýsendur í æ ríkari mæli farnir að nýta sér þennan vettvang.
Í Mogga dagsins er einmitt fjallað um nýja auglýsingu símafyrirtækisins Vodafone. Þar er þekktur grínisti, Pétur Jóhann, í „hlutverki Lykla-Péturs sem býður guðhræddum sálum símnotenda í himnaríki ... Vodafone.“ Og svo kemur „pönsjlænið“ í lokin: „Kirkjan á eftir að eipa.“
Yfir hverju?
Hér er símafyrirtækið að gera það sem gert hefur verið lengi -- og í raun að útfæra sjálft leikritið um Lykla-Pétur: Það reynir að segja eitthvað um sig sjálft með því að tengjast þekktum fyrirbærum úr menningarsögunni. Slíkar tengingar geta tekist vel eða illa. Hér og í þessu tilviki óttast ég að tengingin geti verið hálf-misheppnuð. Ekki vegna þess að þarna sé fjallað um eitthvað sem mörgum er heilagt heldur vegna þess að það er „eitthvað-svo-2007“ að gefa í skyn að grunngildi og/eða grunnstofnanir séu styrkt eða jafnvel eignuð stórfyrirtækjum. Og þannig er mögulegt að skilja auglýsinguna -- hvort sem það var nú ætlun fyrirtækisins eður ei.
Kirkjan eipar ekki yfir auglýsingum þótt kirkjunnar fólk geti haft á þeim skoðun. Kirkjan eipar frekar yfir ranglæti, yfir mismunun, yfir kúgun. Sérstaklega á föstunni.
Það er aftur á móti er sjálfsagt að geta þess í samhengi áðurnefndar auglýsingar og þessa greinastúfs að himnaríkivist – þessa heims og annars – er að skilningi kirkjunnar gjöf sem er þegin í trú. Himnaríkið sem kirkjan boðar krefst ekki áskriftar eins og himnaríki símafyrirtækisins. Og þannig er reyndar líka með þjónustu kirkjunnar sem veitt er um allt land: Hún er endurgjaldslaus og öllum opin.
Yfir því þarf enginn að eipa.
Ps. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir sögninni „eipa“ þá mun hún skilgreind eitthvað á þessa leið í Íslenskri orðabók: „að tapa sér, ruglast.“ Í þessum pistli er hún notuð í fyrrnefndu merkingunni.