Guðspjall: Jóh. 5. 1-15 Lexia: Sálm. 103. 1-6 Pistill: Gal. 2.20
Við höfum hlýtt á guðspjall dagsins sem að þessu sinni er kraftaverkafrásaga og gerðist við laug í Jerúsalem sem kallast Betesda en þetta orð merkir Hús miskunnarinnar. Laugin var umkringd fimm súlnagöngum og var hún talin hafa lækningarmátt. Árið 1888 þegar verið var að lagfæra kirkju heilagrar Önnu í norð-austur Jerúsalem fundust hleðslur laugarinnar. Á einum vegg er freskumálverk sem sýnir engil sem hrærir vatnið. Auk þess að nefna laugina með nafni þá segir Jóhannes guðspjallamaður að hún sé við svonefnt Sauðahlið í Jerúsalem. Þetta bendir til þess guðspjallið sé frá því fyrir 70 e. Kr. Í súlnagöngunum lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra sem biðu hræringar vatnsins. En eins og segir í guðspjallinu þá fór engill Drottins öðru hvoru niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill, sama hvaða sjúkdómur sem þjáði hann. Sjúki maðurinn hafði öðru hvoru reynt að vera fyrstur til að fara ofan í en fékk engan til þess að láta sig ofan í laugina og í þeim fáu tilvikum sem hann fékk einhvern til þess þá varð alltaf einhver til þess að vera á undan að fara ofan í laugina. Staða mannsins var því vonlaus þegar Jesús sér hann og vinnur miskunnarverk á þessum bágstadda og hjálparþurfandi manni eftir að hafa spurt hann hvort hann vilji verða heill. Þannig skírskotar Jesús til viljans og trúarinnar sem eru forsendur þess að miskunnarverkið verði unnið og lækningin takist.
Auðvitað vildi hinn sjúki maður ekkert annað frekar en að verða heilbrigður. Það vilja allir menn. Allir þrá heilbrigði og hamingju. En manninum er nauðsynlegt að eiga sterkan vilja og bjargfasta og vongóða trú. Viljinn, vonin og trúin og jákvæð lífsviðhorf leiða til árangurs og sigra í lífinu, veita okkur aukið öryggi, heilsu og hamingju. Auk þessara eiginleika þá þurfum við að rækta með okkur kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi, ekki síst í dag þegar blikur eru á lofti í heimsmálunum og menn eru uggandi um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við megum alls ekki gleyma að leggja rækt við þessa jákvæðu eiginleika, vera kyndilberar ljóssins sem skín í myrkrinu, vera friðflytjendur þar sem ófriður ríkir, vera sáttfús þar sem ósætti ríkir.
Verðmæti lífsins, hamingja þess, gleði og blessun, byggist ekki síst á því að menn tileinki sér þessar dyggðir sem hér er minnt á. Slíkar dyggðir, slíkir andans ávextir eru góðar leiðbeiningar fyrir foreldra, kennara og alla uppalendur sem vilja koma börnunum til manndóms og þroska, hjálpa þeim til að lifa heilbrigðu og fögru lífi.
Hin tíðu andmæli, mótþrói og kröfugerðir nútímans bera þess vitni að ávextir andans hafi ekki náð að festa rætur og hafa þau áhrif sem skyldi á uppeldi hinna ungu í þessum heimi. Margt bendir til þess að íslensk skólaæska hafi á undanförnum árum alist upp við sundrungu, mótþróa og beiskju í stað kærleika, langlyndis, gæsku, góðvildar, hógværðar, trúmennsku og drenglyndis. Það vantar meira af ávöxtum og áhrifum andans inn í uppeldis og skólastarf, inn í fjölskyldu og heimilislíf. Hér þurfa áhrif kirkjunnar að verða virkari í reynd. Fyrir áhrif andans og bænarinnar getur kirkjan laðað og leitt til kærleika og góðvildar, samhygðar og samlyndis, trúmennsku og mannúðar.
Kirkjan þarf einnig að leggja rækt við þá ávexti andans sem fólgnir eru í bindindi, heilbrigðu og reglusömu lífi. Á okkar tíð er þörfin ástæða til að brýna fyrir fólki hversu mikið böl, tjón og tár getur hlotist af óvarlegri meðferð áfengis og tóbaks. Við þurfum að vinna að andlegri heilsuvernd í þessu landi og reyna umfram allt að innræta hinum ungu heilbrigt líferni, reglusamt og fagurt mannlíf. Slíkt líf byggist á því að tileinka sér ávexti andans og fylgja frelsaranum á framtíðarbraut.
Ég vil leyfa mér að bjóða velkominn hingað í dag myndarlegan hóp fermingarbarna og ættingja þeirra.
Í fermingarfræðslunni í vetur komum við til með að velta fyrir okkur spurningum sem skipta máli, bæði hér í kirkjunni í guðsþjónustum vetrarins og eins í Kirkjubæ þar sem fræðslan fer fram. Sumar hugsanir og vangaveltur eru áleitnari en aðrar, þær snúast um líf mannsins hér í heimi, tilganginn á bak við lífið. Þegar hugsanir um líf mannsins og tilveru leita á hann er vitund hans um sjálfan sig í fyrirrúmi. Hver er þessi ég? Hvernig vil ég verja lífi mínu? Hætti ég á að missa af einhverju í lífinu ef ég leyfi mér að staldra við og anda að mér ilmi augnabliksins? Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en fyrirgjöra sálu sinni?, spurði Jesús eitt sinn af gefnu tilefni.
Það er mikilvægt að spurningar og vangaveltur fermingarbarnanna séu teknar alvarlega. Ef þau fá ekki tækifæri í fermingarfræðslunni að bera vangaveltur sínar undir sjónarhorn kristinnar trúar er hætt við því að svör trúarinnar veitist þeim seint.
Sú spurning sem leitar hvað ákafast á huga fermingarbarnsins, unglingsins er þessi: “Hver er ég?” Ef þeirri spurningu er svarað aðeins í ljósi veraldlegra hluta þá hefur verið numið staðar á miðri leið. Það svar er ekki fullnægjandi. Ef spurningu unglingsins er ekki svarað í ljósi kristins mannskilnings, í ljósi þess að maðurinn er skapaður í mynd Guðs sem einstök og elskuð persóna þá er hann skilinn eftir úti í miðri á. Við eigum að kenna börnum okkar hvað þau eru sjálf. Þau eru einstök hvert fyrir sig. Að kenna
börnum sjálfsvirðingu á þennan hátt leggjum við grunninn að því að þau beri virðingu fyrir öðrum, beri virðingu fyrir lífinu.
Spurningar um réttlæti og óréttlæti skipta verulega miklu máli hjá unglingum. Þær spurningar tengjast oft hugmynd þeirra um Guð og um tilgang lífisins.Stundum tala menn um djúpstætt óréttlæti sem lagt sé á þá. Menn skilja eki hvers vegna skelfileg þjáning hendir suma en ekki aðra. Hvað hafa þeir menn unnið til sem ganga í gegnum slíkar þjáningar? Sumir geta með engu móti trúað á Guð þegar þeir horfa upp á þjáningar manna í heiminum og alla illsku veraldar. Hvað er réttlæti? Og hvað er óréttlæti? Margir kalla á hefnd um þessar mundir í ljósi hryðjuverkanna í Bandaríkjunum. Forseti Íslands sagði að í hefndinni væri ekkert skjól. Honum mæltist vel því hefndin kallar á hefnd, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En biskup Íslands bætti því við í gærkveldi að það væri hins vegar skjól í trúnni. Trúin stendur vörð um lífið og gildi mannsins þar sem sérhver manneskja er einstök sköpun Guðs. Í því ljósi ætti okkur að auðnast að læra að umgangast hvort annað í þessum heimi, að elska náungann eins og okkur sjálf. Hermdarverkin í Bandaríkjunum birta allt það versta í mannlegu fari, þau gefa okkur innsýn inn í myrkur vonleysis og örvæntingar, myrkur ótta, haturs og hefnigirni sem heimurinn skelfur fyrir. En Jesús sagði eitt sinn við lærisveina sína: Verið óhræddir, ég hef sigrað heiminn. Við trúum því þess vegna og treystum að hið góða muni sigra að lokum.
Jesús Kristur sagði eitt sinn: “Ef ljósið í þér er myrkur, hve mikið verður þá myrkrið. Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífisns. Þér eruð ljós heimsins. Borg sem á fjalli stendur fær ekki dulist. ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góðverk yðar.”
Hermdarverkin eru árás á ljósið og lífið, kærleikann, góðvildina, langlyndið, trúmennskuna, drenglyndið, allt hið góða, fagra og fullkomna. Hermdarverkin eru árás á miskunnsemina sem Jesús auðsýndi manninum sem var búinn að vera veikur í 38 ár en sá maður þráði það eitt að öðlast lækningu. Hermdarverkin eru atlaga gegn frelsi mannsins til þess að vera manneskja í umhverfi sem hann hefur sjálfur skapað sér þar sem frelsi, lýðræði og mannréttindi eru höfð í heiðri. Það sem vakið hefur athygli mína síðustu daga eru allir ljósberarnir sem starfa við björgunarstörf í rústunum. Þeir una sér vart hvíldar við störf sín, slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar. Þar eru t.d. slökkviliðsmenn að störfum sem vinna jafnvel á frívöktum sínum við að reyna að bjarga mannslífum.
Það sem sækir mest á huga mannsins hverju sinni er eitthvað sem skiptir hann sjálfan máli. Jesús nam gjarnan staðar við það og opnaði með því leið til þess sem skipti höfuðmáli. Sjúkir menn og fatlaðir komu til Jesú og lögðu fram óskalistann. Í þeirra huga skipti mestu máli að fá sjón, að geta gengið, geta heyrt. Jesús gerði sér ríkulegt far um að setja sig í þeirra spor. Hann læknaði vissulega en hann gerði meira. Hann opnaði augu þeirra fyrir því sem mestu máli skiptir þegar öllu er á botninn hvolft. Lífið er ekki bara að geta séð, heyrt og gengið. Það sem er mikilvægast er að finna sig öruggan í þessum heimi myndu ýmsir segja um þessar mundir.
Hugur fermingarbarna er oft næmur fyrir hinum dýpstu spurningum mannlegs lífs. Sá sem byggir fræðslu sína á þeim spurningum og vangaveltum sem mestu máli skipta í lífi manns og heims stendur ekki á þunnum ís. Þvert á móti. Þessar spurningar eru í raun og veru þær sömu sem fram eru bornar í sjálfri Biblíunni. Þegar svara er leitað við þeim róa menn á hin dýpstu mið. Þar getur stundum reynst erfitt að sjá til botns, -opna augun.
Oft leggja unglingarnir fram spurningar sem ég hef sjálfur glímt við og hef jafnvel ekki nein svör við. Þessar spurningar geta virst ögrandi. Þær eru snarpar og smjúga gegnum hugann. Þær koma kannski við kvikuna á mér?
Brýnasta hlutverkið í fræðslunni er að hlusta. Það er ekki ætíð mikilvægast að koma klyfjaður svörum við öllum spurningum. Og kannski er ekki til svar. Þess í stað getur hjálpin verið sú að finna einhverja slóð til að þoka spurningum áfram. Spurning getur komið mörgum manninum áleiðis á meðan svarið hins vegar getur verið sem leiðarlok. Þess vegna er aldrei of mikið gert af því að hlusta.
Megi Guð vonarinnar og gleðinnar fylla ykkur gleði og tilhlökkun nú þegar fermingarfræðsla vetrarins fer í hönd. Amen.
sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun í messu við upphaf fermingarfræðslunnar að viðstöddum væntanlegum fermingarbörnum og foreldrum þeirra.