Það var kominn lífskraftur í svörðinn. Rauðu túlípanalaukarnir voru komnir upp úr moldinni. Einn var búinn að opna blómkrónuna. Rósirnar tvær undir veggnum byrjaðar að mynda nýjar greinar. Ég skar mítuna, biskupshattinn hana alveg niður við rót í von um að hún myndi taka við sér. Fjölæru blómin sem ég setti niður í beðið í fyrra voru byrjuð að blómgast. Krókusarnir kinkuðu kolli. Það var allt að taka á sig lit. ,,Öll veröldin vegsamar Drottinn”, hugsaði ég með mér þar sem ég var að róta í beðinu. Þarna var hann blessaður. Ég heyrði háværan dynk í fyrrasumar þegar fugl klessti á rúðuna. Ég gætti þá að honum en fann hann ekki vegna þess að hann hvarf ofan í þéttan gróðurinn. Milli steina lá útflattur þrastarhamur. Það var engu líkara en það hefði verið keyrt yfir hann. Það er margt sem leynist í moldinni sem er besta endurvinnsluvél sem hugsast getur. Anganin af moldinni var himnesk. Ég jarðsöng þröstinn undir söng þrastakórsins á trjákrónunum og suði vængja hunangsflugunnar sem sveimaði í kringum nefið á mér. Nærvera Grettis, sem malaði við fætur mína truflaði ekki samsönginn, öðru nær. Ofan úr háloftunum komu þrestirnir eins og orustuþotur og skræktu sem aldrei fyrr. Grettir haltraði undan en nágrannaköttur hafði slasað hann fyrr í vor. Ég færði mig síðan í annað beð, öllu stærra út við götu sem umlukið er háum aspartrjám og birkihríslum. Ég var laus við allt nema þrestina sem höfðu nú frekar hægt um sig á trjákrónunum. ,,Þetta er alltof stórt beð”, hugsaði ég með mér. ,,Ég ætti að láta þekja það að hluta eða öllu leyti og kæfa fjölæru plönturnar”. Ég fékk mig ekki til þess vegna þess að plönturnar vegsama skapara sinn. Ég lagðist á hnén, tók af mér vettlingana, og byrjaði að kraka í einum endanum í sveita míns andlits. Prestsfrúin færði mér kaffisopa, sennilega ánægð með myndarskapinn í mér. Ég varð óhreinni á fingrunum með hverri mínútunni sem leið. Moldin sótti svo undir neglurnar á mér. Ég horfði fram á heitt bað og sá fyrir mér naglabursta og naglaklippur. Þá sá ég glitta í krumpaðan skítugan blaðsnepil djúpt í laufbeði út við girðinguna. Ég náði taki á honum og dustaði moldina af honum. Það reyndist vera morknuð, rifin blaðsíða úr Barnablaðinu sem Hvítasunnuhreyfingin gefur út. Þar eru börn að skrifa blaðinu. Ég fletti síðunni við. Þar er saga sem heitir: ,,Ó hve einn tíeyringur getur orðið óbærilega þungur”. Ég veitti strax athygli grænum bakgrunni á neðsta hluta blaðsíðunnar. Ég rýndi í hann og las: ,,Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu. Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðorðum þínum. Ég geymi orð þín í hjarta mínu til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér. Lofaður sért þú Drottinn, kenn mér lög þín”. S.119. 9-16. Ég gladdist yfir því að hafa fundið Orðið í beðinu í hlýjum hnjúkaþeynum. Ég tók það til mín. Um kvöldið skóf ég undan nöglunum í heitu baðkarinu með naglaburstanum og klippti á mér neglurnar um leið og ég hugsaði um Orðið sem ég hafði fundið djúpt í laufbeðinu. Þá rann það upp fyrir mér að líkami minn mun hverfa til foldar en Orð Guðs er eilíft. Fyrir orð Jesú Krists á ég von um eilíft líf með Guði. Það er gjöf Guðs til mín og þín. Það er algjör snilld að taka Orð Guðs til sín í þingeyskum hnjúkaþey og varðveita það síðan í hjarta sér. Það yljar manni sannarlega um hjartaræturnar.