Mér finnst áhugavert að lifa. Það er mögnuð tilfinning að vakna morgun eftir morgun borða grautinn sinn og fá að vera með í þessari seigfljótandi hreyfingu sem lífið er. Bráðum verð ég fimmtugur og þótt það sé nú ekki hár aldur hef ég orðið vitni að mörgum merkilegum breytingum frá því ég fór að muna og greina. Það eru ekki tæknibreytingarnar eða tækifærin til þess að ferðast og menntast eða allt úrvalið í búðunum sem mestu varðar, stóra breytingin sem orðið hefur í mannlífi okkar held ég að liggi í afstöðunni til valdsins. Ef þú átt samtal við barn eða ungling í dag þá ertu undantekningarlítið að tala við upprétta manneskju sem gengur út frá því að eiga við þig jafningjasamskipti. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Nútíminn er uppréttur á einhvern máta sem ekki var áður. Taktu eftir því að það eru örfá ár frá því viss valdaembætti voru hafin yfir alla umræðu; forsetinn var ósnertanlegur, biskupinn heilagur, Hæstaréttardómarar upphafnir og fjarlægir. Svo fór þetta allt að riðlast. Einhver orð sem forsetinn lét falla í opinberri heimsókn í Kína voru skyndilega gagnrýnd, biskupsmál ultu fram í mannlífið, bornar voru brigður á pólitískt hlutleysi við val á Hæstaréttardómurum og almenningur sem undir niðri hafði alltaf trúað á hið föðurlega vald var sviptur trú sinni á nokkrum árum. Og enda þótt breytingar kosti átök og margvíslegan sársauka þá er ég þakklátur að fá að vera með í svona framvindu. Samtíminn er svo margfallt safaríkari en t.d. tími kaldastríðsins og kjarnorkuvárinnar þegar maður var barn.
Ég var ungur háskólanemi og gekk í síðum frakka með herðapúðum þegar Mikhail Gorbachev og Ronald Reagan funduðu í Höfða. Einhvern veginn finnst mér að þetta hafi allt verið að byrja þá. Eða var þetta að byrja þegar kvennafrídagurinn var haldinn þarna í október ’75? Þá var ég tólf ára í bláum anorakk, flauelsbuxum og ljósbrúnum leðurtrömpurum með hrágúmmísóla. Ég man þann dag og þrýstinginn sem fylgdi honum og hvað ég var gagntekinn af þessum sterku konum sem sungu „En þori ég, vil ég, get ég? Já, ég þori, get og vil!” Frá þeim degi hefur alltaf eitthvað hlegið inni í mér þegar hinu viðtekna valdi er ruggað. Ég man líka pabba minn með síða barta og mikið hár vera að sinna litla bróður til jafns við mömmu þetta haust en Árni bróðir var fárra mánaða. Pabbi hafði verið viðstaddur fæðingu hans en ekki okkar hinna bræðranna.
„Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.” sagði Jesús eitt sinn við vini sína og bætti við: „Eigi sé það svo ykkar á meðal.” Þegar ég les þessi orð hlær eitthvað inní mér með líkum hætti og þegar ég var 12 ára gamall á Lækjartorgi. Það er húmorísk afstaða í orðum Jesú, einhver afstæð sýn á valdið í heiminum sem einatt leitast við að gera sig algilt. En Jesús talar um þá sem teljist ráða og læðir inn þeirri spurningu hvar valdið liggi í raun? Sami húmor er svo á ferðinni þegar Jesús kemur ríðandi á asnanum í átt að múrum Jerúsalem á pálmasunnudegi. Konungur á asna er auðvitað í sjálfu sér einkar fyndin hugmynd og það hefur verið kitlandi stemmning sannkölluð gleðiganga þegar Jesús fór um og fólkið veifaði pálmagreinum syngjandi og þau bröttustu rifu sig úr yfirhöfnum sínum til að leggja á veginn þar sem Jesús fór. Og þegar fulltrúar ríkjandi ástands báðu Jesú að skipa fólkinu að þegja ansaði hann: „Ég segi ykkur, ef þessir þegja munu steinarnir hrópa.”
Valdið sem safnar sjálfu sér. Valdið sem fer í fýlu fái það ekki að vera algilt og fúlsar við öllu nema heimsyfirráðum, það er valdið sem Jesús stríðir. Sama valdi var ógnað á Lækjartorgi 24. október 1975, líka á leiðtogafundinum í Höfða 1986, líka þegar helstu valdaembætti landsins voru tekin niður af stalli sínum og krafin um samtal. Og manstu þegar við byrjuðum að sjá alla blekkinguna í kringum Íraksstríðið og áttuðum okkur á því að lýðræðislega kjörin vestræn yfirvöld geta bara blákalt logið upp í opið geðið á okkur og metið mannslíf að vettugi? Þá var eitthvað sem brotnaði innra með flestu hugsandi fólki.
Valdið sem safnar sjálfu sér afhjúpar sjálft sig ef það bara fær aðstæður til þess. Það er einhver ærleiki tengdur öllum yfirganginum, einhver óvænt þrá eftir afhjúpun, því á bak við alla valdbeitingu eru bara skelkaðar manneskjur sem skynja hið sanna. Vill einhver vera svo góður að stöðva mig, hrópar valdið um leið og það hræðir og lýgur. Atburðurinn á Golgata er m.a. um þetta. „Faðir, fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera.” mælti Jesús. Það er nú það. Þeir vita ekki hvað þeir gera. En svo gera þeir það samt, og við höfum trúað á óhjákvæmileikann. Ef eitthvað er hægt þá er það gert er dæmi um setningu sem hefur þótt gáfuleg í fermingarveislum og heitum pottum. Við höfum talið það óhjákvæmilegt að gera allt sem er hægt að gera af þeirri einu ástæðu að það er hægt, hvort sem það er á kostnað manns og náttúru eður ei. Og hlýtur ekki Guð svo bara að fyrirgefa allt, sé nógu mikil heimska á bak við það, nógu mikill skamtur af óhjákvæmileika og vilja til valda? Faðir, fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera!
Ég held ekki.
Ég held ekki að Guð fyrirgefi heimskuna og yfirganginn. Ég held að Jesús sé að hjálpa okkur til þess að skilja að það er ekki reiðin sem leysir heldur húmorinn. Þeir vita ekki hvað þeir gera. Þess vegna afhjúpast grimmdin og græðgin í heiminum því hún er heimsk og athyglisjúk og sér sjálf um að strípa sig því á bak við allt ranglæti eru skelkaðar manneskjur sem þrá að losna.
Ekkert tákn er fyndnara en krossinn. Krossinn þar sem Jesús var hengdur upp til háðungar svo að veraldarvaldið gæti hlegið sig máttlaust. Svo er það hann sem á endanum afhjúpar máttleysi valdsins.
Krossar Rómarveldis stóðu við þjóðbrautir svo almenningur gæti séð hvernig færi fyrir þeim sem styggðu alræðisvaldið. Þeir voru hrein og klár auglýsingaskilti svo allir mættu vita hver réði. En Jesús snéri skiltinu við. Hvar sem krossinn sést minnir hann á máttleysi valdsins.
„Það er fullkomnað” hrópaði Jesús út í myrkur föstudagsins langa áður en hann gaf upp andann og engum orðum hefur fylgt meira vald. Á þeirri stundu var verk frelsisins fullkomnað. Aldrei framar er hægt að taka yfirganginn gildan því Guðs sonur hefur í eitt skipti fyrir öll tekið hann á sig.
Svo stendur hann brosandi í morgunsól páskadagsins og biður okkur að skoða sárin sín: „Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur.” Þar mun verða farsæld okkar, að þekkja og virða sárin í lífi manns og náttúru.
Dag einn mun Lagarfljóti létta.