Það hefur verið fallegur siður um langa tíð, að alþingismenn með forseta Íslands, biskupi og presti ganga fylktu liði frá Alþingishúsinu til Dómkirkjunnar við þingsetningu á haustin og taka þar þátt í guðsþjónustu. Yfir þessum viðburði er reisn og virðing og felur í sér dýrmæt skilaboð, að hér býr þjóð sem byggir menningu og gildismat á kristnum grundvelli. Þjóðin vill horfa til Alþingis um fyrirmyndir þar sem lýðræðið og mannréttindin eiga að blómgast og geta verið stolt af þingmönnum sínum og hefðum sem um þinghaldið gilda.
En nú hefur það gerst, að fámennur hópur fólks hefur safnast að Alþingishúsinu við þingsetningu og vegið að þingmönnum með ofbeldi, hrópum og eggjakasti.
Í öllum siðuðum löndum gildir friðhelgi um kirkjufólk á leið til og í kirkju. Kirkjan er griðarstaður. En ekki á Íslandi við þingsetningu. Enginn þingmaður, svo mér er kunnugt, hefur enn safnað þreki og fordæmt ofbeldið, og hafa þó sumir risið upp með fordæmingum af minna tilefni. En láta sér nú í léttu rúmi liggja, að öðru leyti en því, að nú nota nokkrir þingmenn ofbeldið sem skálkaskjól til að komast hjá því að taka þátt í kirkjugöngunni, og leggja á flótta á kaffihús eða halda kyrru fyrir í Alþingishúsinu. Það væri meiri reisn yfir því að segja sig frá þingsætinu og leita sér að þægilegra starfi þar sem meira öryggi væri í boði. Með því að lúffa undan ofbeldinu er verið réttlæta slíkar aðgerðir, gefa skír skilaboð um, að ofbeldi hefur áhrif og er velþóknanlegt. Svo seytlar ofbeldið með vaxandi þunga um samfélagið og inn á heimilin. Það er von að virðing Alþingis sé í molum.Lágt er lagst í lýðskrumi og lágkúru.
Það væri áfall fyrir þjóðina, ef ekki er hægt að varðveita fallegan og gróinn sið við þingsetningu vegna dugleysis nokkurra alþingismanna sem ýta undir með afstöðu sinni að ofbeldi skuli ráða för. Einmitt þá, ber nauðsyn til að standa traustan vörð um hefð sem boðar mannúð og frið, réttlæti og ástúð, hin kristnu gildi sem kirkjuganga alþingismanna biður að megi ríkja í þjóðlífinu. Um leið staðfesta alþingismenn, að við tilheyrum samfélagi Norðurlandaþjóða sem byggt hefur farsæld sína á kjölfestu kristinna gilda.
Það er engin tilviljun, að á Norðurlöndunum, þar sem evangelískur og lútherskur siður festi dýpstu rætur, blómguðust mannréttindin svo eftir var tekið á heimsvísu. Engin þjóð hefur fundist á spjöldum sögunnar án trúar og ekkert mótar fremur gildismat og samfélagsviðhorf en trúarbörgðin og er svo enn. Með kirkjugöngu við þingsetningu eru alþingismenn ekki að tjá persónulega trú sína, heldur rækta fallegan sið af reisn og virðingu í fótsporum genginna kynslóða í fyrirbæn um blessun og frið fyrir störfin á Alþingi og farsæld fyrir þjóðina. Nú reynir á kjarkinn á Alþingi um að rækta virðingu sína fyrir þjóðina.