Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. Jh.14.15-21Yfirskrift predikunarinnar sem ég flyt ykkur á þessum degi er „tungutak trúarinnar“. Sú yfirskrift vísar sannarlega til þeirra atburða sem kristin kirkja minnist á þessum degi. Í dag er hátíðisdagur. Þar af leiðandi er þessi dagur sérstakur, hann er hafinn yfir hversdagsleikann og nýtur þannig talsverðrar sérstöðu eins og aðrir hátíðisdagar. Reyndar á hvítasunnudagurinn eins og flestir hátíðisdagar kirkjunnar rætur að rekja langt aftur til fortíðar.
Á tímum Gamla testamentisins fögnuðu bændur hinni árlegu hveitiuppskeru á þessum degi. Þetta var því fyrst og fremst dagur gleði og þakklætis. Á 2. öld fyrir Kristsburð var farið að miða þessa hátíð við tímatal þar sem árinu var skipt upp í sjö sjövikna tímabil. Hvítasunnudagurinn varð þannig fimmtugasti dagurinn eftir páska, samanber orðalagið: „þegar sjö vikur voru liðnar.“ Þetta tímatal byggist á þeirri sannfæringu að talan sjö hafi talsvert vægi í veruleikanum en hún táknaði jafnan fullkomleikann í forna tímanum. Á sama tíma breyttist innihald hátíðarinnar því nú tóku Gyðingar að tengja hana við atburðina á Sínaífjalli þar sem Guð opinberaðist og gerði sáttmála við þjóð sína eins og segir í 2. Mósebók. Gyðingar minntust uppstigningar Móse á fjallið þar sem Guð birtist honum og afhjúpaði leyndardóma.
Í frumkristni fær þessi dagur nýja merkingu af því að þá kom heilagur andi yfir lærisveina Jesú og til varð kristin kirkja. Þessum atburðum er lýst í pistli dagsins. Jesús hafði yfirgefið lærisveina sína og var stiginn upp til himins. Menn sem af ótta við mannfjöldann höfðu lokað sig af uppi á lofti gengu nú út á torg og stræti og töluðu djarflega um trúarreynslu sína. Og þeir töluðu þannig að fólk skildi þá. Þar voru framandi tungur engin hindrun, enda er boðskapur kirkjunnar skiljanlegur á hvaða tungumáli sem er. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess hversu mikil áhersla er lögð á hlutverk tungumálsins. Kristin trú snýst að verulegu leyti um það að nota orð, til dæmis í bæn og þökk, að miðla hugsun, færa rök, kalla á viðbrögð, sannfæra, upplýsa, hvetja og uppörva. Hún er því á vissan hátt bundin möguleikum tungumálsins til að tjá og miðla og endurspegla þann veruleika sem hún vísar til. Það gæti verið ytri veruleiki en ekkert síður innri veruleiki. En tungumálið er einnig notað til að hafa áhrif á heiminn og breyta honum. Mjög margir textar Biblíunnar hafa verið notaðir til þess.
Í pistli dagsins birtist meðal annars tvennt sem vert er að draga fram: Annars vegar felur hvítasunnudagurinn í sér opinberunarstef. Guð mætir manneskjunni í heilögum anda með því að blása þrótti og lífsanda í hjörtu þeirra sem trúa. Hins vegar felur gjöf heilags anda í sér trúarreynslu sem mótar alla þá sem fyrir henni verða. Þessi tvö áhersluatriði kristinnar trúar hafa verið viðfangsefni guðfræðinnar allar götur síðan. Jafnvel má segja að saga guðfræðinnar sé sagan af því hvort þessara atriða var í brennidepli á hverjum tíma: Opinberunarstefið eða trúarreynslan. Fyrra atriðið snýst um guðfræðileg rök fyrir mannlegri tilveru. Trúarreynslan á hinn bóginn færir tilvistarrök fyrir guðlegum veruleika. Slík reynsla getur verið persónuleg og einstaklingsbundin, en hún er að vissu marki eign kristinnar kirkju sem heild. Lærisveinar Jesú voru allir samankomnir á hinum fyrsta kristna hvítasunnudegi. Á sama hátt erum við samankomin í Þingvallakirkju í dag í trausti þess að helgur andi snerti okkur öll. Um leið er þetta kærkomið tækifæri til að þakka fyrir gjöf hvítasunnudagsins.
Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ Hlutverk heilags anda er því að upplýsa áheyrendur sína um Jesú og minna þá á í hverju boðskapur hans er fólginn. Andanum fylgir kraftur, nýtt afl sem gefur djörfung. Heilagur andi brýtur upp stöðnuð trúarstef og endurnýjar hefðir sem allt of margir upplifa fremur sem þungar byrðar en endurlausn. Á sama tíma minnir hann okkur á grundvöll og forsendu kirkjunnar sem er Jesús Kristur, krossfestur, dáinn, grafinn og upprisinn. Hjálparinn er jafnframt sendur til að gefa okkur nýja sýn á eðli trúarinnar. Allur heimurinn fær nýja merkingu í ljósi kristinnar trúar. Hún er sá mælikvarði á gæði heimsins sem skipt getur sköpum um líf og afkomu mannkynsins.
Jesús segir: „Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur!“ Þessi orð gefa til kynna að til séu gæði af tvennu tagi. Annars vegar gæði heimsins, það er gæði sem hægt er að kaupa. Sjaldan hefur verið jafnvinsælt að versla með lífsgæði og í okkar samtíð. Í öllu falli eru lögmál framboðs og eftirspurnar orðin sá mælikvarði á lífshamingjuna sem mest er fjallað um í íslensku samfélagi. Hins vegar talar Jesús um aðra tegund lífsgæða: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður!“ Þetta er gjöf Krists til heimsins. Friðurinn sem hann gefur er svarið við ráðgátu lífsins. Hann er lausn á vanda mannsins: „Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist!“ Friður Krists gefur sérhverju mannlegu hjarta öryggi og traust. Líf kristins manns mótast þess vegna ekki af merkingarleysu og tilgangsleysi. Kristinn einstaklingur lifir og deyr í Jesú nafni eins og Hallgrímur Pétursson bendir á í kveðskap sínum. Jafnvel dauðinn hindrar ekki möguleika lífsins þar sem Kristur á í hlut.
Sjálfsagt er okkur öllum ljóst að kristin trú snýst að verulegu leyti um samband Guðs og manns. Samkvæmt vitnisburði Biblíunnar var heimurinn frá upphafi sköpun Guðs. Guð hefur alla tíð látið sér annt um sköpunarverk sitt. Maðurinn á tiltekinn sess í sköpuninni, reyndar er staða hans skýr samkvæmt ritningunum. Vandamálið er að manneskjan þekkir ekki stöðu sína, hún hefur misst sjónar á uppruna sínum og skortir hæfileikann til að greina guðlegt frá hinu mannlega. Í Jóhannesarguðspjalli er sú firring kölluð blinda. En þar segir jafnframt að svo hafi Guð elskað heiminn að hann gaf son sinn, eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Þetta er í samræmi við boðskap Jóels spámanns þegar hann segir: „Hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.“ Þess vegna hlýtur það að vera höfuðviðfangsefni kristinnar kirkju að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist á hverjum tíma og koma þannig í veg fyrir að fólk glatist í firringunni.
Jesús segir ennfremur: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð!“ Þetta eru skýrar línur. Eitt sinn var sagt: Sá sem trúir á Krist dregur dám af Kristi. Á sama hátt dregur sá dám af stokkum sem á stokka trúir. Og sá sem trúir á steina dregur dám af þeim. Og um þá sem gera peninga að trúarbrögðum í lífi sínu gildir vafalaust hið fornkveðna: Margur verður af aurum api! Íslensk kirkja vill líkjast Kristi og ganga í fótspor meistarans, ekki til þess að Þjóðkirkjan sem stofnun verði endilega öflugri en hún er, heldur til þess að hjálpræði Krists nái fram að ganga í sérhverju hjarta sem slær á íslenskri grund. Þannig verða áhrif trúarinnar og heilags anda greinilegri í samtímanum.