Náð sé með yður og friður!
Það er með hreinum ólíkindum hvað Íslendingum hefur tekist að spila illa úr komu sinni hingað til lands. Þeir sem fluttu hingað voru þeir sem ekki gátu sætt sig við breytta tíma – vildu áfram fá að vera sjálfstæðir smáhöfðingjar í stöðugum innbyrðis bardögum, sitjandi á stöðugum svikráðum hver við annan. En Ísland varð aldrei fyrirmyndarríki þeirra, frelsisunnandi manna, útlaga, sem ekki gátu sætt sig sameinaðan Noreg. Þjóðfélagsþróunin í Noregi líkt og öðrum löndum álfunnar var á þessum tíma í áttina til stærri og skipulagðari ríkja, áttina til þess sem varð og er í dag. Okkar menn viku sér undan þróuninni. Flúðu til fjarlærgrar eyjar og héldu sínum upptekna hætti, börðust innbyrðis á meðan bókmenntafólkið skapaði ódauðleg listaverk um þessa hegðun. Þetta ástand gekk ekki lengi og eftir nokkra mannsaldra var þetta fólk komið undir Noregskonung, síðar Dani, það kólnaði. Menn höfðu eytt birkiskógum. Fólk hírðist hér við illan kost í sjö hundruð ár, framtakslaust, forystulaust, alið var á andúð í garð Dana og annarra útlendinga. Þjóðin varð bláfátæk. Auðlindin í sjónum lá ónotuð svo og verksvit og samtakamáttur, hörmulegt tímabil í sögu þjóðar sem var fátækust þjóða í Evrópu öldum saman.
Vondir útlendingar Sjálfstæð í miðju stríði sem hún græddi á. Flutti úr örbirgð og framtaksleysi sveitanna. Þjóðin varð rík en kunni ekki fótum sínum forráð. Eins og með flestum litlum þjóðum náðu tiltölulega þröngar klíkur völdum, mótuðust í hermanginu, og héldu þeim þar til oflátungsháttur og uppskafningsháttur skilaði sér í allsherjar hruni og enn er hver höndin upp á móti annarri, engin samstaða um neitt, bak við tjöldin er nánast blóðug barátta um auð og völd og líkt og í allri sögu þjóðarinnar gengur þeim einna best sem tala illa um vonda útlendinga. Við kusum ríkisstjórn til þess að hafa forystu um leiðina upp úr hruninu. Á öllum vígstöðvum er reynt að bregða fæti fyrir málatilbúnað hennar. Rétt kjörin yfirvöld eru töluð niður af varnvirðingu af jakkaklæddum hagsmunagæslumönnum. Þjóðin, í raun og veru nýkomin úr torfkofunum, hefur ekki hugmynd um það hvað snýr upp og hvað niður en er á góðri leið með því að tefla frá sér góðri framtíð.
Allt logar í innbyrðis átökum Og hvað kemur þetta upprisufrásögunni við. Ekkert sérstaklega en þó algjörlega. Kristinn boðskapur á erindi inn í allar aðstæður. Fagnaðaerindi JK tekur til mannsins alls. Þannig eiga lýðræðishugmyndir rót í því að allir séu skapaðir jafnir. Jafnaðarhugsjónin sömuleiðis. Að þjóðfélag sé réttlátt er því kristið mál. Kirkjan hefur nú um stundir áhyggjur af íslensku samfélagi. Biskupinn segir nú á páskum 2011 að hér logi allt í innbyrðis átökum, tortryggni og sundurlyndi og allir vita að það er alveg rétt. Ríkisstjórn landsins er töluð niður, daglega. Konan sem veitir henni forstöðu vanvirt í orðræðu, stöðugt pönkast á henni. Ekkert er til sem heitir klapp á bakið. Við högum okkur ekki eins og lið þar sem menn peppa hvern annann upp og stefna er að sama marki, frekar má líkja okkur við úlfahjörð urrandi, bítandi, nagandi. Sundurlyndisfjandinn gengur laus. Sameiginlegt markmið þjóðarinnar er ekkert – hér reynir hver sem betur getur að skara eld að eigin köku og ytri ramminn veitir enga vernd. Þú átt hlut í íbúð í dag en ekki á morgun. Bíllinn sem þú ætlaðir að kaupa er helmingi dýrari í dag en í gær, kaupið þitt minna virði. Það eru komnar biðraðir við staði sem úthluta mat. Á meðan ganga sumir í skóm sem kosta 3000 dollara og eiga mörg slík pör inní skáp.
Hvers vegna sveltur fólk hér? Nú er okkur ýmislegt gott í blóð borið. Eiginleikar sem kirkjan vill fóstra og næra eru áberandi í fari okkar. Hlýja, mannkærleikur, góðsemi, samlíðan eru þættir í fari okkar sem dags daglega skora hátt og eru meira áberandi hjá flestum, oftast, en græði, tillitsleysi og eiginhagsmunasemi. En það er eins og okkur takist ekki að nýta þessa allskostar þessa eiginleika þegar kemur að samfélaginu sem slíku. Það er eins og þessir eðlisgóðu kostir séu fyrst og fremst fyrir almúgann og megi helst ekki tala um þá nema á sunnudögum og þá í orðflúri sem sneiðir hjá nokkurrri skírskotun sem gæti komið þeim illa sem eru hafa komið sér fyrir sólarmegin í tilverunni. Kirkjan er kerfisbundið skömmuð ef hún fer of mikið að tala um misskiptingu, fátækt – ef hún fer að skipta sér af pólitík eins og það er kallað. Og pólitík kirkjunnar hefur því miður oftast verið að liggja lágt. Syrgja með syrgjendum, vitja þeirra sem hafa misst allt sitt, býsnast í hófi yfir misskiptingu og óréttlæti og þá helst á heimsvísu en spyrja ekki alvöruspurninga nema þámjög kurteislega: Spurninga eins og: Hvers vegna sveltur fólk hér? Hvers vegna öll þessi fátækt? Hvers vegna þarf fólk að vinna frá morgni til kvölds fyrir smánarupphæð? Hvers vegna þurfa ungar konur og gamlar, þreyttar og slitnar konur að standa í tíu tíma á dag á hörðu gólfi oft í kulda fyrir laun sem duga ekki til framfærslu á meðan aðrir ganga í 3000 dollara skóm og eiga mörg slík pör inn í skáp?
Samtakamátturinn Brimið hérna fyrir utan Strandarkirkju hefur undanfarið verið með líkum hætti og var þegar þeir komu hér drengirnir sem byggðu kirkjuna...............................þeir voru sannfærðir um að þeir væru að farast úti í brimgarðinum.....sáu ljósið.....................og réru að því allir sem einn. Þeir réru ekki í sitt hvora áttina...........þeir efuðust ekki um forystu þess sem kjörinn hafði verið til að stjórna skipinu..........þeir fóru ekki að rífast....þeir stefndu að sama marki og þegar birti að morgni sáu þeir að samtakamátturinn hafði fleytt þeim í gegnum örmjóa rennu gegnum breiðan brimgarð og þeir þökkuðu Guði og reistu kirkju.
Rótast um á hægri þóftunni Íslenska þjóðin, öll á bátnum, hefði farist við þessar aðstæður. Svo mikið er víst. Við stefnum ekki á neitt ljós. Ef Jóhanna, sem var þó kjörin til að stjórna, og hlýtur að samlíkjast hinum forna formanni, bendir á ljós gellur við í öðrum. Þetta er villuljós. Stefnum frá því hrópar annar í gegnum brimgnýinn. Menn hefðu lagst á árar í allar áttir. Sérstaklega hefðu þeir látið illa sem voru á vakt þegar báturinn lenti í þessum ógöngum. Þeir hefðu rótast um á hægri þóftunni og nánast tryggt að í enga átt væri haldið. Ekki þarf að efast um afdrif bátsins. Þeim sem minnst mega sín Við munum auðvitað sem þjóð lifa eitthvað áfram en öll þessi óeining, þetta samstöðuleysi mun bitna á okkur og þá mest þeim sem minnst mega sín meðal vor. Mál er að linni. Dýrð sé Guði....