„Finnst þér að það eigi að banna búrkur á Íslandi?“ Svo spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra á dögunum. Spurningin minnir okkur á djúpstætt þrætuepli í mörgum löndum í kringum okkur, þar sem takast á ólík sjónarmið tengd mannréttindum, svo sem trúfrelsi, tjáningarfrelsi og kvenfrelsi.
Bann við búrkum hefur verið innleitt eða rætt í nokkrum nágrannalöndum okkar. Innleiðing bannsins hefur verið á ólíkum forsendum. Búrkan var bönnuð í frönskum skólum árið 2004. Þar var hún þá séð sem trúartákn og lögð af jöfnu við önnur slík tákn, s.s. krossinn, sem höfðu verið bönnuð í skólunum um áratuga skeið. Fyrr á þessu ári var samþykkt opinbert búrkubann í Frakklandi. Það á að taka gildi næsta vor. Rökin fyrir því banni eru sótt í kvenfrelsi og mannréttindi. Í Belgíu og á Ítalíu er bannað að klæðast fötum sem hylja andlitið opinberlega.
Þorgerður Katrín segir í samtali við Pressuna að hún vilji stuðla að forvirkum umræðum með fyrirspurn sinni. En hún tekur líka fram að hún hafi gert upp hug sinn og vilji banna búrkuna: „Mér finnst hún ekki samræmast þeim grundvelli sem íslensk þjóð byggir á og hefur byggt á um aldir. Ég segi þetta með tilliti til menningar okkar, kristinnar trúar og ekki síst kvenfrelsis.“
Íslenskt samfélag við upphaf 21. aldar er fjölmenningarsamfélag. Fjölmenningarsamfélög byggja á virðingu. Þetta orða Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason vel í Pressupistli í dag:
„Fjölmenningarsamfélag verður að byggja á virðingu fyrir þeim sem skera sig úr. Umburðarlyndi nægir ekki. Það er ekki nóg að við umberum þau sem falla ekki undir staðalmynd hins íslenska borgara. Við verðum að virða þau sem jafningja og læra að meta það sem þau vilja og geta lagt til samfélags okkar. Virðing en ekki umburðarlyndi er lykillinn að góðu og öruggu samfélagi þar sem margbreytileiki nýtur sín og auðgar samfélagið.“
Við skulum ekki ganga út frá því kristin trú og menning knýi okkur til að banna trúar- og menningartákn sem koma annars staðar frá. Höfum það hugfast þegar við ræðum um búrkuna og önnur trúar- og menningartákn í opinberu rými. Stillum okkur ekki upp við hliðina á sjónarmiðum sem ganga út frá óttanum við „hina“.
Látum frekar virðingu fyrir manneskjunni, jafnrétti og náungakærleika stjórna samtalinu og þar með útkomunni.
Umræður um pistilinn fara einnig fram á bloggi Árna og Kristínar.