Matthías Jochumsson

Matthías Jochumsson

Tími Matta er kominn! Þórunn E. Valdimarsdóttir hefur skrifað stórbók um Matthías Jochumsson. Hann var risi í menningarlífi Íslendinga, skemmtilega frakkur guðfræðingur og eitt besta sálmaskáld þjóðarinnar bæði fyrr og síðar.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
11. nóvember 2006

Tími Matta er kominn! Þórunn E. Valdimarsdóttir hefur skrifað stórbók um Matthías Jochumsson. Hann var risi í menningarlífi Íslendinga, skemmtilega frakkur guðfræðingur og eitt besta sálmaskáld þjóðarinnar bæði fyrr og síðar.

Opin kvika

Matthías Jochumsson var samsettur maður og hugðarefnin voru því fjölbreytileg. Af bréfum og bókum hans má vel sjá hvílíkur lestrarforkur hann var. Hann bókstaflega reif í sig það, sem hann náði í og skrifaði síðan um stefnurnar, hugmyndirnar og bækurnar. Hann var afar hrifnæmur og hreifst af hverjum nýjum kenningavindi, sem honum barst. Þótt Matthías væri nýjungagjarn sagðist hann þó lesa eins og hann væri að lesa Sturlungu, taka það gott og gilt, sem honum þótti skynsamlegt! En eigið sjálfsmat getur blekkt, ekki síst ef skaphöfnin er ólgukennd. Líklega hefur blaðamaðurinn og fagurkerinn í Matthíasi verið öflugri en greinandi kerfissmiðurinn.

Guðfræðibyltur

Matthías var farvegur erlendra strauma í guðfræði. Hann var byltingamaður í flestum greinum mannvísinda og sérlega mikilvægur íslenskri kristni því hann vakti athygli landa sinna og þ.m.t kirkjumanna á þeim vatnaskilum, sem urðu með vísindahugsun nítjándu aldarinnar. Í ritum hans birtist sígruflandi hugur, sem ekki festi andans trúss við neina kreddu og kenningu. Matthías dró sjálfur saman eigin trúarstefnu og skoðanamyndun:

...minn idealismus, minn individualismus og minn subjectivismus þolir engar kreddur eða mannlegar doctriner; þess vegna átti ég aldrei þjóðkirkjuklerkur - og kannske alls enginn - klerkur að vera.
Þannig leit hann á og segir talsvert um stöðu þjóðkirkju fyrir liðlega hundrað árum. Þjóðkirkjan er hins vegar orðin, m.a. fyrir tilstilli Matthíasar, rúmgóð og þolgóð kirkja, sem hvetur til fjölbreytileika og víðfeðmi.

Uppvöxtur

Matthías Jochumsson fæddist í Skógum í Þorskafirði 11. nóvember 1835 og lést 18. nóvember árið 1920. Bernskuheimilið virðist hafa verið fjörmikill vettvangur andans. Þar var ákaft rætt um hræringar tímans og meðal annars um trúmál. Virðast foreldrar Matthíasar ekki hafa veigrað sér við að skoða annarlegar kenningar. Matthías vandist því þegar í foreldrahúsum umræðum um trúmál. Hann var sendur til starfa og náms í menningar- og verslunarmiðstöðinni í Flatey. Liðlega tvítugur fór hann utan og var einn vetur í Kaupmannahöfn (1856-57). Settist hann síðan í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 1863. Tveimur árum síðar lauk hann prófi frá Prestaskólanum, þá tæplega þrítugur.

Matti í Móum

Matthías var vel lesinn og hafði þegar tekið út nokkurn þroska áður en hann hóf nám. Var hann því sjálfstæður í skóla og fór eigin leiðir, svo sem sjá má í fjörlegri sjálfsævisögu hans Sögukaflar af sjálfum mér. Matthíasi var veitt Kjalarnesþing í ágúst 1866 og vígðist í maí 1867. Bjó hann í Móum og kallaði sig gjarnan Matta í Móum í bréfum á þessum tíma.

Dauðsföll og dramatík Matthías var þríkvæntur. Elín Sigríður Didrichsdóttir lést annan jóladag 1868 eftir aðeins þriggja ára sambúð þeirra. Enn skemmri var sambúð hans með Ingveldi Ólafsdóttur, sem hann kvæntist í júlí 1870. Lést hún tæpu ári síðar í júní 1871. Gekk kvennamissirinn mjög nærri hinum geð- og tilfinningaríka Matthíasi. Festi hann ekki yndi við prestsskapinn og lagðist í útlandaflakk. Fór hann um Danmörk og Noreg 1872-73 og var í Englandi 1873-74. Í þessum ferðum kynntist hann mörgum andans jöfrum og peningamönnum. Var hann styrktur af enskum unitörum til að kaupa Þjóðólf og ritstýrði honum frá 1874-80. Vænkaðist og hagur hans í einkamálum.

Í júlí 1875 kvæntist hann Guðrúnu Runólfsdóttur og nutu þau samvista í 45 ár. Lifði Guðrún mann sinn. Þau eignuðust tíu börn! Matthías var prestur í Odda á árunum 1880-86 og síðan á Akureyri 1886-99. Bjó hann nyrðra til dauðadags og er heimili þeirra hjóna, Sigurhæðir, varðveitt sem minjasafn.

Skáldskapur og ritstörf

Kunnastur er Matthías Jochumsson fyrir ritstörf sín. Eftir hann liggur gífurlegt magn af greinum, ljóðum, sálmum, þýðingum og öðru frumsömdu efni. Sálminn "Ó, Guð vors lands..." samdi hann vegna hátíðahaldanna 1874. Varð sálmurinn síðan þjóðsöngur Íslendinga.

Unitaraguðfræði

Þótt Matthías væri hverflyndur í trúarkenningum og menningarmálum, er þó kenningaslóði, sem hægt er að greina, í flestum ritverkum hans. Áberandi er, að Matthías virðist hafa aðhyllst ýmsar hugmyndir ameríska unitarans Channing. Matthías hafði þó aldrei þolinmæði til að fjalla skipulega um trúfræði eða samræma hugmyndir sínar. Þær voru í sífelldri mótun. Ritgerðir hans voru sem sjálfstæð myndverk en ekki hluti heildar. Skáldið var sífellt að skapa eindir en ekki endanlegan heim heildar.

Matthías gerði skynsemi manna hátt undir höfði. Eins og margir guðfræðingar um aldamótin 1900 greindi hann skarplega að trú og kenningu. Kenningakerfi vildi hann fyrst og fremst nálgast með hjálp skynseminnar. Þótt Matthías væri ávallt hinn heitasti trúmaður vildi hann lesa Biblíuna fyrst og fremst með hjálp vitsmuna.

Guðsmynd Mattíasar

Þær hugmyndir, sem Matthías gerði sér um Guð, eru í anda rómantísku stefnunnar. Guð, sem hann tilbað, var Guð jafnvægis, en jafnframt skapandi Guð, sem kallað hefur fram allan heim. Matthías trúði því, að Guð væri alls staðar að starfi. Ekki áleit hann, að Guð væri sama og heimur, þ.e. algyðistrúar (panteismi). Hann var fremur pan-en-teisti. Það merkir, að Matthías lagði áherslu á, að Guð sé með ákveðnu móti í heiminum. Allt efni, frá hinu smæsta ódeili til hinna stóru stjörnukerfa, taldi hann gegnsýrt veru Guðs. Þessi guðsívera einkennist af lífi, ljósi og kærleika. Mönnum er auðið að njóta þessarar návistar eða sljóvga hana og kæfa. Okkur er í sjálfsvald sett, hvort við leyfum guðsstarfinu að vinna gott eða hvort við drepum það í dróma.

Matthías virðist ekki hafa efast um, að Guð væri algóður og réttlátur. Hins vegar átti hann erfiðara með að viðurkenna réttmæti þeirrar kenningar, að Guð væri þríeinn. Hann trúði á Guð föður, en síður á Guð í þremur hlutverkum, í mynd föður, sonar og anda. Guð hans var faðir lífs, máttugur kraftur, sem kallar líf úr dauða, bregður ljósi upp í myrkri, útdeilir gæsku í kröppum kjörum og leiðir með umburðarlyndi breisk börn sín til þroska og visku.

Doktor Jesús Kristur

Kristsdýrkun Matthíasar var ávallt mikil. Svo er að skilja á sumu því sem hann skrifar, að Jesús Kristur hafi verið lítt meira en maður. Aldrei virðist hann þó hafa efast um, að Jesús hefði mjög mikilvægu hlutverki að gegna í mannheimi sem fulltrúi Guðs, siðferðisviðmiðun, lærimeistari og fullkominn maður. Hann talaði jafnvel um hann, sem doktor Jesú Krist! Eftir því sem árin færðust yfir Matthías óx Kristsdýrkun hans þó hann tæki ekki beinlínis fræðilegum afleiðingum af tilbeiðslu sinni.

Höfuðlausnir og möguleikar

Eins og margir unitarar og rómantískir hugsuðir á nítjándu öld hafði Matthías mikla trú á möguleikum manna til sigra í heimi andans. Hann trúði á siðferðilegar framfarir manna. Hann taldi, að mannkyn væri á þroskabraut. Hann tók mjög nærri sér böl, vonsku og hörmungar, bæði í einkalífi og preststarfi. Fátt var honum erfiðara viðfangs en dauði ungmenna. Eitt erfiðasta verkið í lífinu þótti honum að tilkynna ekkju lát sona hennar. Oft rugluðu tilfinngarnar hann og hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Trúarlíf hans var líkara stríðum straumi og ólgandi hafi en lygnum sæ. Margir sálmar hans urðu til við sorgarglímu og voru n.k. höfuðlausnir. Sér og öðrum til hugarhægðar talaði Matthías um mannkyn í anda dæmisögu Jesú um glataða soninn. Hann taldi, að skuld manna væri stór við höfund lífsins og að allt væri að láni; heilsa, líf, gáfur og gæði. Gegn hinum myrku þáttum mannlífs barðist hann, en vildi samt ekki gera of mikið úr þeim.

Allir með

Í ljósi skynsemisáherslu og bjartsýnnar heimsskoðunar hafnaði Matthías fornum kenningum um útskúfun og glötun. Lenti hann í stælum um þau atriði frá og með 1891 og varð hann að draga í land, sjálfsagt gegn betri vitund. Biskup bað Matthías, sem þá var þjónandi prestur, að taka orð sín aftur um ógildi útskúfunarkenningarinnar. Almannrómur taldi, að ef hann hefði ekki beðist velvirðingar á skrifum sínum, hefði hann verið sviptur hempunni. Svo mun þó ekki hafa verið.

Guð getur

Skáldpresturinn fetaði eigin stigu. Þrátt fyrir bölið í heiminum hélt Matthías fast í trúna á góðan Guð. Hann möglaði við Guð og menn og leysti ekki með vitsmunum, fremur en aðrir, gátuna miklu um eðli þjáningarinnar. En Matthías átti sér lausnarleið. Hann skaut gjarnan þungbærum þrautum og torráðnum gátum til Guðs, sem hann treysti fyrir leyndustu hörmum og taldi Guð eiga ráðsnilld gagnvart hvers kyns vanda.

Þegar líf, ljóð og skrif Matthíasar eru skoðuð blasir við glíma trúmannsins við Guð. Ritverk hans eru flott, en mesta gildi Matthíasar er hvernig hann túlkar þau fangbrögð. Kreddur og kerfi vöfðust aldrei fyrir honum hvernig sem í hann var rifið hið innra eða ytra. Þótt allt brysti hvarf honum aldrei samfylgd hins guðlega. Það heitir trú á máli kristninnar. Matthías er ekki mesti trúarhugsuður Íslendinga en eitt besta trúarskáld okkar.