Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta.
Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.
Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúkas 14.16-24
Biðjum saman með orðum sálmaskáldsins: Vertu Guð, faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. Amen.
Kæri söfnuður, Í dag langar mig að tala við ykkur um afsakanir. Í guðspjalli dagsins er að finna þrjár afsakanir. Þær eru gefnar fyrir síðbúinni afboðun í veislu, en boðið hafði verið þegið áður. Það má hafa í huga í þessu sambandi að það var önnur nálgun við veisluhald í Palestínu á dögum Jesú. Gestum var boðið til veislu á tilteknum degi, en enginn sérstakur tími var nefndur. Á tilsettum degi voru þjónar sendir út að sækja þá sem þekkst höfðu boðið. Það var mikil móðgun að neita boði sem þú hafðir áður þekkst. Ástæðan þurfti því að vera góð.
Í guðspjallinu segir um afsakanirnar:
Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.
Akur, akneyti og eiginkona. Það eru afsakanirnar þrjár.
Fyrsta afsökunin snertir vinnu eða viðskipti. Við getum verið svo upptekin af þeim hluta tilverunnar að við gefum okkur ekki tíma fyrir neitt annað (ekki fyrir fólkið í kringum okkur og ekki fyrir Guð).
Önnur afsökunin snertir í raun nýjungagirni. Annar maðurinn er svo uppnuminn yfir því sem hann hefur eignast að hann gefur sér ekki tíma fyrir annað. Hættan við óhóflega nýjungagirni er kannski ekki síst það sem við myndum kalla neysluhyggju. Það er vissulega gaman að eignast nýja hluti, en við þurfum líka að kunna að njóta þess sem við höfum og vera okkur meðvituð um að hluturinn sem slíkur er ekki markmið í sjálfu sér. Kannski þekkjum við dæmi um þetta úr eigin lífi.
Þriðja afsökunin snertir fjölskylduna. Kannski þekkjum við líka dæmi um fólk sem verður svo uppnumið hvert af öðru eða af fjölskyldu sinni að ekkert annað kemst að? Víst er það svo að í okkar samfélagi mættu margir gefa sig meira að fjölskyldunni, gefa henni meiri tíma. En hitt er líka til að fólk einangrist, eigi lítil samskipti við aðra og þiggi litla sem enga næringu til samskiptanna utan frá.
Þetta þrennt, vinnan, fjölskyldan og ánægjan af því sem við höfum eignast, er í sjálfu sér jákvætt og gott. Og að lútherskum skilningi erum við kölluð til fjölskyldulífs og til opinbers lífs, við höfum skyldum að gegna sem mæður og feður, börn, systur og bræður – og sem verkamenn (ef svo má að orði komast). Seint verður sagt að það sé eitthvað sem við eigum að forðast. Slíkt má ekki lesa út úr guðspjallstexta dagsins. Þvert á móti eigum við að gleðjast yfir því. En eins og öðrum sviðum tilverunnar þurfum við að setja því mörk. Vinnan má ekki taka yfir, ekki heldur fjölskyldan. Og allt á þetta að vera í samhengi trúarinnar á Guð.
Mig langar í þessu sambandi að taka skoða sérstaklega af því sem ég held að brenni mjög á mörgum í dag: Vinnuna.
Ágætt dæmi um það hvernig vinnan getur orðið vandamál er að finna í nýlega kvikmynd sem sýnd er í kvikmyndahúsum um þessar mundir. Myndin heitir Keeping Mum og er hin ágætasta gamanmynd. Hún skartar Rowan Atkinson, Kristin Scott Thomas og Maggie Smith í aðalhlutverkum, allt prýðisleikurum.
Keeping Mum segir frá presti einum – Walter Goodfellow - og fjölskyldu hans í söfnuði Little Wallop á Englandi. Presturinn lifir fyrir vinnuna og fátt annað kemst að. Ný ráðskona kemur á heimilið, Grace að nafni (hér má hafa í huga að orðið grace merkir náð) og sitthvað breytist. Við fáum innsýn í vinnufíknina og vandamál prestsins eftir því sem líður á myndina, sjáum að klerkur virðist frekar firrtur frá fjölskyldunni og í raun lítið hamingjusamur. Vandinn kristallast kannski í samtali Gloriu eiginkonu hans og ráðskonunnar Grace um miðbik myndarinnar þegar eiginkonan kvartar yfir því að klerkur sé svo leiðinlegur. Hún spyr: „Hvernig stendur á því að þegar þeir loksins finna Guð glata þeir skopskyninu? “ Fleira hefur glatast og í raun er allt samlífi hjónanna í uppnámi, þau tala ekki saman, njótast ekki, eru í raun ekki saman – þótt þau búi saman.
Smátt og smátt sjáum þó breytingu verða á klerkinum. Hann er beðinn að flytja upphafserindi á stórri ráðstefnu presta og gerir það með glæsibrag. Og honum tekst meira að segja að vera nokkuð fyndinn (hann er jú leikinn af Rowan Atkinson). En svo kemur stóra umbreytingin eftir ráðstefnuna. Hann kemur heim áður en til stóð og segir þá við konu sína glaður í bragði: „Ég flutti erindið mitt og það gekk býsna vel, þeir hlógu meira að segja. En veistu hvað kom mér mest á óvart? Það var tilfinningin sem ég hafði eftir á. Allir lofuðu mig fyrir erindið og það væri jú það sem ég sæktist eftir venjulega. En veistu hvað var mér efst í huga?“ Það var spurningin: „Hvers vegna er ég hér? ... Þegar það sem skiptir mig mestu máli er heima?“
Þessi breyting á góðmenninu Walter er í raun orðin fyrir tilstilli inngrips Grace. Það er hún sem segir prestinum til syndanna á afar góðlátlegan hátt. Hún ræðir um það hvernig Biblían er full af húmor þegar presturinn þykir leiðinlegur og hún bendir honum á Ljóðaljóðin þegar taka þarf á samlífi hjónanna. Hún verður sem eins konar náðarengill, sendur til að varðveita og leiða og stýra áfram. Og henni tekst það vel, þótt hún sé ekki algóð sjálf og sumar aðferðirnar sem hún beitir geti talist vafasamar.
Myndin Keeping Mom er í raun gamansöm dæmisaga um samspil fjölskyldulífs og vinnu, en hún fjallar líka um náðina og um forsjón Guðs. Og hún minnir okkur á hætturnar sem felast í því þegar vinnan tekur tilveruna yfir.
Kæri söfnuður. Dæmisagan í guðspjallslestri dagsins er hluti af umfjöllun um himnaríki, umfjöllun um samfélagið við Guð. Gestgjafinn sem býður til veislunnar stendur fyrir Guð, gestirnir standa fyrir ólíka hópa sem er boðið til þessa samfélags. Þeim sem er boðið fyrst standa fyrir Gyðinga, hina útvöldu þjóð. Þeir sem koma svo á endanum í boðið standa fyrir aðra hópa – hópa sem í upphafi voru kannski ekki taldir eiga möguleika á himnaríkisvist.
Við sjáum að sumir velja sig frá þessu samfélagi og við fáum dæmi um það hvernig slíkt gengur fyrir sig. Heyrum afsakanirnar. Sjáum okkur sjálf kannski í þeim. Sá sem er of upptekinn af vinnu, af fjölskyldu, af efnislegum hlutum getur lent í þeirri stöðu – meðvitað eða ómeðvitað – að velja sig frá Guði. Um leið er hann líka að velja sig frá öðrum þáttum mannlegrar tilveru eins og dæmi hér að framan sýndi. Hið góða líf einkennist af jafnvægi. Jafnvægi vinnu og fjölskyldu, opinbers lífs og einkalífs – og allt í þágu Guðs.
Boðskapur dagsins og áminning guðspjalls lýtur einmitt að þessu. Allir eru velkomnir í samfélag Guðs, tilboðið stendur en við getum valið okkur frá Guði – og fjölskyldunni, vinunum, vinnunni, lífinu! Við þurfum líka að vera okkur meðvituð um að okkur er gert að vera virk á mörgum sviðum: Í samskiptum við ástvini, í starfi okkar úti í samfélaginu og í samfélagslegri umræðu – en eitt þessara sviða má ekki flæða út yfir mörk sín og taka hitt yfir. Og allt skal það vera í þágu samfélagsins við Guð.
Annir, erfiði og byrðar í dagsins önn mega með öðrum orðum ekki leiða okkur frá því sem mestu máli skiptir sem er samfélagið við Guð og kærleikur til náungans sem birtist í verkum í þágu hans.
Guð gefi okkur öllum visku og styrk til að skilja hvar mörkin liggja í lífinu og til að virða þau, í okkar eigin þágu og annarra.