Það er mikið í húfi að þekkja umhverfi sitt og menningu og geta séð samhengi sitt. Það kemur vel fram í bók Elínar Elísabetar Jóhannsdóttur: Það er svo mikið í húfi hjá Stúfi sem Skálholtsútgáfa hefur nýlega gefið út.
Nú nálgast jólin og þeim tengjast ótal sögur sem eru sagðar börnum og fullorðnum. Við viljum heyra sögur, alls konar sögur og við finnum hvenær saga snertir okkur og verður til að auka gleði okkar og skilning á lífinu. Það fannst mér bókin Það er svo mikið í húfi hjá Stúfi gera. Besti mælikvarði minn var áhugi 7 ára stúlku á að hlusta á hana tvö kvöld í röð.
Bókin reynir að tengja veröld jólasveinanna og frásöguna af atburðinum í Betlehem á athyglisverðan hátt. Stúfur er minnstur jólasveinanna og mörgum finnst hann mesta „krúttið” af þeim. Samkvæmt „hefðinni” er hann þriðji jólasveinninn sem kemur til byggða en í upphafi bókarinnar ákveður hann að verða fyrstur og fer því einn af stað. Hann ætlar að ræna sér mat eins og bræður hans gera en fyrir þeim snúast jólin eingöngu um mat. Að sjálfsögðu lendir Stúfur í skemmtilegum ævintýrum og lendir að lokum í leikskóla þar sem hann fær alla athygli barnanna og segir þeim sögur af sér. Fljótlega bætist annar gestur við í skólastofunni, jólaengillinn Engilfríð. Hlutverk hennar er að segja frá fæðingu barnsins í Betlemhem sem gerist löngu áður en Stúfur varð til. Stúfur verður að horfast í augu við að hann er ekki eini jólasérfræðingurinn og að hann þarf að læra að hlusta á viðhorf annarra.
Það er ljóst að markmið höfundar er að segja frá kristnum boðskap jólanna og láta hinn sjálfhverfa Stúf átta sig á jólin byggjast ekki á tilveru jólasveina. En Stúfur er forvitinn og námsfús því hann vill sannarlega vita allt um jólin og hlustar spenntur á Engilfríði.
Inn á milli er stórt letur sem hjálpar þeim sem les upphátt að gera frásögnina spennandi. Frásagan er oft skondin og sannarlega hægt að hlæja að ýmsu.
Það er engin vandlæting á trú á jólasveina eða það að skiftast á gjöfum heldur er reynt að byggja brú milli þessa og að halda jól þar sem sagan af fæðingu Jesú er aðalástæða fyrir jólunum.
Elín Elísabet endursegir sumstaðar texta jólaguðsspjalls Nýja testamentisins en betur hefði farið á að umskrifa einnig beinar tilvitnanir til að auðvelda börnum að skilja boðskapinn. Þá hefði mátt segja hvar jólaguðspjallið er að finna í Nýja testamentinu.
Myndir Sigrúnar Hönnu eru litríkar og kalla á að maður fletti allri bókinni.
Þessi bók gerist á leiksskóla og er ætluð börnum á leikskólaaldri en hún verður að teljast of löng og strembin fyrir þau yngstu. Eldri börn, ættu að geta tileinkað sér hana vel og skilið samhengi tveggja menningarheima gegnum skemmtilega sögur.
Ég mæli eindregið með þessari bók.