Krísa á kristniboðsakrinum

Krísa á kristniboðsakrinum

Ég vil í þessu spjalli reyna að varpa ljósi á hvaða leiðir þær aðrar kirkjur sem þjóðkirkjan deilir með samfélagi og sjálfsmynd, og sem á annað borð hafa fjallað um málefni samkynhneigðra á sínum eigin vettvangi, hafa farið til að mæta óskum um kirkjulega aðkomu að lögfestu sambandi tveggja af sama kyni.

Lútherskar kirkjur kljást við hjónabandið

Ein af mest endurteknu fullyrðingunum í umræðunni um hjónabandið þessa dagana, er að í Lútherskum sið sé hjónabandið álitið veraldleg stofnun sem lúti lögum og viðmiðum veraldlegra yfirvalda. Í ordinansíu, eða kirkjuskipan, Kristjáns konungs 3. frá 1537/1541, sem er nokkurs konar manifesto hins lútherska siðar á Íslandi, segir um hjónavígsluna og aðkomu presta að henni: “Með ektapersónur hjúskaparins vegna hafa Guðs orðs þjenarar ekki að gjöra, nema það sem viðvíkur þeirra samtenging og að hugsvala þeirra sorgmæddar samviskur en allt annað heyrir til veraldlegrar valdstjórnar.” Hér er sem sé horfið frá þeirri skikkan að hjónabandið lúti kirkjulögum eins og var á miðöldum þegar rómverska kirkjan skýrgreindi hjónabandið sem sakramenti. Hlutverk prestsins er að vera fyrir hönd hins veraldlega valds vottur að þeim gjörningi sem hjúpskaparstofnun er – og að rækja sálgæsluhlutverk sem felst í að flytja hjónunum Guðs orð og biðja fyrir þeim og ásetningi þeirra.[1]

Almennt samkomulag um að hjónavígslan tilheyri hinu veraldlega sviði, virðist hins vegar ekki hjálpa kirkjunnar mönnum þegar hugsanleg aðkoma kirkjunnar að hjúskaparstofnun samkynhneigðra er til skoðunar. Í þeirri umræðu sem hefur staðið yfir um hjónabandið og kirkjulega hjónavígslu í ljósi lagafrumvarps um réttarbætur til handa samkynhneigðum og breytingartillögu þar að lútandi, hefur komið skýrt fram, m.a. í orðum og viðbrögðum biskups Íslands, að þjóðkirkjan ætti erfitt með að gera þær nauðsynlegu breytingar á atferli sínu og kenningarlegum grundvelli, sem í hennar augum gerði hjónaband einstaklinga af sama kyni mögulegt. Óhætt er að segja að biskup Íslands talar ekki út úr einangruðum kirkjulegum afkima þegar hann hnykkir á þeim hefðbundna skilningi að hjónabandið sé fyrir karl og konu, því þetta er hin opinbera afstaða kristinnar kirkju, sama hvar okkur ber niður. Víðast hvar helst hún í hendur við viðtekin menningarleg gildi, þótt hér á landi sé farið að hrikta í stoðum hefðbundins hjónabandsskilnings.

Hér verður ekki skorið úr um hvort og með hvaða hætti þær breytingar sem um er rætt, séu framkvæmanlegar, heldur vil ég í þessu spjalli reyna að varpa ljósi á hvaða leiðir þær aðrar kirkjur sem þjóðkirkjan deilir með samfélagi og sjálfsmynd, og sem á annað borð hafa fjallað um málefni samkynhneigðra á sínum eigin vettvangi, hafa farið til að mæta óskum um kirkjulega aðkomu að lögfestu sambandi tveggja af sama kyni. Þetta eru aðallega kirkjur í okkar næstu nágrannalöndum, flestar lútherskar og allar af kirkjufjölskyldu mótmælenda. Þá reyni ég að draga fram þau áhrif sem frumkvæði einstakra kirkna á þessu sviði hefur á samstarf og samlíf kirknasamfélagsins – og þar kemur krísan við sögu. En ég mun sem sagt að mestu leyti halda mig við það sem snýr að hinum kirkjulegu athöfnum, helgisiðunum, í þessu efni.

Kirkjuleg blessun yfir staðfesta samvist

Eins og gefur að skilja hefur umræðan um kirkjulega athöfn yfir sambúð einstaklinga af sama kyni risið hvað hæst í þeim löndum þar sem lög um staðfesta samvist hafa gengið í gildi. Þannig er staðan á öllum Norðurlöndunum en þar gengu lög um staðfesta samvist í gildi á árunum 1989 (Danmörk), 1993 (Noregur), 1994 (Svíþjóð), 1996 (Ísland) og 2001 (Finnland). Í öllum þessum löndum hafa skapast miklar væntingar til þjóðkirknanna að þær takist á við þær spurningar sem vakna um stöðu samkynhneigðra gagnvart kirkjulegri stofnun hjónabandsins.[2] Sænska leiðin

Sú kirkja sem hefur hvað lengst unnið með málefni samkynhneigðar og kirkju á guðfræðilegan hátt er sænska kirkjan. Fyrst árið 1972 var unnið að guðfræðilegri úttekt á samkynhneigð, sem var bæði umdeild og mikið rædd. Síðan fylgdu frekari greinargerðir ásamt tillögu að blessunarathöfn fyrir samkynhneigð pör sem var tekin fyrir á ólíkum vettvangi kirkjunnar.[3]

Það nýjasta í málefnum samkynhneigðra í sænsku kirkjunni er að á kirkjuþinginu 2005 var samþykkt að útbúa form yfir fyrirbæna- eða blessunarathöfn yfir pari í staðfestri samvist sem skal vera aðgengilegt í hverju prestakalli sænsku kirkjunnar. Um það bil 2/3 hlutar þingsins samþykkti þessa málsmeðferð, auk þess sem kenningarnefnd og biskupafundur stóðu óskipt að málinu. Þessi meðferð þýðir að sænska kirkjan hefur farið með málið eftir öllum sínum leiðum þar sem hinar ýmsu stofnanir segja álit sitt og hafa um málið að segja. Þar með verður sænska kirkjan ein þeirra fyrstu í heiminum sem hafa samþykkt að standa að opinberri fyrirbæn/blessunarathöfn yfir staðfestri samvist í samhengi safnaðarins á grundvelli kirkjunnar allrar.

Þar að auki afgreiddi kirkjuþingið síðastliðið haust ályktun í fjórum þáttum sem felur í sér að 1) fordæmingu á samkynhneigðum einstaklingi og tengingu samkynhneigðar við sekt einstaklingsins er hafnað, 2) kirkjan skuli á virkan hátt vinna gegn mismunun einstaklinga vegna kynhneigðar, 3) kirkjan skuli á engan hátt eiga þátt í skipulögðum “lækningum” á samkynhneigð, og 4) það að vera samkynhneigður og/eða í staðfestri samvist er ekki ástæða fyrir því að fá ekki vígslu til kirkjulegrar þjónustu. Þá var samþykkt að vinna áfram að guðfræðilegri úttekt á samlífsmálum og auka stuðning við fjölskyldur og börn.

Málefni í mótun

Þegar litið er á þær kirkjur sem á annað borð eru meðvitaðar um veruleika samkynhneigðra og vilja koma til móts við þá á einhvern hátt, er hægt að greina á milli þriggja flokka þar sem spurningar um kirkjulega þjónustu við pör í staðfestri samvist eru afgreiddar á sinn sérstaka hátt.

Í fyrsta flokknum eru kirkjur (eða einstök biskupsdæmi, í tilfelli anglíkönsku kirkjunnar) sem á þartilgerðum sameiginlegum vettvangi hafa tekið ákvörðun um að bjóða upp á blessunarathöfn með pari í staðfestri samvist í nafni kirkjunnar og nota til þess form sem hafa verið samþykkt af viðeigandi stofnunum í viðkomandi kirkjum.

Í annan stað eru kirkjur sem hafa “leyft” slíkar athafnir án þess að þær hafi hlotið samþykki stofnanna kirkjunnar. Þær eru því ekki framkvæmdar í nafni kirkjunnar allrar og fara fram með einstaklingsbundnum hætti, í samvinnu einstaka presta og þeirra para sem eiga í hlut.

Í þriðja flokknum eru kirkjur sem líta á fyrirbæn með pari í staðfestri samvist sem hluta af sálgæslu kirkjunnar við einstaklinginn og að sem slík sé hún ekki hluti af opinberum athöfnum kirkjunnar heldur einkamál milli prestsins og þess sem hann veitir fyrirbænina. Ekkert form er því útbúið af hálfu kirkjunnar í þessum tilgangi.

Margar af mótmælendakirkjunum (lútherskar og reformertar) í Þýskalandi og á Norðurlöndum hafa átt heima í síðasta flokknum, enda er ekki óeðlilegt að opnun gagnvart aðstæðum samkynhneigðra byrji á þann hátt sem einkennir þennan flokk kirkna. Þróunin virðist þó vera sú að fleiri og fleiri kirkjur í þessum flokki kanna möguleikana á opinberu blessunaratferli.[4]

Í öðrum flokknum má finna nokkrar af þýsku mótmælendakirkjunum.

Í fyrsta flokknum, þar sem form fyrir blessun para í staðfestri samvist hafa verið tekin upp og samþykkt af viðeigandi stofnunum kirkjunnar, eru enn sem komið er aðeins 4 mótmælendakirkjur (lútherskar/reformertar) og 3 biskupsdæmi innan Bandarísku biskupakirkjunnar sem tilheyrir anglikönsku kirkjunni. Þetta eru evangelíska kirkjan í Rhineland, evangelíska kirkjan í Hessen Nassau (báðar í Þýskalandi), mótmælendakirkjan í Hollandi og danska þjóðkirkjan. Anglíkönsku biskupsdæmin eru þau í New Westminster, Washington DC og Vermont.

Eins og áður sagði er það hin opinbera staða blessunarathafnarinnar í þessum kirkjum sem gerir áhugavert að skoða hvaða skilningur er þar með lagður í athöfnina – og sambandið sjálft – út frá hefðbundnum skilningi á kirkjulegri hjónavígslu. Hvað merkir það að blessa í þessu samhengi? Hver er munurinn á blessun, fyrirbæn og vígslu, sbr. hjónavígslu? Hvernig miðla formin sem eru notuð þessum skilningi kirkjunnar á eðli hjónabandsins og sambands samkynhneigðra?

Of langt mál er að rekja einstakar útfærslur á blessunarformum á þessum vettvangi en óhætt er að benda á að ofangreindar kirkjur hafa í kjölfar breytinga á lagaumgjörð og samfélagslegum viðhorfum, litið í eigin barm og tekið til endurskoðunar hefðbundna sýn á samlíf og hjónaband. Aukin réttindi samkynhneigðra á hinu veraldlega sviði hafa hvatt kirkjurnar til þess að koma til móts við óskir samkynhneigðra innan sinna eigin vébanda. Ólíkar leiðir

Almennt má segja að þróunin innan kirknanna, þegar kemur að pörum í staðfestri samvist, hefur verið í áttina frá fyrirbæn í samhengi sálgæslunnar til þess að standa að samþykktum formum sem eru framkvæmd í samhengi opinberrar guðsþjónustu.

En hvernig líta þessi form út? Hvert er inntak þeirra? Hvaða skilningi miðla þau?

Inntak og uppbygging kirkjulegs atferlis við guðsþjónustur þar sem staðfest samvist pars er blessuð eru afar ólík eftir því hvar borið er niður og sumstaðar vilja kirkjurnar meðvitað iðka fjölbreytileikann þegar kemur að blessun staðfestrar samvistar.

Sú er raunin með sænsku kirkjuna. Samkvæmt samþykkt kirkjuþingsins síðastliðið haust, sem rakin var hér að ofan, verða útbúin form í þessum tilgangi og þau verða lögð fyrir og endanlega samþykkt sem slík af kirkjuráði, biskupafundi og kirkjuþingi núna í ár. Útbúið verður þrenns konar atferli. Eitt af því mun svipa mjög til venjulegs hjónavígsluritúals eins og það er iðkað í sænsku kirkjunni. Þá verður form sem byggist upp á grind sem einstaka söfnuðir nota síðan til að forma athöfnina eftir efnum og aðstæðum. Þriðja formið fyrir blessun staðfestrar samvistar er uppbyggt á allt annan hátt en hið hefðbundna hjónavígsluritúal og lýtur allt öðrum forsendum en það.[5]

Sænska leiðin gerir því ráð fyrir að pör í staðfestri samvist geti þegið blessun kirkjunnar í umgjörð sem gerir annað hvort; líkir eftir hefðbundinni hjónavígslu, eða mætir þeim á hinsegin forsendum. Nú hefur sænska formið ekki verið tekið í notkun enn sem komið er og er því ekki hægt að segja um notkun þess, hvaða form samkynhneigðum muni hugnast best í þessu samhengi. Tíminn mun leiða það í ljós.

Ekúmenísk viðbrögð

Eitt af því sem hefur verið haldið mjög á lofti í kirkjulegri umræðu um réttindi samkynhneigðra er að frumkvæði einstakra kirkna í þá átt gæti haft skaðleg áhrif á samband þeirra við aðrar kirkjur sem ekki telja sér kleift að opna umræðuna á sama hátt. Þetta er spurningin um diplómatísku hliðina á kirkjulegum samskiptum. Í því ljósi er áhugavert að skoða viðbrögð við ákvörðunum sænsku kirkjunnar á alþjóðlegum vettvangi. Þau eru ekki mikil, enn sem komið er. Yfirlýsing kom frá Moskvupatríarkanum um að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan myndi slíta öll tengsl við Svíana – sem reyndar voru ekki mikil eða djúpstæð til að byrja með – og síðan hefur Enska biskupakirkjan (Church of England) sent frá sér nokkuð gagnrýna yfirlýsingu um stefnu sænsku kirkjunnar, bæði varðandi áform um sérstakt ritúal fyrir kirkjulega blessun staðfestrar samvistar og þær ályktanir um samkynhneigð sem kirkjuþingið sænska samþykkti og var vísað til hér að ofan.[6] Í enska svarinu er það sérstaklega tekið fram að alvarleiki þess ágreinings sem er ríkjandi milli kirknanna í þessum efnum, muni að miklu leyti ráðast af því hversu líkt formið sem sænska kirkjan samþykkir fyrir blessun staðfestrar samvistar er hinu hefðbundna formi hjónavígslunnar.

Innan lútherska kirknasamfélagsins hafa síðan málefni fjölskyldu, hjónabands og samkynhneigðar verið mikið til umræðu. Lútherskar kirkjur hafa u.þ.b. 66 milljónir meðlima um allan heim – sem er aðeins minna en hið 70 milljón manna anglikanska kirknasamfélag. Lútherskar kirkjur eru margar og mjög ólíkar – með ólíkar rætur og guðfræðilega sjálfsmynd – og lifa í veruleika sem mótar þær í ólíkar áttir. Til að gera langa sögu stutta hefur það reynst þungur róður fyrir kirkjur í Norður-Evrópu og Ameríku sem hafa viljað koma málefnum samkynhneigðra á kortið, að fá systurkirkjur sínar til að mynda í Afríku og Austur-Evrópu að fylgja með. Það sem gerir þetta mál svo erfitt sem raun ber vitni eru fyrst og fremst aðkoma ólíkra menningarheima, sem móta viðhorf okkar til einstaklingsins og stöðu hans í samfélaginu. Það getur reynst þrautin þyngri að halda sig við guðfræðileg rök, í umræðu um hjónaband og samkynhneigð, þótt bara guðfræðingar séu viðstaddir. Og þetta á við hér sem annars staðar.

Þrátt fyrir menningarlega litríkt samfélag þá hafa lútherskar kirkjur sameiginlegan játningargrunn sem gerir þeim kleift að halda samtali og samstarfi áfram þrátt fyrir ágreining um málefni hins veraldlega sviðs – og þar undir falla siðferðileg og samskiptaleg málefni, eins og sambúð, hjónaband og fjölskyldur óneitanlega eru. Ekkert af þessum hlutum kemur inn á stöðu manneskjunnar gagnvart Guði, samkvæmt kenningum Lúthers – á hinn bóginn lifum við tilveru okkar í tengslum við aðrar manneskjur og erum sem slík sett undir lögmál náungakærleikans. Þess vegna getum við ekki sagt að góð verk skipti engu máli fyrir Lútherana – þótt hann réttlætist ekki af þeim fyrir Guði, sbr. kenninguna um réttlætingu af trúnni einni saman.[7]

Spurningar um hlutskipti barna í samböndum, um þýðingu og hlutverk hjónabandsins, um þarfir allra til að fá að veita ást og þiggja ást, leitin að réttlátu fyrirkomulagi í sambúð fólks – og viðurkenning á mannréttindum – eru því mikilvægar guðfræðilegar spurningar fyrir lúthersku kirkjuna og þar verður hún að taka slaginn, ætli hún að vera trú köllun sinni.

Niðurlag

Sé litið á þá umræðu sem á sér stað í lútherskum – og öðrum – kirkjum í dag er ljóst að svarið við spurningunni “Hjónabandið – fyrir hverja?” er að hjónabandið sé stofnun sem einn karl og ein kona geta verið aðilar að. Við sjáum hins vegar mikla breidd í því hvernig kirkjurnar fjalla um málefni samkynhneigðra og hversu opnar þær eru fyrir þeirri hugsun að samkynhneigð sé hluti af sköpunarverkinu en ekki birtingarform syndar og saurlifnaðar. Ég tel að þau átök sem einkennt hefur umræðuna í íslensku þjóðkirkjunni, á milli hefðbundins hjónabandsskilnings með áherslu á sköpunar- og getnaðarmöguleika karls og konu og víðari skilnings á hjónabandinu, þar sem tilgangi þess er frekar fundinn staður í félagslegum tengslum og tilfinningum, og sem tveir af sama kyni geta verið aðilar að, séu einkennandi fyrir umræðuna í lúthersku kirkjunum. Enn sem komið er vill engin lúthersk kirkja leggja sambúð tveggja af sama kyni til jafns við hjónaband karls og konu en margar kirkjur hafa opnað leið til að viðurkenna og styðja við homma og lesbíur í sínum röðum. Það sjáum við ekki síst í opinberum kirkjulegum athöfnum svo sem blessun yfir staðfesta samvist.

Tilvísanir

[1] Einar Sigurbjörnsson “Hugtakið vígsla” tekið saman fyrir kenningarnefnd febrúar 2006.

[2] Þarna nefni ég þjóðkirkjurnar sérstaklega frekar en trúfélög almennt, þar sem stærð þeirra og söguleg tengsl við ríkisvaldið í þessum löndum gefur þeim einstakan sess meðal trúfélaganna.

[3] Kirkjuþing, kirkjuráð, biskupafundur, biskupsdæmi, sóknir og stofnanir. Þess má geta að eftir tillögur og frekari umræður á sænska kirkjuþinginu 1997 endurskoðuðu biskuparnir þessa tillögu árið 1999 og tengdu inntak fyrirbænarinnar lífi safnaðarins sjálfs frekar en einkaupplifun parsins – og athöfnin þannig færð nær almennri, opinberri guðsþjónustu. Enda var það raunin að fyrirbænir með pörum í staðfestri samvist höfðu verið iðkaðar í samhengi og nærveru safnaðar, fjölskyldu og vina.

[4] Nils-Henrik Nilsson “The Blessing of a Registred Partnership” 2005. Það á líka við um þjóðkirkjuna, þar sem hverjum presti hefur verið í sjálfsvald sett að veita þessa þjónustu á vettvangi sálgæslunnar.

[5] Nils-Henrik Nilsson “The Blessing of a Registred Partnership” 2005

[6] http://www.cofe.anglican.org/info/ccu/new/response.html. Sænska og Enska kirkjan eru í Porvoo kirknasamfélaginu þar sem kirkjurnar hafa skuldbundið sig til samtals og samráðs í kenningarlegum efnum.

[7] Góð verk verða til á forsendum trúarinnar og eru þannig séð ekki óháð trúnni. Þetta er mikilvægt inntak sameiginlegrar yfirlýsingar um kenninguna um réttlætingu af trú sem Lútherska heimssambandið og Vatikanið undirrituðu árið 1999.