Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.
Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.
En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.
Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn. Lúk. 15. 11-32
Hann fer um með gusti og reisn, stoltur yfir sjálfum sér, arfleifð sinni og málstað. Riddari réttlætisins - þess réttlætis sem meirihlutinn skilgreindi og varði með samtryggingu valds á sviði hins veraldlega og andlega. Hann er á leið frá höfuðborginni til þess að elta uppi fólk með aðrar skoðanir. Sjálfsöruggur með óbilandi trú á eigið ágæti, traustur í sessi situr hann með reisn og yfirlætislegri fyrirlitningu á andstæðingum. Á leiðinni um landið hugsar hann ráð sitt - gerir áætlun um för sína, hugsar ræður og rök, súrrar saman sögulegar staðreyndir og samtímarök. Hann er baráttuglaður og ætlar að sýna kristnum mönnum í tvo heimana.
Sál bjargar sálu sinni
Merkilegasti reiðtúr sögunnar stendur yfir. Sál frá Tarsus heitir riddarinn stolti og stæriláti. Hann er á leið til Damaskus í ofsóknarferð á hendur kristnum mönnum. Reiðtúrinn er ekki frægur fyrir það að riddarinn hafi náð marki sínu heldur fyrr það að hann féll af baki og að Kristur birtist upprisinn og spurði riddarann út í ofsóknaræði hans. „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Kristur kom ekki að Sál með hatri og ofsa heldur í kærleika en um leið með ögrandi spurn á vörum, stingandi spurn sem smaug inn í sál þessa sjálfumglaða manns. Hví ofsækir þú mig? spurði hann. Tökum eftir því að hann setur sama sem merki á milli sín og safnaðarins. Ofsóknir gegn kristnum mönnum eru ofsóknir gegn honum. Það er hann sem vakir yfir hjörð sinni ár og síð, einnig nú, sem spyr. Hann sem er sterkur í mildi sinni, öflugur í auðmýktinni, kænn í kærleika sínum og þolinmóður í þjáningunni. Merkasta persóna allra tíma - Jesús Kristur frá Nasaret - barnið í Betlehem, unglingurinn sem gerði spekingana agndofa, maðurinn sem molaði sundur afl djöfuls og dauða - maðurinn sem mótað hefur hugsun veraldar og kennt mönnum að meta náungann rétt, sýna miskunnsemi og sanna mennsku.
Mögnuð saga um mig og þig
Hann er hér í dag og á erindi við þig, vill segja þér örlitla sögu um sanna elsku, fyrirgefningu og miskunn. Sagnameistarinn frá Nasaret sem íhugaði lífið við hefilbekkinn við ilm af spænum og sagi á meðan hann vann skapandi höndum að iðn sinni. Hann segir sögu úr mannlífinu, sögu sem gæti verið úr Vesturbænum, fjölskyldusögu, sögu átaka, hagsmuna, sögum um sjálfsmynd og afstöðu til annarra. Meitluð saga - svo hlaðin vísdómi að hún lifir enn sem ótæmandi lind sem kynslóðirnar hafa ausið af um aldir.
Sagan er um Guð og mann, um elskandi föður á himnum sem leitar hins týnda. Guð leitar allra manna, hann leitar þín, þekkir líf þitt betur en þú gerir, þrár þínar, lífsþorsta, þjáninguna og líka þyrnana í lífi þínu.
Sagan um synina tvo lifir í vitund okkar í skörpum dráttum og andstæðum. Sonurinn týndi er kominn aftur heim, búinn að rasa út og eyða öllu, kominn í þrot, búinn að ná botninum og þá, loksins þá, gengur hann í sjálfan sig og snýr við. Iðrun heitir það á máli trúarinnar - iðrun - að snúa við - taka róttæka beygju af vegi glötunar og inn á veginn sem liggur til lífsins. Er þetta ekki saga okkar allra að einhverju leyti? Höfum við ekki öll þurft að iðrast og snúa við? Í trúarlegu samhengi þekkist það að frelsast, breyta alveg um stefnu, snúa sér að hinu trúarlega, stíga yfir frá dauðanum til lífsins. Slík reynsla er stundum litin hornauga, fólk er feimið við slíka reynslu og vitnisburði fólks um að frelsast. Samt er það einmitt þetta sem Kristur leggur áherslu á þegar hann hefur starf sitt og segir: Gjörið iðrun því himnaríki er í nánd! Hann kallar til róttæks afturhvarfs - og svo róttæk er krafa hans að hann segir að ekkert megi koma upp á milli Guðs og manns, hvorki foreldrar, systkini né nokkrir aðrir. Hann notar meira að segja orðið að „hata“ um þá algjöru afneitun alls annars en samfylgdarinnar við Guð. Og við finnum til vanmáttar gagnvart slíkri kröfu. En þá koma orð postulans í góðar þarfir, þess sama og féll af baki og lærði sína lexíu síðar á lífsleiðinni: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir.“ Einn dag í senn skulum við fylgja Kristi og treysta honum, hann mun vel fyrir sjá.
Þolinmóður leitandi
Kjarninn í textum dagsins er að Guð leitar mannsins. Leitin gerist með því að hann biður, hvíslar, kallar. Eins og forðum í Edens ranni er hann kallaði til Adams, talaði til samvisku hans, kallar hann einnig til okkar. Það gerir hann í orði sínu, frásögnum, dæmisögum, spakmælum. Enginn er undanskilinn þessari óþreytandi leit Guðs. Hann leitaði Sáls frá Tarsus uppi og mætti honum með ögrandi spurningu. Hann talaði til týnda sonarins, vakti samvisku hans af svefni og doða í svínastíunni og leiddi hann heim í fögnuð og sælu. Guð er leitandinn - óþreytandi í elsku sinni. (Sagan er mun skarpari í hinum gyðinglega samhengi en okkar því Gyðingar fyrirlitu svín og allt sem þeim tengdist.) Kristur knúði og knýr enn á hjörtun, hjörtu ráðamanna og stjórnenda, hjörtu karla og kvenna í öllum stéttum og aðstæðum. Guð talar til stjórnmálamanna í gegnum kjósendur, blaðagreinar og skoðanaskipti sem eru svo mikilvæg forsenda heilbrigðs samfélags. Á mörgum sviðum þjóðlífs er ástæða til afturhvarfs, ástæða til að snúa við af helvegum og hættuslóðum. Það er vissulegar ástæða til að huga betur að réttlæti í þessu landi og skiptingu auðs og auðlinda, varðveislu hálendis og náttúrusvæða sem eru einstök í sinni röð. Ísland á sínar Edens vinjar sem við erum sett yfir sem ráðsmenn. Þar þurfum við að fara varlega og ekki falla fyrir fagurgala um skjótfenginn gróða. Og síðast en ekki síst er ástæða til að óttast vaxandi tilhneigingu til valdníðslu og ofríkis.
Því miður rætast orð Krists allt of oft er hans segir: Heyrandi heyra þeir ekki og sjáandi sjá þeir ekki og þ.a.l. geta þeir ekki snúið sér til Guðs og hlotið þá líkn og lækningu sem sálir þeirra þarfnast.
Á réttum stað
Þú hefur lagt leið þína í hús Drottins til þess að heyra hvað hann vill við þig tala. Orð hans til þín á þessum góða morgni eru orð trúar og elsku.
Að lifa í þessari vissu er að lifa í samhengi, finna sig í áætlun Guðs um heilan heim og hamingjuríka framtíð. Kirkjan leiðir okkur inní þetta samhengi og heldur því við með prédikun sinni og starfi. Hún er samfélag syndara, týndra dætra og sona, sem snúið hafa frá villu síns vegar, ekki aðeins einu sinni, heldur daglega í iðrun og trú. Lúther lagði áherslu á daglegt afturhvarf. Gott orð afturhvarf! Að snúa til baka, snúa frá villu síns vegar og til lífsins. Orðið tjáir vel merkingu frumtexta Biblíunnar þar sem talað er um iðrun.
Heilagir syndarar!?
Kirkjan er í senn samfélag syndara og samfélag heilagra. Hvernig má það vera? Erum við heilög? Já, vegna þess að við erum helguð Jesú Kristi í heilagri skírn. Signingin er árétting þess að við tilheyrum Guði, erum börnin hans, eins og mörkuð lömb sem leidd eru - ekki til slátrunar - heldur haglendis og eilífs lífs. Kirkjan er samfélag syndara eða eins og spekingur sagði: Kirkjan á að vera heilsustofnun fyrir syndara en ekki safn fyrir dýrlinga (Abigail van Buren).
Sagan um týnda soninn eða um synina tvo er saga um viðbrögð Guðs við þrá mannsins og þörf. Hann er sem faðir, móðir, elskhugi, maki sem fyrirgefur og gleymir. Reiði hans er á enda og hann opnar faðm sinn og segir: Ég elska þig eins og þú ert. Komdu til mín og þú munt finna sálu þinni hvíld og frið. Lærðu af mér því ég er hógvær og af hjarta lítillátur, segir Kristur, og þú mund uppskera hamingju, en ekki án erfiðleika og andstreymis, heldur hamingju sem er ávöxtur erfiðis. Sú hamingja er sæt og bragðgóð, safarík og nærandi, seður hið innsta og dýpsta hungur sem býr með hverri manneskju, hungur eftir réttlæti og sanngirni, friði og hamingju. Á hjörtu okkar er letrað lögmálið: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ Þessi orð gullnu reglunnar eru í raun undirstaða heilbrigðs þjóðfélags. Andspænis órétti boðar Guð hugarfar föðurins sem fyrirgefur og elskar án skilyrða.
Til hamingju með að tilheyra þessu mikilvæga samhengi. Með því að ganga til fundar við Drottinn í kirkju hans höfum við opnað hjörtu okkar fyrir kærleika hans og getum því mætt heiminum með opnum hug og hjarta í kærleika. Samfélag okkar þarfnast kærleika Guðs. Verum örlát á kærleikann sem Guð hefur gefið.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.