Kórsöngur og þakklæti í hjartanu

Kórsöngur og þakklæti í hjartanu

Ég held að Jesús vilji meiri kórsöng og meira þakklæti, sýni aðstæðum kvenna sem gangast undir fóstureyðingu skilning, sé fylgjandi jafnræði og jöfnu aðgengi allra, og sé alveg sultuslakur yfir fjölmenningunni á Íslandi, stöðu trúarinnar í almannarýminu: þessum hlutum sem við, hin trúuðu, getum svo auðveldlega látið valda okkur angist.

Ein vinsælasta kvikmyndin fyrir tæplega sextíu árum, eða árið 1956, var stórmyndin Boðorðin Tíu, sem Cecil B. DeMille leikstýrði. Myndin skartaði stjörnum á borð við Yul Brynner og Charlton Heston, hún var tekin á söguslóðum Biblíunnar, og engu til sparað til að færa í myndrænan búning söguna um Móse, hebreska drenginn sem var bjargað fyrir snarræði systur sinnar, ólst upp í egypsku hirðinni en er síðan valinn til að leiða sína eigin þjóð út úr þrældómi og til frelsis í landinu sem henni var ætluð.

Eins og titill myndarinnar gefur til kynna er hápunktur hennar þegar Móses tekur á móti boðorðunum tíu frá Guði sjálfum. Þetta er vitanlega útfært á afar dramatískan hátt, og myndmál og tækni þess tíma notað til að undirstrika mikilvægi og merkingu atburðarins. Steintöflurnar eru á sínum stað og við sjáum hvernig eldur frá himni ristir á þær boðorðin, frá því fyrsta til þess tíunda, og undir þrumar rödd Guðs af himnum. Röddina lánar Charlton Heston sem leikur því ekki bara Móse í myndinni - heldur líka Guð.

Boðorðin tíu Boðorðin tíu hafa óneitanlega sérstöðu í gyðing-kristinni menningarhefð og í þeim löndum þar sem hún hefur ríkt. Við getum sagt að þau séu ákveðinn grunnur sem siðfræði og gildi standa á og séu sem slík algild, standist tímans tönn og séu ekki afstæð. Við getum líka sagt að þau miðli sammannlegri visku og lærdómi um reglur sem er farsælt að fylgja, svo réttur fólks til lífs, eigna og virðingar sé tryggður.

Það sem boðorðin miðla um samskipti og samfélag fólks er að finna í ótal útfærslum og afleiðum í lögum og samþykktum, í einstaka löndum og á milli þjóðríkja. Samhengi boðorðanna tíu er saga Hebrea eða Ísraelsmanna og þess vegna er framsetning þeirra mótuð af menningu lítillar jarðyrkjuþjóðar sem bjó innan um margar aðrar þjóðir, af ólíkri gerð, með ólík trúarbrögð, og sem þurfti oftar en ekki að berjast fyrir tilveru sinni. Þennan sögulega bakgrunn verðum við að hafa í huga ef við viljum gera textanum og boðskap hans rétt til og til að skilja hvernig boðorðin hafa áhrif á ólíkum tímum.

Boðorðin í samtímanum Boðorðin eru lifandi í menningunni og taka á sig nýjar og nýjar myndir, bæði sem form og að innihaldi. Í borginni Wittenberg í Þýskalandi er varðveitt 16. aldar veggmynd úr réttarsal borgarinnar, þar sem dómar voru upp kveðnir yfir þeim sem höfðu gerst brotlegir í samfélaginu. Veggmyndin inniheldur 10 ramma, einn fyrir hvert boðorð og þar má sjá dæmigerða evrópska bændur og borgara, klædda í föt síns tíma og í mjög þýsku landslagi, annað hvort heiðra eða brjóta viðeigandi boðorð. Nærvera boðorðanna í dómshúsinu sendi líklega mjög skýr skilaboð til þeirra sem höfðu líf og frelsi meðborgara sinna í höndum sér, svo þeir hugsuðu sig tvisvar um áður en dómar voru kveðnir upp.

Og það er alls ekki óalgengt að við sjáum í okkar eigin samtíma vísanir í boðorðin sem mikilvægt form á reglum eða markmiðum sem við viljum setja okkur að fylgja til að bæta líf okkar og auðvelda samskipti við aðra. Á heimasíðu Meniga má t.d. finna Tíu boðorð í fjármálum fyrir fólk á þrítugsaldri. Við í Laugarneskirkju þekkjum líka aldeilis vel Samskiptaboðorðin og Geðorðin 10 sem við vorum minnt á í Geðveiku messunni sl. sunnudag. Það eru einnig ófáir top tíu listarnir sem safna saman ráðum og reglum sem hjálpa fólki við daglegt líf og eigin aðstæður. Einn svoleiðis er eftir Árelíu Eydísi, sem hefur lengi bloggað á Mogganum, og hjá henni hljómar sjöunda boðorðið svona: “Þú skalt gera ráð fyrir því besta og treysta því að allt fari vel. Sleppa takinu…og leyfa Guði.”

Æðsta boðorðið Bestu ritskýringuna á boðorðunum tíu er hins vegar að finna í orðum Jesú í guðspjalli dagsins, þegar hann svarar spurningunni um hvað það er sem skiptir mestu máli í þessu lífi, hvert sé hið æðsta boðorð. Það er þetta, segir Jesús: “Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.”

Þarna fáum við dýrmæta leiðsögn um það hvernig við eigum að lifa og hvernig við eigum að nota trúna sem Guð gefur okkur. Til að elska, elska, elska. Frelsi trúarinnar er fólgið í því að nota sambandið við Guð móta líf okkar og framgöngu gagnvart þeim sem við mætum. Eins einfalt og þetta hljómar klúðrast þetta gjarnan. Og við þurfum að vera heiðarleg með að við sem setjum trúna á dagskrá, gerum það oft á algjörlega misheppnaðan hátt. Þess vegna finnst mér vænt um gagnrýnina sem okkar frábæra skáldkona Guðrún Eva Mínervudóttir beinir að mér og öðrum trúuðum, þegar hún segir í viðtali í helgarblaðinu í tilefni af nýrri skáldsögu sinni sem fjallar m.a. um mót manneskjunnar við trúna:

Þegar fólk fer að gapa mjög mikið um guð og kærleikann þá er oft ekkert gott í uppsiglingu, það er svo auðvelt að nota trúarbrögð í illum tilgangi….Maður tengir trúarbrögð ósjálfrátt við geðbilun eða ofbeldi og yfirgang, þannig að maður vill ekki endilega skipa sér í lið þeirra sem básúna trú sína. Trúarbrögðin eru stundum með undanbrögð þegar kemur að mannréttindum, til dæmis réttindum kvenna og samkynhneigðra og það er ólíðandi. Engan afslátt af mannréttindum, takk! Ég hef hins vegar alltaf verið trúuð, það er svona kórsöngur og þakklæti í hjartanu, kjölfesta sem ég myndi ekki vilja vera án.

Þetta eru umhugsunarverð orð hjá Guðrúnu Evu og þau kallast í mínum huga á við nálgun Jesú, þegar hann segir að það eina sem skipti máli sé að nota ást okkar á Guði til að elska náungann. Í Jesúnálguninni er ekkert rými fyrir mannréttindabrot eða fordóma, ekki gagnvart þeim sem eiga annan bakgrunn en við, tilheyra öðrum hópi, elska öðruvísi eða hnýta bagga sína öðrum hnútum. Ástin til Guðs og ástin til náungans er kórsöngur og þakklæti í hjartanu.

WWJD?

Við þurfum að slá skjaldborg um þess háttar trú. Leggjast á eitt með að breyta viðhorfinu sem trúaðir verða fyrir, með því að líkjast Jesú meir og gera hann að fyrirmynd okkar. Ég held að Jesús vilji meiri kórsöng og meira þakklæti, ég held að Jesús sýni aðstæðum kvenna sem gangast undir fóstureyðingu skilning, ég held hann sé fylgjandi jafnræði og jöfnu aðgengi allra, fatlaðra og ófatlaðra, íslendinga og útlendinga, að kerfum ríkis og borgar og ég held hann væri alveg sultuslakur yfir fjölmenningunni á Íslandi og stöðu trúarinnar í almannarýminu, þessa hluta sem við hin trúuðu getum svo auðveldlega látið valda okkur angist.

Boðorðin tíu eru útfærsla hebresku þjóðarinnar á grunngildum sem gæta réttar og virðingu manneskjunnar og hið æðsta boðorð sem Jesús vitnar til er ekki bara kjarni kristinnar trúar heldur liggur í miðju gyðingdómsins þangað sem kristin kirkja sækir það, eins og svo margt. Það er mikilvægt að gleyma því ekki hvernig viska og lærdómur býr í hefðum sem virðast í fyrstu liggja svo óralangt frá okkar eigin. Boð Jesú um að leyfa ástinni til Guðs móta líf okkar allt og samskipti, á vera okkar æðsta boðorð. Þá veitist okkur allt hitt að auki. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.