Saga Guðrúnar Ebbu lætur ekkert okkar ósnortið. Við eigum varla orð til að lýsa því hvað okkur finnst hún hugrökk og sterk að deila hræðilegri reynslu af kynferðisofbeldi af hendi föður síns. Föður sem var líka prestur sem varð biskup og æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar.
Þegar við stöndum andspænis svona hryllingssögu vakna sterkar tilfinningar. Við spyrjum spurninga eins og hvers vegna, hvernig í ósköpunum og hvað brást?
Í dag lifir þjóðkirkjan í skugga Ólafs Skúlasonar og ofbeldis hans í garð kvenna og sinnar eigin dóttur. Hún lifir líka í skugganum af því hvað hún átti erfitt með að horfast í augu við það sem gerðist. Kannski vitum við aldrei alla söguna, hvort fleiri konur og fleiri börn sköðuðust á sál og lífi vegna hans.
Mikilvæg skref til réttlætis og lækningar hafa verið tekin af hálfu þjóðkirkjunnar til að rétta hlut þolenda Ólafs Skúlasonar. Þjóðkirkjan eignar sér ekki baráttu þeirra hugrökku kvenna sem hafa stigið fram og sagt sögu sína en verður að horfast í augu við að ekki var hlustað á þær þegar þær knúðu dyra eins og skýrsla rannsóknarnefndar kirkjuþings frá því í sumar greinir frá með skýrum hætti.
Þessum sögum er ekki lengur stungið ofan í skúffu í skömm og sorg yfir því sem gerðist. Við erum ekki lengur hrædd við að horfast í augu við það sem hefur gerst og leggjum allt í sölurnar til að það gerist aldrei aftur.
Guðrún Ebba er bandamaður í baráttunni fyrir málstað kirkjunnar um öryggi og réttlæti til handa þolendum kynferðisofbeldis. Í samstarfi við Guðrúnu Ebbu og aðra aðila stendur þjóðkirkjan að ráðstefnu og námskeiði með Marie Fortune í næstu viku um kynferðisofbeldi í kirkjunni. Þar verður ljósi varpað á málefnið út frá þeirri miklu reynslu og þekkingu sem stofnun dr. Fortune býr yfir á sviði forvarna og viðbragða við kynferðislegri misnotkun í samhengi kirkju og trúfélaga.
Lítum aldrei aftur undan.