Efasemdir

Efasemdir

Við gleymum því oft að fyrstu fylgjendur Jesú tóku upprisunni ekki þegjandi og hljóðalaust. Þeir gleyptu ekki við henni eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þeir efuðust.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
25. apríl 2011
Flokkar

Náð sé með okkur öllum og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Jesús Kristur er upprisinn. Jesús Kristur er sannarlega upprisinn. Yfir því gleðst og fagnar kristin kirkja um allan heim þessa daga. Jesús Kristur, sem dó á krossi, hefur snúið aftur til lífsins. Hann, sem var píndur og krossfestur, dáinn og grafinn, er risinn upp frá dauðum, stiginn út úr gröf sinni. Hann er nálægur og lifandi og hefur með upprisu sinni gefið okkur fyrirheit um líf þrátt fyrir dauða. Jesús hefur sigrað dauðann og með því fullvissað okkur um að hann var sá sem hann sagðist vera: Guð sjálfur, almáttugur skapari himins og jarðar, kominn í heiminn kominn til að finna þig og greiða þér veginn til eilífs lífs.

Þetta hljómar eiginlega of gott og einfalt til að vera satt er það ekki?

Þannig hugsa margir. Og það er ekkert nýtt. Við gleymum því oft að fyrstu fylgjendur Jesú tóku upprisunni ekki þegjandi og hljóðalaust. Þeir gleyptu ekki við henni eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Þeir efuðust.

Samt höfðu þeir fylgst með Jesú og fylgt honum eftir. Þeir höfðu hlustað á hann tala og séð hann að verki. En það dugði ekki til. Það dugði ekki Maríu. Það dugði ekki Pétri eða hinum. Maríu, sem fyrst kom að gröfinni, nægði ekki að sjá ekki Jesú þar. Það fyrsta sem henni kom til hugar var að einhverjir hlutu að hafa tekið Jesú, stolið líkinu.

Viðbrögð Maríu eru lýsandi fyrir fyrstu viðbrögð hinna lærisveinanna. Þeir höfðu allir varann á sér. Eru það ekki eðlileg viðbrögð? Eru það ekki mannleg viðbrögð? Lærisveinarnir voru menn eins og við. Lærisveinarnir höfðu allir flúið í kjölfar krossfestingarinnar. Þeir voru niðurbrotnir og sáu ekki annað en að boðskapur Jesú hefði beðið fullkominn ósigur með krossfestingu hans og dauða. Ef dauði Jesú sýndi eitthvað þá sýndi hann að Jesús hafði villt á sér heimildir.

Já, efi fylgir allri trú. Við skulum ekki gleyma því.

Enginn er ónæmur fyrir efa. Og það er út af fyrir sig styrkjandi að vita að jafnvel lærisveinar Jesú og fyrstu fylgjendur glímdu við sínar efasemdir og óvissu. Það minnir okkur á að allt kristið fólk þarf að glíma við efasemdir með einum eða öðrum hætti. Enginn kemst til trúar án þess að glíma við efa og erfiðar spurningar.

Trú er alltaf glíma – glíma við Guð, glíma við okkur sjálf, glíma við okkar innri mann og við lífið og margvíslegar aðstæður okkar í lífinu. Og stundum höfum við yfirhöndina, stundum lendum við undir. Það mikilvægasta er að horfast af heiðarleika í augun við eigin efasemdir og víkja sér ekki undan þeim eins og þær eru eitthvað til að fela og skammast sín fyrir. Efi er enginn skömm. Allir mestu trúmenn kristinnar sögu gengu í gegnum efasemdir. Að glíma við efa er að glíma við spurningar sem þarfnast svara. Efi er eins og vaxtarverkur. Að vaxa og þroskast í trú sinni er ekki án sársauka eða átaka. Þannig hefur það aldrei verið. Efi sprettur gjarnan af óraunsæju mati okkar á sjálfum okkur og trú sem slíkri. Málið er að við erum takmörkuð. Okkur er ekki gefið að skilja allt milli himins og jarðar – hvað þá skapara himsins og jarðar. Það væri eins og fluga gæti krufið okkur til mergjar og öðlast fullkominn skilning á því hver maðurinn er og hvað það er að vera maður.

Segjum að þú viljir virða fyrir sér stjörnurnar. Þú getur ekki gert það í björtu. Það er ekki hægt að sjá stjörnurnar í dagsbirtu eins og við vitum. Við verðum að bíða þangað til það dimmir. En stjörnurnar eru til staðar þrátt fyrir það. Þó að við sjáum þær ekki um miðjan dag þá eru þær á sínum stað. Málið er að augu okkar nema ekki birtu þeirra á daginn. Þau eru ekki þeirrar gerðar. Við þurfum myrkið til að sjá þær. En stjörnurnar sjálfar þurfa ekki myrkur til að vera til. Þær skína jafnt að degi til.

Það sama gildir um Guð og upprisu Krists. Við getum ekki skynjað Guð með þeim hætti frekar en stjörnur að degi til. Við getum ekki heldur skilið upprisuna til fulls. En það breytir ekki veruleika upprisunnar þó við getum ekki séð hana í þeim skilningi.

En vandinn er að við gerum einmitt oft kröfu einmitt til þess. Við ætlumst til þess að trú okkar sé jafn skiljanleg og sjálfgefin og að tveir plús tveir eru fjórir. Það er skiljanlegt í ljósi þess að við þráum öll fullvissu og það öryggi sem fólgið er í henni. En slík krafa er því miður óraunhæf. Flest allt sem mestu máli skiptir í lífinu er ekki sannanlegt í þeim skilningi: Hver er tilgangur lífsins? Hvað er gott og illt? Hvað er að vera góð manneskja? Hvað bíður okkar að þessu lífi loknu. Það eru engar formúlur eða mælingar sem geyma svörin við þeim spurningum.

Að sætta sig við þær takmarkanir sem við erum bundin er nauðsynlegur þáttur og skilyrði þess að vaxa og þroskast í trú sinni. Og þess vegna er líka svo gott að eiga svona guðspjall eins og það sem við heyrðum áðan. Guðspjall sem minnir okkur á að fyrstu fylgjendur Jesú áttu í sinni eigin glímu þegar upprisan var annars vegar.

Auðvitað höfum við staðreyndir til að styðja okkur við líka. Það er engin ástæða til að horfa framhjá því. Jesús dó. Hann var grafinn á opinberum stað sem allir vissu um. Og gröfin var sannarlega tóm. Það var á allra vitorði líka. Enginn gat neitað því. Þeir sem helst hefðu viljað kveða niður upprisutrúnna – rómversk og gyðingleg yfirvöld – gátu ekki gert það. Það eina sem þau hefðu þurft að gera var að leiða fram líkama Jesú. Það var ekki gert. Hins vegar voru margir, hundruðir, sem sáu Jesú líkt og lifandi væri, við margvísleg tækifæri á löngum tíma. Og fylgjendur Jesú, sem efuðust í fyrstu og flúðu í skelfingu og ótta, stigu líka fram, nú sannfærðir og fullvissir um upprisu hans frá dauðum, og það svo mjög að þeir fórnuðu lífi sínu fyrir trú sína.

Allt bendir þetta í sömu átt – til hins ótrúlega, til hins undursamlega, til raunverulegrar upprisu Jesú Krists frá dauðum. En sú trú, sú fullvissa, hlýtur þó alltaf að grundvallast á persónulegri upplifun og persónulegu samfélagi við hinn krossfesta Krist. Á það minnir guðspjallið okkur líka. Upprisan er ekki bara eitthvað sem „einu sinni gerðist“. Upprisan verður ekki raunveruleg og lifandi fyrr en við snúum okkur til Jesú líkt og María gerði og segjum í huga okkar og hjarta „Rabbúní“; þegar við gerum hann að Drottni okkar lífs og förum að lifa lífi okkar í ljósi upprisunnar og þannig feta þann veg sem upprisa Krists opnar og gerir mögulegan – veginn til Guðs og þess lífs sem hann ætlar okkur öllum.

Þá förum við að sjá og skilja upprisuna og hvað hún merkir.

Já, tökum undir með postulanum er hann segir: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum . . . Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar.“

Það hljómar eiginlega of gott til að vera satt.

En það er það samt.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

* * * *

Ritningarlestrar og guðspjall:

Lexía: Davíðssálmur 16.8-11

Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Fyrir því fagnar hjarta mitt, hugur minn gleðst og líkami minn hvílist í friði því að þú ofurselur helju ekki líf mitt, sýnir ekki gröfina þeim sem treystir þér. Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

Pistill: Fyrra Pétursbréf 1.3-

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum. Kraftur Guðs varðveitir yður sem trúið til þess að þér öðlist hjálpræðið sem albúið bíður þess að opinberast á efsta degi.

Fagnið því þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. Það er til þess að trúfesti ykkar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó er reynt í eldi, geti orðið ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar.

Guðspjall: Jóhannesarguðspjall 20.11-18

En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“

Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.

Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“

Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“

Jesús segir við hana: „María!“

Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)

Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“

María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.