Samkvæmt nýjum starfsreglum um biskupskjör hefur atkvæðisréttur verið rýmkaður og meira en tvö hundruð og fimmtíu nýir leikmenn fengið atkvæði í kosningum til biskups Íslands og vígslubiskups. Svona lítur 2. grein starfsreglnanna út sem samþykktar voru á síðasta kirkjuþingi:
2. gr. Kosningarrétt við biskupskjör eiga vígðir þjónar og leikmenn sem hér segir: a) biskup Íslands, vígslubiskupar og þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Ennfremur þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem settir eru til þjónustu til eins árs eða lengri tíma. b) prestvígðir menn í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar. c) þjónandi djáknar í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar. Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningarréttar. d) kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi og í kirkjuráði. e) formenn allra sóknarnefnda sem og varaformenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra. f) kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og eru guðfræðingar. Skilyrði kosningarréttar er að kjósandi sé skráður í þjóðkirkjuna við framlagningu kjörskrár.Valddreifing og valdefling er eitt mikilvægasta verkefnið sem Þjóðkirkjan stendur frammi fyrir á nýrri öld. Almennur prestdómur allra skírðra er mikilvægt sjónarmið í lútherskri guðfræði og byggir á jafnréttishugsjón siðbótarinnar um að öll störf og hlutverk séu jafnmikilvæg í augum Guðs, hin lærðu jafnt sem leiku. Enn vantar mikið á að hinn almenni prestdómur hafi skilað sér inn í stjórnkerfi kirkjunnar og ákvarðanatöku. Biskupskosningaframtakið er gott skref þá átt. Nú þarf líka að halda áfram og stíga aukin lýðræðisskref í því hvernig kosið verður til Kirkjuþings í framtíðinni. Auðvitað á allt Þjóðkirkjufólk að geta kosið til Kirkjuþings og haft þannig áhrif á það hvernig fjármunum er varið og þjónustunni háttað í landinu.
Nýju reglurnar hafa margt til síns ágætis, en betur má ef duga skal. Hvers vegna eru sóknarnefndarmenn þess umkomnir að kjósa biskup, en ekki organistarnir? Hvað um æskulýðsfulltrúana, kirkjuverðina, hringjarana og meðhjálparana? Af hverju mega hinir trúföstu kirkjukórameðlimir ekki kjósa? Af hverju ekki allt hitt fólkið sem hefur metnað fyrir kirkjuna sína og vill veg hennar sem mestan? Hin vígða þjónusta hefur reyndar líka verið efld á ánægjulegan hátt með því að færa djáknunum rétt til að kjósa biskup.
Nýju starfsreglurnar eru stikur á leið til aukins lýðræðis. Meira lýðræði fylgir líka aukin ábyrgð, meira gagnsæi og nýjar aðferðir. Með nýju reglunum gefst meira en 500 manns kostur á að kjósa nýjan biskup. En hvernig á að standa að kosningum við þessar nýju aðstæður? Hvernig á að ná til alls þessa fólks?
Ég tel að það sé mikilvægt að yfirstjórn kirkjunnar taki þátt í að byggja upp nýjar hefðir í sambandi við biskupskosningar sem hæfi nýju atkvæðalandslagi um land allt. Sóknarnefndarformenn í strjálbýli eiga trauðla eftir að geta farið um langan veg á eigin kostnað. Eiga þeir að fara á fimm fundi um 300 kílómetra veg til að hlusta á hugsanlega frambjóðendur? Eins getur það vafist fyrir mörgum þeim sem gefa kost á sér hvernig ná eigi sambandi við alla þessa kjörmenn.
Þess vegna tel ég mikilvægt að Þjóðkirkjan sinni lýðræðinu ekki bara með lagasetningum, heldur með því að móta nýjar hefðir. Þegar Kirkjuráð blæs til biskupskosninga á næstunni þyrfti að gera ráð fyrir einhverjum fjármunum til fundahalda um land allt. Ég legg til að haldnir verði fimm til sex kosningafundir á lykilsstöðum á landinu í marsmánuði og að Biskupsstofa leggi til fjarfundabúnað fyrir þá kjörmenn sem ekki geta komið á staðinn. Þessir fundir ættu að vera öllum opnir. Þar með væri það tryggt að einhver kynning færi fram á biskupsefnum um landið allt og að allir landsmenn sem áhuga hafa á biskupskosningunum geti fylgst með þeim. Á síðasta Kirkjuþingi var útvarpað beint á netinu frá fundum og gafst vel. Síðan voru upptökurnar settar á netið og hver og einn hefur getað hlustað á þær. Þetta fyrirkomulag þarf nauðsynlega að komast á í biskupskosningum, helst í formi vídeós frekar en hljóðskráa, þótt hið síðarnefnda sé að sönnu betra en ekkert.
Og síðan myndu biskupsefnin nota hvert sína leið við kynningu og að afla atkvæða.