Aðventan er gengin í garð. Í hugum og hjörtum flestra ríkir með réttu tilhlökkun og eftirvænting. Brátt koma heilög jól með frið sinn og blessun. Á aðventunni hlustum við eftir fögnuðinum mikla, sem okkur er boðaður, við horfum til barnsins, sem mun fæðast. Aðventan er tími vonar.
Þegar skuggar skammdegisins leggjast að, kveikjum við ljós aðventukertanna, sem vitna um komu ljóssins eilífa sem við okkur skín í Drottni Jesú Kristi. Í ljósi aðventunnar er fólgin birta bænarinnar: „Kom þú, kom vor Immanúel.“ Kom þú, Drottinn Guð minn með ljósið þitt og lýs upp huga minn allan og hjarta mitt.
Elskulegi, miskunnsami Guð:
Á ég þessa bæn í brjósti mínu? Á ég rúm fyrir þig í hjarta mínu, eða er ég eins og gistihúsaeigandinn í Betlehem, sem vísaði þér burt?
Nú þegar margir helgir dagar eru framundan – og annasamur tími – þá er rétt að ég skoði hjarta mitt og hvernig undirbúningi jólanna er háttað þar. Hvað stoðar það mig að kaupa jólatréð og skreyta það á dýrlegan hátt, að setja jólasteikina í ofninn og hafa rúmin uppábúin, taka upp allar gjafirnar, og gera alla þá hluti, sem fyrir mér gera jólin að jólum? Hvað stoðar það mig ef ég gleymi í önnum mínum jólunum í hjarta mínu?
Ætla ég að halda veraldleg jól, láta mér nægja vafstur daganna og þeysast frá einni búð til annarrar, og búa mér til jól um stundarsakir, fallega og haganlega innpökkuð og taka svo utan af þeim í hendingskasti rétt áður en ég leggst niður og kasta mæðinni?
Nei. Ég ætla að halda kristin jól. Ég ætla ekki að safna mér jólum eins og nirfill, sem má ekki við því að nein þeirra misheppnist – ég hef gert það, Guð minn. En ekki núna. Ég ætla að halda jólin eins og ég man þau úr bernsku minni. Ég ætla að njóta jólanna með öllum þeim hátíðarbrigðum sem lýstu þau upp í bernsku minni. Þá ríkti í hjarta mínu barnsleg tilhlökkun frá fyrstu stund, löngu áður en jólin sjálf gengu í garð. En ég ætla að umvefja helgina í huga mínum og hjarta þessari tilhlökkun. Já, þessar síðustu vikur til jóla ætla ég að nota til að hugsa um jólin forðum, þegar ég hlakkaði til af barnslegri gleði, svo mjög að undan verkjaði. Ég ætla að nota þessar síðustu vikur fram að jólum til að hugsa um bernsku jólanna sjálfra, um nóttina forðum í Betlehem, hin fyrstu jól.
Ég ætla að hugsa um sjálfan mig. Um allt það sem ég hef gert eða látið ógert. Ég ætla að hugsa um áhyggjur mínar og sorgir mínar, um gleði mína og sigra. Hvað hef ég gert vel, hvað miður? Hvað hefur orðið útundan? Ég ætla að hugsa um heiminn, um neyð hans og þörf. Ég ætla að hugsa um náunga minn. Hvernig hef ég reynst þér? Hvar get ég gert betur? Ætlar þú að halda jól – getur þú það? Gangi ég framhjá þér í neyð þinni þá geng ég framhjá jólunum. Ég ætla að hugsa um allt þetta.
Og ég ætla fyrst og síðast að hugsa um þig. Og ég ætla að halda jólin. Ég ætla að kveikja á kertunum mínum og skreyta jólatréð mitt og sjá þar ljósið sem stafar frá jötunni þinni. Ég ætla að gefa gjafir og gleðja aðra í þakkargjörð og til minningar um þá gjöf sem þú hefur gefið mér. Ég ætla að njóta aðventunnar og jólanna með börnunum mínum og njóta gleðinnar í augum þeirra í fölskvalausri þökk fyrir barnið – kærleikann – sem þú hefur gefið mér, sent mér.
Ég ætla að njóta jólanna sjálfra og bægja frá mér öllu vafstri eins og mér framast er unnt. Vera einn með þér, tala við þig, njóta þín, gefast þér eins og þú vilt gefast mér. Ég ætla að biðja þig að jólin mín verði mér sú gjöf sem ég þigg úr kærleiksríkri hendi þinni og að allt mitt verði þér til þakkargjörðar og endurgjalds. Gef þú, algóði faðir, að jólin fái rúm í fjárhúsi hjarta míns. Ljáðu dögum mínum, sem framundan eru helgi þína. Gef þú mér og öllum öðrum gleðileg jól og hjartans gleði með hverju öðru og frá hverju öðru og helga alla algerlega. Varðveit anda allra og sálir alheilar og vammlausar við komu sonar þíns, Jesú Krists. Ég bið í hans blessaða nafni. Amen.